miðvikudagur, maí 23, 2007

Farin

Tækniörðugleikar

þriðjudagur, maí 22, 2007

Finninn er djammóður svo nú sit ég í vinnunni og greiði fyrir það. Finnar eru frægir fyrir að vera fyllibyttur, Íslendingar eru frægir fyrir að vera fyllibyttur svo þetta er banvæn blanda.

föstudagur, maí 18, 2007

Finninn kemur

Á morgun kemur fyrrum bekkjarfélagi minn, sambýlingur og vinkona í heimsókn til mín til Reykjavíkur. Hún ætlar að vera hér í heila 10 daga svo ég verð að taka á öllu sem ég á til að vera hress og skemmtileg í heila 10 daga. Þeir sem til þekkja vita að það getur verið mér erfitt. En ég mun reyna. Að sjálfsögðu verður farið beint á reykvískt næturlíf og vonast til að það standi undir væntingum. Var búin að marglofa það þegar ég bjó úti og kvartaði yfir því sænska. Allir sem eru skemmtilegir því endilega að fara út á laugardag og leita okkur uppi. Og plís veriði sjúklega skemmtileg

Stjórnmálatuð

Einhvern tíma þarf maður víst að hafa rangt fyrir sér og það hafði ég með fyrri yfirlýsingum um áframhaldandi ríkisstjórnarsamstarf B og D. Ég fagna því auðvitað að "vinstri" flokkur fái nú aðild að stjórn eftir langa útilokun. Hefði auðvitað verið betra ef V og S hefðu verið saman þarna, ein og óstudd en það var víst ekki í boði. Því fáum við aftur Viðreisnarstjórnarmynstur.
Hef fulla trú á að Ingibjörg Sólrún muni standa sig vel enda kvenskörungur mikill. Ég vona einnig að hetjan mín, Jóhanna Sigurðardóttir fái ráðuneyti. Hún hefur verið eitt af mínum átrúnaðargoðum frá því hún var félagsmálaráðherra (held ég alveg örugglega) og afþakkaði ráðherrabíl og bílstjóra og ók um á eigin bílskrjóð. Þegar ég lýsti þessu einhvern tíma yfir í hópi ungra frjálshyggjupilta fussuðu þeir yfir því að ég félli fyrir svo ódýru bragði. Ég sé nú Geir Haarde eða Þorgerði Katrínu fórna slíkum forréttindum þó það væri í þeirri von um að skora nokkur atkvæði. Áfram Jóhanna! Verst að hún er í vitlausum flokki.
Í þessu öllu saman finnst mér líka leiðinlegt hvað formaður vor Steingrímur Joð er í mikilli fýlu yfir málalokum. Þetta er ástæðan fyrir því að oft þykja mér stjórnmál afar leiðinleg, það eru allir alltaf í fýlu við alla ef hlutirnir fara ekki nákvæmlega eftir þeirra eigin höfði. Ég hafði alla vega ekki viljað sjá V með D í stjórn því það myndi fela í sér alltaf mikinn afslátt af málefnum. Steingrímur var nú reyndar eitthvað farin að slá af rétt eftir kosningar til að sleikja D upp. Svoleiðis lýst mér ekki á. Ég vil að þetta lið standi fast á sínu og ef það fellur ekki í kramið hjá vinsælu krökkunum þá verður bara að hafa það.

þriðjudagur, maí 15, 2007

Komin suður

Úrslit kosninga liggja nú fyrir og verð ég að segja það að ekki koma þau nú mikið á óvart. Ég spáði því að ríkisstjórnin myndi halda og því miður hafði ég rétt fyrir mér. Eins og það er nú gaman að hafa rétt fyrir sér þótti mér það miður í þessu máli. Spái því einnig að valdasjúku Framsóknarmenn muni áfram sitja í ríkisstjórn með ránfyglinu.

Er annars flutt suður og byrjuð að vinna. Bý í kjallarholu í Þingholtunum sem býður ekki upp á internet svo eitthvað verður lítið um blogg. Reyni að lummast í vinnunni kannski annað slagið.

laugardagur, maí 12, 2007

föstudagur, maí 11, 2007

Sorrí, get ekki hætt

Ég ætla að skrifa eitt enn um Júróvision og svo er ég hætt. Enda löngu komið nóg.

Ég vil gjarnan taka tilbaka allt um svindl við kosningarnar. Ég er svo mikið nörd að ég fór aðeins að hlusta á nokkur lög úr keppninni í dag. Ég stóð mig að því að hlusta bara á "austur Evrópu" lögin. Ég kaus satt að segja eitt þeirra í gær. Danmörk var leiðinlegt, Noregur var skítsæmó, Belgía var martröð, Holland niðurdrepandi, Sviss grín, Austurríki púkó og Portúgal jakk. Kannski verðum við bara að sætta okkur við það að þau eru bara betri en við í Júróvision. Ætli þessi ríki muni ekki brátt valta yfir okkur á öðrum sviðum líka og t.d. búlgarskur auðjöfur kaupa Símann og Íslendingar að streyma til Póllands til að vinna í Prins Póló verksmiðju.

Ef þetta er bara klíkuskapur fyrrum Sovétlýðvelda hvernig gat þá Finnland unnið í fyrra, var það vegna ótta um nýtt Vetrarstríð eða hvað?

Meira Júróvision

Held ég hafi komið með lausn í stóra Júróvision málinu. Við þurfum auðvitað bara að safna liði. Við vitum að liðið á norðurlöndum nennir kannski að kjósa okkur svona stundum og því vantar okkur bara fleiri norðurlönd. Sem sé, gefa Færeyjum og Álandseyjum sjálfstæði, gera Danmörku að 3 löndum, Sjálandi, Fjóni og Jótlandi, Vestmannaeyjar eiga alveg skilið að vera sjálfstæðar, Árni Johnsen getur verið forseti (þá þurfum við hin uppi á landi ekki að hlusta á hann lengur), Svalbarði getur orðið lýðveldi, yrði stærsta háskólasamfélag heims (miðað við höfðatölu), hægt yrði að flytja nokkra til Jan Majen o.s.frv.
Þá er bara að stofna til smá illinda svo alþjóðasamfélagið hjálpi okkur við að skipta þessu drasli niður í smáeiningar. Vandamálið er auðvitað að við höfum verið allt of friðsæl síðustu áratugina.

Svindl

Það þarf engan stjórnmálafræðing til að sjá að þessar júróvisionkosningar eru ekkert nema svindl. Ég heimta að kosningaeftirlit S.Þ. hafi yfirumsjón að ári.

P.S. Ef einhver flokkur kemur með loforð um að segja okkur úr Evrópu og sækja um í Ameríku þá kýs ég þann flokk, þó hann muni bera listabókstafinn D.

fimmtudagur, maí 10, 2007

Tilraun til heilaþvottar

Þar sem ég er stjórnmálafræðingur áskil ég mér þann rétt að leiðbeina fólki aðeins í stjórnmálum þar sem ég er FRÆÐINGUR athugið um þessi mál.
Trúið því mér þegar ég segi; landið mun ekki fara til anskotans þó Sjálfstæðisflokkurinn sitji ekki í ríkisstjórn. Ef þið trúið mér ekki lítið til hinna Norðurlandana þar sem vinstriflokkar hafa oftast verið við völd.
Mér finnst ótrúlegt að um 40% kjósenda ætli sér að kjósa flokk sem hefur verið við völd nánast tja, alltaf. Ég ætla ekki að halda fram að hér á Íslandi sé allt í skít en mér finnst hins vegar komin tími til að leyfa einhverjum öðrum að spreyta sig. Mér finnst ekki gott ef við ætlum að halda áfram að byggja hér upp samfélag þar sem bilið milli ríkra og fátækra eykst ár frá ári. Mig langar ekki að búa í landi þar sem til eru ríkra manna hverfi og fátækrarhverfi. Að sérstakir skólar verði til þar sem ríku krakkarnir fara og hía á krakkana í blokkahverfaskólunum. Mig langar ekki að búa í landi þar sem því er troðið að manni leynt og ljóst að helsta dygðin sé að verða ríkur. Hvernig sem farið að því að verða ríkur virðist vera aukaatriði. Mig langar heldur ekki að búa í landi þar sem virkjanir eru við hvern bæjarlæk því að stjórnvöld eru of hugmyndasnauð til að finna aðrar leiðir til atvinnuuppbyggingar. Hvað þá að það sé í lagi að selja orkuna til samviskulausra alþjóðafyrirtækja sem koma fram við starfsmenn sína eins og tíðkaðist við upphaf iðnbyltingar. Mig langar heldur ekki að búa í landi sem hefur ekki sjálfstæða utanríkisstefnu. Mig langar ekki að búa í landi þar sem ríkir geta keypt sig fram fyrir raðir í heilbrigðiskerfinu. Mér finnst fremur augljóst að allt stefni í að heilbrigðiskerfið verði einkavætt þar sem ríkið virðist hafa voðalega gaman að því að einkavæða. Það er svo hagstætt sjáiði til. Mig langar heldur ekki að búa í landi þar sem ekkert er verið að gera í jafnréttismálum. Markaðurinn á að sjá um þau mál.
Hvernig væri að prófa eitthvað nýtt. Plís ekki kjósa Sjálfstæðisflokkinn. Hlustið á mig, ég er fræðingur sjáiði til.

Myndasyrpa

Ég hef verið með eindæmum léleg bæði að taka myndir og setja hér inn síðan ég kom heim. Ég ætla aðeins að bæta úr því með því að skella hér inn nokkrum.
Hér að ofan er litli sæti frændi minn hann Jobbi litli sem var einmitt 4 ára þann 3. maí og bauð húsmóðirin Agla að sjálfsögðu í kaffi og meððí
Varð svo að skella mynd af hinum fjallmyndarlega föður mínum ásamt einhverjum vini sínum.
Hér er síðan Gunna (sem verður eflaust himinlifandi yfir því að vera komin á veraldarvefinn) en hún kom til landsins í stutt stopp í mars að mig minnir. Hún á sætan kött sem er þó ekki alveg jafn sætur og okkar en slagar upp í það.
Stína stuð kom svo um páskana og skemmti mér og öðrum með nærveru sinni. Hún er einmitt frænka Eika Hauks sem mun trylla lýðin í kvöld.
Svo er hér einhver ljóshærð gella sem ég veit ekki nánari deili á
Hér er að lokum hluti fjölskyldunar er við skelltum okkur í badminton. Held jafnvel að þetta sé sportlegasta fjölskyldan norðan heiða.
Aldrei skal setja á sig gloss á varirnar áður en maður fer í klippingu til að laga toppinn (ákvað að gefa honum annan séns). Loðnar varir eru ekki foxí

miðvikudagur, maí 09, 2007

Kosningar

Ekki það að ég þurfi eitthvert próf til að segja mér hvað ég eigi að kjósa en þó tók ég þetta nú samt (http://xhvad.bifrost.is/). Það sem er mest sjokkerandi er að næst á eftir vinstri grænum er stuðningurinn mestur við Sjálfstæðisflokkinn. Fyrr frysi í helvíti en ég myndi kjósa það gengi. Kaus Samfylkinguna í fyrstu Alþingiskosningunum sem ég hafði kosningarétt, það hafa greinilega verið mikil mistök.

Stuðningur við Sjálfstæðisflokk: 25%
Stuðningur við Framsóknarflokk: 10%
Stuðningur við Samfylkinguna: 0%
Stuðningur við Vinstri-Græna: 75%
Stuðningur við Frjálslynda flokkinn: 9%
Stuðningur við Íslandshreyfinguna: 20%

þriðjudagur, maí 08, 2007

Megrun spegrun

Á sunnudaginn var víst svokallaður megrunarlausi dagurinn. Eflaust hafa margir fagnað því að hafa löglega afsökun fyrir að hætta í megrun svona í einn dag. Ég hélt upp á hann með því að kaupa mér bland í poka. Reyndar geri ég það næstum á hverjum degi svo það er kannski ekki að marka.
Annars vildi ég lýsa andstyggð minni á öllu þessu megrunartali eða það sem flestir kalla "vera í átaki" því það hljómar betur og eins og maður sé ekki eins feitur. Ég vildi hins vegar deila því með ykkur sem eruð í þessum hugleiðingum, einu besta megrunarráði sem um getur. Að hætta að vera í megrun.
Þannig er það að ég eins og svo margar konur, hef í gegnum árin verið með krónískt samviskubit yfir nokkrum mör sem ég hef bætt á mig síðan ég varð fullorðin. Ég hef oft talið mér trú um að ég yrði loksins fyllilega hamingjusöm, bara ef ég myndi nú missa þó ekki væri nema 2 kíló. Ég hef oft farið í megrun (og ég geri mér þó alveg grein fyrir að ég er ekkert sérstaklega feit) bara af því mig langar að komast í buxur í minna númeri því að þá væri ég miklu meiri pæja.
Megrunin byrjaði oft á mánudegi og fór oft vel af stað þar sem ég borðaði t.d. epli yfir sjónvarpinu á kvöldin en ekki bland í poka. Þriðjudagurinn var oft erfiðari en oftast þraukaði ég þó. Á miðvikudeginum gafst ég oftast upp, fór út í búð og keypti mér allt sem mig langaði í og nærðist ekki þann daginn á neinu öðru en nammi, poppi og öðru slíku. Fimmtudagurinn fór svo í samviskubit og sjálfsvorkun yfir því hvað ég hefði litla sjálfstjórn og ég myndi aldrei aftur passa í gallabuxurnar sem ég var í í MA.
Ein áramótin fyrir einhverjum árum síðan, var ég hins vegar komin með upp í háls af þessu rugli. Ég strengdi þess heit að hætta að hugsa um hvað ég mætti og mætti ekki borða og borða bara það sem ég vildi. Ef mig langaði í nammi, þá borðaði ég nammi og ef mig langaði að borða popp og kók í kvöldmati þá gerði ég það. Viti menn, ég léttist um einhver 2 kíló og hætti að þjást af stanslausum ásökunum í minn garð yfir því hvað ég væri léleg í að halda aftur af mér.
Nú ætla ég ekki að halda því fram að ég sé algjörlega laus við þennan fitukomplex og þessi 2 kíló löngu komin aftur og fleiri til, en ég held að ég sé ekki jafn geðveik í þessum málum og ég var fyrir einhverjum árum. Og þó er ég feitari og ætti samkvæmt fyrri kenningum að vera óhamingjusamari.
Gerum alla daga að megrunarlausum dögum!

laugardagur, maí 05, 2007

Bleik martröð

Varð hugsað aftur til bernskuárana fyrir skemmstu þegar ég skellti mér í fína H&M mjög svo bleika jakkann minn um daginn.
Þetta var örugglega vorið þegar ég var í 0 bekk. Þá þótti það afskaplega hallærislegt að halda upp á litinn bleikann. E.t.v. vegna þeirra tengingar sem sá litur hefur við stelpur almennt og það sem stelpulegt er þykir oftast lítið töff. Alla vega þá vildi enginn vera sakaður um það að finnast eitthvað sem var bleikt, flott. Ég, litla, pervisna og feimna stúlkan átti mér þó myrkt leyndarmál sem var falið djúpt í hugskoti mínu og ásótti mig. Í einfeldni minni sagði ég eldri systur minni frá þessu leyndarmáli. Bleikur var í raun uppáhaldsliturinn minn!
Einn daginn eftir skóla kom vinkona mín með mér heim. Af einskærri illsku blaðrar systirin út úr sér leyndarmálinu beint fyrir framan vinkonuna. Í örvæntingu reyni ég að verjast öllum ásökunum en sé fljótt að leikurinn er tapaður. Vinkona mín VEIT að mér finnst þessi stelpulitur í alvörunni flottur. Í örvilnun hleyp ég inn á bað og læsi á eftir mér. Tárin byrja að streyma og ég heyri hvernig flissið í þeim fyrir utan færist nær og nær hurðinni. Nú eru góð ráð dýr. Ekki get ég farið fram og mætt dæmandi augnarráði vinkonunar og glugginn á baðherberginni er of lítill og of hátt upp til að hægt sé að troða sér út um hann. En trúið mér ég reyndi þó. Mín örlög voru því að hanga grenjandi inni í klósetti þangað til mamma kom heim og gera það sem ég var og er best í; klaga!
Ég man svo ekki frekari eftirmála þessa máls en minnist ég þó ekki einhverrar útskúfunar í kjölfarið og virðist ég ekki hafa borið allmikinn skaða af. Alla vega spásseraði ég alls óhrædd nú fyrir nokkrum dögum í bleikasta jakka sem fyrirfinnst án þess að finna fyrir vott af skömm.

föstudagur, maí 04, 2007

Vorboðinn

Í dag er síðasti dagurinn minn á FSA, svona í bili a.mk. Einhvern veginn virðist ég alltaf enda hérna aftur. Hef unnið hér meira og minna á sumrin (sem og reyndar á öðrum tímum) síðan sumarið 1996 þegar ég byrjaði ferilinn í bítibúrinu á Seli. Mér hefur líkt við farfuglana af nokkrum starfsmönnum sjúkrahússins þar sem sumarið er víst komið þegar ég mæti á svæðið. Einhvers konar náttúrulögmál. Vona þó að svo sé ekki raunin þar sem ef svo væri yrði sumarið búið í dag.
Finnst annars vafasamur titill að vera einhvers konar vorboði. Man eftir einum sem var kallaður það hér á Akureyri og þó það sé eflaust ágætis kall langar mig ekkert að vera líkt við hann.

Nonni kominn úr sauðskinsskónum yfir í eðalsteina

Svo skilst manni sem Garðar Thor Cortes sé að slá í gegn í útlöndum. Svo merkilegur er hann að nú er hann sendur á verðlaunahátíðir skrýddur eðalsteinum úr smiðju forsetafrúarinnar. Veit ég eigi hvort það er honum til framdráttar því alla vega að mínu mati er aðeins eitt sem er klígjulegra en karlmaður með skartgripi en það er karlmaður með demantskross um hálsinn sem kostar 254 miljónir króna. Oj!

fimmtudagur, maí 03, 2007

Jón í grjótið

Það gleður mig að dómur hefur loks fallið í endavitleysunni sem kallast Baugsmálið. Grunar þó að eitthvað munum við fá að heyra meira af því. Ekki það að ég viti eitthvað um málið, en hefði mér þótt eitthvað skemmtilegt við það ef Jón Ásgeir og co hefðu þurft að fara í grjótið en ekki bara fengið skilorðsbundinn dóm. Held líka að fangar almennt séu ósáttir við það að fá ekki Jón sem kollega sinn í steininum þar sem slíkt hefði eflaust falið í sér aukinn lúxus í afplánuninni. Fersk er minningin þegar Árni Johnsen reddaði splunkunýjum rúmum í fangelsið að Kvígabryggju. Ég man það mjög vel því þá var ég, fátæki námsmaðurinn, einmitt nýbúin að punga út 50 þúsund kalli fyrir rúm sömu tegundar.
Ef Árni gat reddað rúmum hvað hefði þá eiginlega Jón litli orðið sér og sínum úti um? Held að eftir að Bónusdrengurinn hefði endurbætt aðstöðu fanga hefði hvert mannsbarn á landinu dreymt um að komast í grjótið. Spáiði í því ef hann hefði þurft að halda komandi fertugsafmælið þar inni. Óhætt er að fullyrða að glæpaalda myndi skekja samfélagið sem aldrei fyrr.

Kommi/komma

Eftir síðustu færslur býst ég fastlega við því að viðurnefnið Anna Kommi hafi fests við mig. Er þá markmiðinu náð enda lengi þráð þá nafnbót. Þekki nú þegar til Óla Komma og Stebba Komma og finnst alveg tími til kominn að fá kvenmann í kommaviðurnefnishópinn. Reyni að standa undir nafni með fleiri færslum í kommúnískum stíl. Svo bíðið spennt.

Spurning hvort ég væri komma frekar en kommi svona þar sem ég er kvenkyns, það væri svo sem líka kúl.

miðvikudagur, maí 02, 2007

Fram þjáðir menn í þúsund löndum...

Til hamingju með daginn!
Eins og sönnum sósíalista sæmir fór ég í Fyrsta maí göngu í dag. Verð þó að viðurkenna að ekki hef ég nú oft farið í slíka göngu en batnandi mönnum er best að lifa. Nokkurt fjölmenni var í göngunni á Akureyri í ár og ætli veðurblíðunni sé þar ekki einhverju að þakka. Hluti af minni sósíalísku fjölskyldu var þarna samankominn þar sem við töltum á eftir lúðrasveitinni undir Internationalen og fleiri góðum slögurum. Skemmtilegt þótti mér nú að ganga fram hjá höfuðvígi erkiandstæðingsins, kosningamiðstöð Sjálfstæðisflokksins. Þar sátu blámenn og horfðu með vanþóknun á gönguliða, verkalýðspakkið og fátæklingana. Eða svona alla vega dramatiseraði ég þetta augnablik í huga mínum. Eflaust voru þau bara í sólbaði og nákvæmlega sama um eitthvað lið með fána og lúðrasveit.
Gangan hélt svo í annað vígi Sjálfstæðisflokksins, Sjallann, en þar fengu gönguliðar húsaskjól fyrir ræðuhöld og kaffiþamb. Eitthvað fór nú fyrir ofan garð á neðan hjá mér hvað átti sér stað þarna því ég var upptekin við að sýna frændsystkinum mínum athygli. En svo steig poppstjarnan Ögmundur Jónasson í pontu og þrumaði yfir lýðnum um auðvaldið og þeirra klæki til að svíkja okkur launafólk. Fussum svei! Gamall eldmóður minn sem hefur mikið róast síðustu árin, byrjaði aftur að krauma, slík var fegurð og sannleikur orða meistarans.
Held ég verði bara að fara að lesa Kommúnistaávarpið aftur enda ein sú fallegasta lesning sem hægt er að komast í. Á ég því miður ekki eintak á íslensku en það er víst ófáanlegt. Ég man einmitt þegar ég hringdi í ágæta bókabúð hér í bæ fyrir nokkrum árum til að spyrja hvort þeir ættu það á íslensku. Ég var alveg bit þegar frökenin í símanum spurði mig hver væri höfundurinn. Finnst nú að hvert einasta mannsbarn ætti að þekkja þetta rit. Ég ætlaði nú alltaf að safna þessu ávarpi á hinum ýmsu tungumálum en er þó aðeins komið með það á ensku og sænsku. Lélegt safn það ...

Öreigar allra landa sameinist

mánudagur, apríl 30, 2007

Eftir helgi

Ég man þá tíð þegar það var ekkert hallærislegra en að sjást á almannafæri með mömmu sinni eða pabba. Fólk gæti haldið að maður ætti enga vini og þyrfti þess vegna að hangsa með gamla liðinu. Sem betur fer óx maður upp úr þessu því núna á ég einmitt enga vini hér á Akureyri. Ég fór því með mömmu minni á tónleika með Leaves á laugardaginn og svo á Karólínu á eftir. Þetta var svaka stuð alveg hreint og ekki amalegt að eiga svona spræka mömmu.

Annars var þetta fyrirmyndarhelgi enda var hér yfir 20 stiga hiti og sól. Reyndi því að ná mér í brúnku og hékk úti á palli og í sundi eins og flestallir Akureyringar. Ekki slæmt að ná sér í smá lit svona áður en maður flytur í rigninguna og myrkrið í Reykjavíkurborg.

föstudagur, apríl 27, 2007

Herinn burt - 2. umferð

Sem gömlum Herstöðvarandstæðingi (nú Hernaðarandstæðingi) þykir mér afar sorglegt að Ísland hafi nú gert samning við Norðmenn um varnarmál. Ekki hef ég orðið þess vör að landið hafi verið hér allt í upplausn og innrásum síðan bandaríski herinn kvaddi landið og sé ég því ekki hvers vegna við þurfum að vera í einhvers konar hernaðarbandalagi við Norsarana. Mér þótti einmitt kjörið tækifæri fyrir Ísland að fara með fordæmi í átt að herlausum heim. Auðvitað erum við ekki það merkileg að slíkt hefði umsvifalaust þau áhrif á heiminn að allir myndu leggja niður vopn en gæti e.t.v. hafa lagt örlítið á vogarskálina í þessum efnum. Okkur Íslendingum þykir oft flott að segja að við höfum engan íslenskan her en hvað hefur slíkt mont upp á sig ef við höfum útlenskan her til að passa okkur. Svo ekki sé minnst á litla íslenska herinn sem við höfum í Afganistan undir nafni friðargæsla. Einnig er vert að hugsa um fyrir hverju er verið að vernda okkur. Hvaða árásir eru þær einu sem gerðar hafa verið á Vesturlönd síðustu áratugi? Hryðjuverk. Þessum árásum hefur heldur ekki verið beint að litlum varnarlausum þjóðum heldur að þeim sem mestan og sterkastan hafa herinn. Allar þær varnaráætlanir sem Bandaríkin höfðu upp 11. september 2001 skilaði þeim litlu þegar kom að því að verja borgarana. Það eina sem her þess lands gat gert við því sem gerðist þann dag var að fara til annarra landa og drepið fleiri.

miðvikudagur, apríl 25, 2007

Pirri pú

Í gegnum tíðina hef ég verið að átta mig betur og betur á því að fólki finnst það alltaf hafa rétt fyrir sér og það sem það gerir sjálft sé það æskilega. Yfirleitt eru það "hinir" sem haga sér eins og fífl. Mér varð sérstaklega hugsað til þessa í gær þegar ég var að synda mér til heilsubótar í Akureyrarlaug. Þar synti ég af miklum móð en þótti mér nokkuð til trafala að þar voru einhver krakkaskott sem þvældust fyrir mér og hægðu á sundi mínu, þar sem þau voru að hanga á línunni sem skiptir lauginni í brautir. Þarna höngsuðust þau og busluðu þannig að ég þurfti að taka á mig nokkurn sveig til að komast fram hjá. Þetta fyllti mig pirring og ég bölvaði krakkagreyjunum í huganum. Það er hins vegar ekki svo langt síðan að mér þótti sjálfri fátt skemmtilegra en að hanga á þessari línunni. Þó það væri bannað og sundlaugarvörðurinn skammaði mann í kallkerfinu. Sömuleiðis var eitthvað fúlt fullorðið fólk sem var að synda sem leit mann hornauga þar sem maður lék kúnstir sínar á línunni góðu. Það fyllti mig pirring sem barn hvað þetta fólk gat verið fúlt. Nú er ég orðin þetta fúla fullorðna fólk.
Sömuleiðis er það gamla fólkið í sundi sem getur líka fyllt mig pirring. Það syndir hægt og hægir því einnig á ferð minni. Ekki líður á löngu þar til ég verð síðan ein af þeim og pirrast út í þetta unga fólk sem er alltaf að hamast við að taka fram úr manni.
Sem sé ótrúlega mikill pirringur sem á sér stað. Er það kannski bara ég sem er svona pirruð eða er þetta landlægur vandi?

mánudagur, apríl 23, 2007

Alltaf fór ég suður

Þá er kominn tími til að flytja að heiman eina ferðina enn. Svo telst mér til að þetta sé í 6. skiptið sem það gerist. Alltaf virðist ég lenda aftur heima í kjallaranum hjá mömmu og pabba. Útiloka því ekki að ég muni verða komin þangað aftur áður en ég veit af.
Ég er sem sé að flytja til Reykjavíkur. Mun eyða sumrinu þar en það hef ég aldrei gert áður. Sé fyrir mér í hyllingum að hangsast á Austurvelli í sól um sumaryl. Líklegast verður þó alltaf rigning eins og svo of áður. Ég er að fara að vinna í Vesturgarði sem er þjónustumiðstöð Vesturbæjar. Mun þar þjónusta íbúa þessa bæjarhluta við hin ýmsustu mál. Þægileg innivinna, og það er allt sem ég bið um. Efa það að mastersgráða mín á alþjóðastjórnmálum muni koma mér að einhverju gagni þar en get svo sem sinnt þessu þar til ég verð utanríkisráðherra. Maður verður nú að eiga fyrir salti í grautinn.

sunnudagur, apríl 22, 2007

"Mamman" ég

Mér er ekki skemmt! 17 ára vinnufélagi systur minnar, þessarari sem er fædd '87, hélt að ég væri mamma hennar. Held ég hafi aldrei verið jafn móðguð á ævi minni. Hafði tekið mig ágætlega til í dag og fannst ég nú bara svona þokkalega útlítandi. Svo fæ ég þetta eins og blauta tusku framan í andlitið. Mamma tvítugs krakka, ég! Hefði þurft að vera 8 ára þegar ég spýtti henni út úr mér. Toppurinn sem sé ekki alveg jafn yngjandi og ég hafði talið mér trú um, held ég fari að éta þaratöflur til að helvítið vaxi sem hraðast og hverfi.

föstudagur, apríl 20, 2007

Samviskubitsdraugurinn segir til sín

Ég er með samviskubit yfir því að tala svona illa um Pravda, vil nú ekki vera að styggja lýðinn. Svo á maður ekki að vera svona neikvæður og fordómafullur á sama tíma og maður boðar umburðarlyndi og náungakærleik. Eða hvað?

fimmtudagur, apríl 19, 2007

Bæ bæ Pravda

Húrra fyrir að subbustaðurinn Pravda er brunninn til kaldra kola. Ljótt að segja þetta en ef einhver skemmtistaður þurfti að brenna var eins gott að það var viðbjóðurinn sem hýsti hvíthyskis Súpermanpartýin.
Leiðinlegra þykir mér að Kebabhúsið og annað þurfti að fylgja með, á þaðan góðar minningar af síðkvöldum. Auðvitað líka leiðinlegt að falleg, gömul hús urðu eldinum að bráð, auðvitað ekki að kenna að subbulýður kom sér fyrir í þeim.
Fannst Vilhjálmur borgarstjóri annars fyndinn í gær. Hann var þarna á slysstað íklæddur allsherjar slökkviliðsgalla. Ætli hann hafi leikið stórt hlutverk í að ráða niðurlögum eldsins, svona miðað við búnaðinn mætti ætla það.

Sumar

Gleðilegt sumar lesendur kærir.
Á Akureyri er að vanda bongóblíða þó reyndar liggji smá snjóföl yfir öllu. Sól og hiti engu að síður.
Hinum fyrsta sumardegi verður því varla eytt á ströndinni undir pálmatré (enda slíkt erfitt þar sem engin eru pálmatrén) en hef þó klæðst sumarkjól í tilefni dagsins.

miðvikudagur, apríl 18, 2007

Ælíf æska?

Var áðan spurð að því hvort ég væri ekki fædd 1987! Sem sagt kona sem veit að móðir mín á dóttur á þeim aldri. Greinilega sterkt múv að klippa á mig topp...

þriðjudagur, apríl 17, 2007

Akureyri ER vs. Chicago ER

Þar sem Stína vinkona mín spyr mig hvort læknarnir á bráðavaktinni á FSA séu ekki jafn sætir og á Bráðavaktinni í Chicago finnst mér ekki úr vegi að bera saman þessar tvær deildir sem eru á sama sviði að nafninu til.

- Sætir læknar: Í Chicago virðast flestallir læknarnir hafa fengið gott útlit í vöggugjöf. Það sama er hins vegar ekki hægt að segja um þá á Akureyri. Ég er nú kannski ekki að segja að þeir séu eitthvað forljótir en fríðleikinn er svona ekkert meiri en hjá öðrum stéttum. Reyndar á hvíti sloppurinn það til að gæða hversdagslega útlítandi pilta betri ásjónu en slíkt getur verið villandi. Ég man t.d. eftir að hafa þótt einn unglæknirinn svaka hott þegar ég vann á Akureyri ER fyrir mörgum árum. Sá þennan sama pilt einu sinni í daglega lífinu og skammaðist mín þá fyrir að hafa fundist hann eitthvað merkilegur. Í stað hvíta sloppsins var komin marglit, síð túristaúlpa og við var hann klæddur gulrótabuxum. Læknarnir á Chicago ER eru alltaf hott hvort sem þeir eru á vakt eða í frístundum.

- Útlenskir sætir læknar: Í Chicago ER er einna mest hott læknirinn með hreim og er þá bara meira hott. Á Akureyri ER er enginn læknir frá stríðshrjáðu landi sem bræðir ung meyjarhjörtu með tælandi talanda. Einu læknarnir með hreim sem slæðast einstaka sinnum á Akureyri ER eru miðaldra sérfræðingar með indverskan hreim. Ekki alveg sömu hughrifin.

- Einkennisbúningarnir: Á FSA fá starfsmenn niðurmjóar pokabuxur rykktar í mittið og víða nátttreyju yfir. Ég og Elma lékum okkur að því í gamla daga þegar við vorum skúringakonur að fara báðar í sömu buxurnar, sem sé með báðar lappir í sömu skálm á sömu buxunum. Á Chicago ER er fatnaðurinn mun aðsniðnari og klæðilegri.

- Starfsfólkið: Á Chicago ER sér maður nánast bara lækna við störf og einstaka hjúkkur og einn mann í afgreiðslunni. Á Akureyri ER er alls kyns annað fólk að þvælast um ganginn (það er sko bara einn gangur). Þarna er skúringafólk, fullt af hjúkkum, rafvirkjar og iðnaðarmenn á vappi, móttökuritarar og læknaritarar. Læknaritarar eru ekki til á Chicago ER eða eru alla vega ósýnilegir. Hef reyndar aldrei séð slíkt fólk þvælast um í einum einasta læknaþætti og er nú af nógu að taka.

- Tilfellin: Skotsár, hnífstungur, síamstvíburar og hitabeltissjúkdómar eru daglegt brauð í Chicago. Á Akureyri ER er hins vegar meira um tognun á ökkla, ótilgreinda magaverki og flís í auga. Hér lallar starfsfólkið einnig um gangana í rólegheitum en í Chicago er enginn tími í lall, þar er hlaupið.

Niðurstaða: Vildi frekar vera á ER í Chicago, þar virðist vera meira fjör. Verst að þar er minn starfsflokkur ekki til (þið sem fylgist ekki með þá er ég læknaritari þessa dagana) og því fengi ég aldrei vinnu þar.

laugardagur, apríl 14, 2007

Unglingar

Eins og svo oft áður brá ég mér í sund í dag. Þar sem Söngkeppni framhaldsskólana er haldin hér á Akureyri í kvöld kom ekki á óvart að í sundi var fullt af unglingum. Mér finnst unglingar almennt fremur skrítin þjóðfélagshópur og oftar en ekki dálítið pirrandi (sorry þið unglingar sem eruð ekki svo pirrandi). Það sem vakti áhuga minn þar sem ég flatmagaði í pottinum eftir nokkrar sundferðir og glápti á fólk hálfnakið spranga um, að unglingahóparnir voru tvenns konar (svona rétt eins og áðurnefndar fegurðarungfrúr). Annar hópurinn, sem var töluvert fjölmennari, var eins og nýkominn af Mallorka svo hörundsdökkur var hann. Stelpurnar sem tilheyrðu þessum hóp voru flestar með fullkomið meiköppið enn á sér og strákarnir háværir og sjúklegar hressir. Hinn hópurinn var jafn hvítur og hinir hefðbundnu gestir Akureyrarlaugar og öllu prúðari.
Fannst hvíta fólkið miklu meira kúl og minna pirrandi. Ætli geislarnir í ljósunum hafi þessi áhrif á liðið?

föstudagur, apríl 13, 2007

Sætar stelpur!

Sá aðeins af keppninni ungfrú Reykjavík í gærkvöldi. Gat þó ekki horft á lengi enda ætlaði aulahrollurinn mig lifandi að drepa. Á sviðinu var aðeins hægt að greina tvær týpur. Það var annars vegar klámmyndastjörnu look alike með hvítt hár og hins vegar klámmyndastjörnu look alike með dökkbrúnt hár. Ég öfunda ekki dómarana af því að þekkja stúlkugreyin í sundur. Talandi um að steypa alla í sama mótið.
Skemmtilegt fannst mér að sjá þarna í dómarasæti mann sem þekkir sko fegurðardrottningar af eigin reynslu enda potað alla vega í tvær ungfrúr Ísland. [Já, þegiði, ég veit ég er grunsamlega góð í slúðri] Þarna klipparinn þið vitið. Býst við að þegar hann hefur verið að velta fyrir sér stigagjöfinni hafi hann spurt sjálfan sig þeirrar spurningar, hvort hann væri til í að "gera" þessa eða hina. Þá sem honum þótti heppilegust til þess tarna gæfi hann svo flest stig. Svo sem ekki verri leið en hver önnur í þess háttar stigagjöf. Giska svo alveg eins á að dómararnir hafi bara valið eitthvað nafn af handahófi, enda voru þær alla vega allar nákvæmlega eins. Fyrir utan áðurnefndan hárlit, þó aðeins hafi verið tveir mismunandi.
Annars á maður ekki að vera að tala illa um svona keppnir. Það eru víst bara ljótar stelpur sem gera það sem eru svo sárar yfir því að hafa aldrei verið beðnar um að taka þátt. Það er svo sem rétt, ég hef aldrei verið beðin og verð það varla upp úr þessu. Ef mér hefði verið boðið það hefði ég sko sagt nei, en það mátti samt alveg spyrja. Hver stjórnar þessu eiginlega?

P.S. Meðfylgjandi mynd var sú fyrsta sem kom upp á google þegar ég sló inn beautyqueen. Merkilegt finnst ykkur ekki?

Vinna


Annars er það nú helst að frétta að ég er byrjuð að vinna á Slysadeildinni á FSA. Þar er víst mikill annatími um þessar mundir vegna klunnalegs skíðafólks sem er alltaf að detta og meiða sig. Húrra fyrir því, því vegna svona klaufaskapar hef ég nú fengið vinnu um einhvern tíma. Er sem sé mætt eina ferðina enn á FSA. Þar er allt við það sama og varla að sjá nýtt andlit síðan ég vann hér síðast fyrir tæpum tveimur árum. Helsta breytingin er örugglega að komin er dýrindis sódavatnsvél á ganginum.

Dk

Þá er ekki aftur snúið. Var að kaupa mér flugmiða til Danmerkur þann 12. júlí en ég er boðin í brúðkaup þann 14. Þetta verður stutt stopp enda veit ég ekkert hvar ég verð að vinna á þessum tíma og vinnuveitendur eru víst ekkert sérlega hrifnir af löngum fríum starfsmanna. Vona að þeir sem mig þekkja í Danaveldi vilji hýsa mig á þessum tíma. Fer heim aftur þann 17. júlí svo enginn þarf að hafa áhyggjur af því að sitja uppi með mig lengi.

miðvikudagur, apríl 11, 2007

Fjórði í páskum

Þá eru páskarnir liðnir eina ferðina enn. Ýmislegt var brallað og urðu þetta nokkuð afkastamiklir dagar. Svona miðað við aldur og fyrri störf alla vega.
Stína kom í bæinn og við fórum nokkrum sínum á lífið sem og á tónleika og í leikhús. Meira hvað maður er orðinn menningarlegur svona í seinni tíð.
Eins og alltaf um hátíðisdaga hitti ég marga brottflutta Akureyringa sem var auðvitað gaman. En hvað það væri gaman að búa á Akureyri ef aldrei neitt af þessu fólki hefði flutt í burtu. Finnst það ætti að fara af stað átak og smala öllum brottfluttum frá Reykjavík til fyrri byggða. Mér finnst ósanngjarnt að skemmtilega fólkið flytur allt til Reykjavíkur.

Meiri kónguló

Ojjjjjjjjjjjj!
Þegar ég ætlaði að búa um rúmið mitt einn morguninn var dauð kónguló akkurat þar sem herðablöð mín hafa hvílt. Ætli ég hafi legið á henni alla nóttina?

fimmtudagur, apríl 05, 2007

For Keit

I once promised my friend Keit from Estonia to write at least one blog in English. I know she checks this page occasionally just to look at the nice pictures I put here. She wants me to write on this page in English but I do not think that would be very popular with my other readers. However, this one is for Keit!

Now I have been living in Iceland for 2 months. My life in Sweden is getting more and more like a distant memory. Looking at the pictures from my time in Uppsala is like seeing pictures from a different person’s life. It is somehow as I was never even there.

It is extremely easy to get nostalgic about this time. All the pictures from different occasion in Uppsala where everybody were happy and having fun. It is easy to forget the anxiety that was also a part of this period. Getting panic attacks once in a while about for example the presentation I had to give about Law of the Sea (where me and Keit presented our topics at the same time) or the master thesis it self that was hanging over my head most of the time. The pictures do not show that. If you would only look at them, you would think that the Uppsala year was a constant bliss. In many ways, it was but sure it wasn’t always fun spending the day at Dag Hammarskjöld Library reading some theoretical articles.

I miss it all the same. I think it was the best year of my life and I guess it was for some of my fellow students as well. I hope we will all meet again one day.


Happy Eastern!

þriðjudagur, apríl 03, 2007

Óboðinn gestur

Eins og það er nú gott að það er komið vor í loftið eru fylgikvillar þessa margir hvimleiðir. Pöddur. Þegar ég var að fara að sofa í gær hangir risa kónguló beint yfir rúminu mínu. Fékk vott af flogi en náði að róa mig niður og sótti ryksuguna. Yfirleitt notast ég hins vegar við ýmsan skófatnað við að murka úr greyjunum lífið en þar sem kóngulóin hékk í lausu lofti hefði verið erfitt að kremja hana. Ég ryksugaði sem sé hinn óboðna gest og kom ryksugunni fyrir í nokkurri fjarlægð því ekki vildi ég að rykug kónguló myndi vekja mig upp um nóttina. Eitthvað þótti mér þó óþægilegt að fara að sofa eftir þessa "skelfilegu" lífsreynslu og náði í heimilisköttinn til að sofa hjá mér. Hún hefur einstaklega gaman af því að veiða pöddur. Kattaróbermið vildi hins vegar ekki deila með mér fletinu svo ég var skilin eftir ein og óvarin. Lifði ég þó nóttina af þó draumfarirnar hafi ekki verið ánægjulegar.

mánudagur, apríl 02, 2007

Daginn eftir

Ekki urðu nú viðbrögðin mikil yfir síðustu færslu. En þetta var nú bara aprílgabb svo það er kannski gott að það voru ekki allir að ásælast miða sem ekki eru til.
Sorrí!

sunnudagur, apríl 01, 2007

Miðar


Nú er mér vandi á höndum! Ég svaraði nokkrum laufléttum spurningum um Björk inni á síðu Rokklands á Rás 2 um daginn þar sem í verðlaun voru 2 miðar á tónleikana hennar núna 7. apríl. Ég bjóst nú ekki við að vinna þá en svo kom annað á daginn. Nafn mitt var dregið úr einhverjum potti svo nú sit ég uppi með 2 miða sem er ekki eins gleðilegt og ætla mætti. Ég festi nefnilega í gær kaup á leikhúsmiðum hérna á Akureyri þetta sama kvöld. Því ætla ég að bjóða áhugasömum að láta mig vita ef þeir vilja þessa miða á tónleikana. Ég þekki svo sem ekkert marga sem verða í Reykjavík þegar þetta verður en sem sé bara að láta vita í kommentakerfið ef áhugi er á miðunum. Ég vel svo þann sem mér þykir skemmtilegastur.

fimmtudagur, mars 29, 2007

Peningar

Var að fletta gegnum Blaðið rétt í þessu og varð næstum óglatt. Ekki var þar um að kenna rúgbrauðinu sem ég var að gúffa í mig, sem var b.t.w. afar ljúffengt, heldur úttekt á dýrustu töskum heims. Ég hafði lengi staðið í þeirri trú að dýrasta taska í heimi væri á tæpa milljón og fannst mér nóg um. Einfeldni mín kom þarna berlega í ljós. Töskurnar (þar sem ein leit út eins og keypt í Sigga Gúmm þegar sú verslun var og hét) voru hins vegar flestar á tæpar 3 milljónir og ein á rúmar 10 millur. Það var svo sem ekki mikið skrifað um hverja tösku en held þó að þetta hafi ekki verið íbúðahús í líki handtösku svo ég býst við að þetta sé venjuleg taska til að halda á og geyma í dót.
Ég skil ekki alveg hvað getur verið svona stórkostlegt við svona gripi að það er vert að eyða í þær peningum sem gætu komið á fót nokkrum skólum í fátækum löndum (athugið; ekki fræðilegar fengnar tölur).
Finnst eiginlega að fólk sem eyðir svona miklum peningum í eitthvert drasl ætti að vera svipt peningaforræði því það kann augljóslega ekki með slíka að fara.

þriðjudagur, mars 27, 2007

Íþróttir

Seint verður um mig sagt að ég sé eða hafi nokkurn tíma verið íþróttastjarna. Mér finnst íþróttir almennt leiðinlegar og ömurlegra sjónvarpsefni veit ég ekki til. Má ég þá frekar biðja um sjónvarpsmarkaðinn en markaregn.
Æfði þó einu sinni handbolta í einn vetur og fannst það agalegt og kveið fyrir að fara á hverja æfingu. Vildi ekki hætta þar sem mamma og pabbi voru búin að borga fyrir allan veturinn. Reyndi því að láta lítið fyrir mér fara í horninu og óskaði þess að ekki yrði gefið á mig. Skást fannst mér þegar við fórum í vítaskotakeppni því þá var maður bara einn að skjóta á mark og gerði ekki einhvern brjálaðan ef maður klúðraði. Hópíþróttir eru djöfulegar fyrir fólk eins og mig.
Sund þótti mér einnig martröð. Var viðbjóðslega vatnshrædd fram eftir aldri og fór meira að segja í aukatíma í sundi fyrir lélega. Var alltaf með þeim hægustu í bekknum og komst þá alltaf síðust í pottinn, nema auðvitað þegar ég svindlaði á talningunni. Finnst svo sem alveg skítsæmó í sundi núna enda get ég þá farið á mínum eigin hraða (hraða snigilsins).
En svo kom það fyrir einn góðan veðurdag í bernsku að ég fór að æfa badminton sem var nú líka svona asskoti skemmtilegt. Segi nú ekki að ég hafi verið framúrskarandi en náði þó eitt sinn að næla mér í gullpening á litlu móti. Nú hefur það hins vegar runnið upp fyrir mér að varla get ég eignað sjálfri mér mikið af þessum sigri. Fékk nefnilega gullið í tvíliðaleik. Mér var komið saman við litla stelpu frá Reykjavík sem var svona líka asskoti öflug. Þessi stúlka heitir Ragna og hef ég oft upp á síðkastið rekist á nafn hennar í fjölmiðlum þar sem hún er sögð besti badmintonspilari sem Ísland hefur alið af sér. Held hún sé Evrópumeistari eða eitthvað álíka. Var sem sé ekki jafn góð og ég hélt því líklegt þykir mér nú að þessi sama stúlka hafi átt mest í sigrinum.
Ástæða þess að ég fór að hugsa um badminton og íþróttir er að í kvöld erum ég, Dagný og mamma og einn eldri borgari að fara að spila. Gaman verður að sjá hvort ég geti eitthvað eða hvort að ég sannfærist enn frekar um það að íþróttagenið hreinlega vanti í mína ágætu genaflóru.
Spennandi ekki satt?

miðvikudagur, mars 21, 2007

Margur verður af aurum api

Við lifum í neyslu- og græðgis þjóðfélagi þar sem allir keppast um að eiga sem fínasta hluti því þá heldur fólk að það verði loksins ánægt. Í mörgum tilfellum finnst mér þessi árátta fólks aðeins sanna það enn betur hvað fólk er almennt miklir apar. Nú er enginn maður með mönnum nema að eiga alla vega 40" sjónvarp með flatskjá. Því stærra því betra. Fólk nánast froðufellir af hneikslan þegar það heyrir að ég eigi bara 14" venjulegt sjónvarp og að þegar ég segist una sátt við mitt heldur fólk eflaust að ég sé að ljúga og sé vísast öfundsjúk út í þá sem eiga sjónvarp sem nær yfir hálfan stofuvegginn.
Vegna þessa þykir mér afar einkennilegt að nú sé það nýjasta nýtt í sjónvarpsmálum, að hægt eigi að vera að horfa á sjónvarp í gemsanum sínum. Ég hef svo sem ekki mikið séð þessa 3ju kynslóðar síma með berum augum en ég held að nokkuð ljóst sé að þeir séu með minni en 14" skjá. Af hverju er þá kúl að horfa á sjónvarp á svoleiðis skjá?

þriðjudagur, mars 20, 2007

Amrískt spik sem og eigið

Eftir að hafa horft á ameríska þætti og bíómyndir frá blautu barnsbeini, sem skarta nær eingöngu mjóu og fallegu fólki, var ég nær sannfærð að sú umræða um að Bandaríkin væri feitasta þjóð í heimi, væri lygasaga. Eftir að hafa horft á nokkra þætti að hinni gæða sjónvarpsþáttaröð Trading Spouses, hef hins vegar komist að því að slíkar sögur voru á rökum reistar.

Reyndar rifjast upp fyrir mér núna ljósmynd af bandarískum mótmælendum í kennslubók um bandarísk stjórnmál. Á myndinni má sjá nokkrar vel feitar konur með mótmælaspjöld. Þegar ég leit á myndina fyrst hélt ég að þetta væru hagsmunasamtök offitusjúklinga að mótmæla hækkun á McDonalds eða eitthvað slíkt en við nánari athugun kom í ljós að um venjulega Kana var að ræða sem voru að mótmæla einhverju sem var mótmælavert.

Ég ætti þó kannski ekki að vera að sitja út á fitu þar sem yfirlýst megrun mín er farin út í vitleysu og ég stefni hraðbyr að gastric bypass á þrítugsafmælisdaginn

Casa Fiesta

Við systur ákváðum að sjá um eldamennskuna í gær sem gerist ekki svo oft á þessu heimili. Reiddum við fram dýrindis mexikóska máltíð og skreittum lögðum svo á borð að mexikóskum stíl. Þ.e. svona eins og okkar borðbúnaður býður upp á. Veit þó eigi hvort Mexikóar myndu viðurkenna að bleiku gerviblómin sem við skreittum borðið stolltar með, hefðu eitthvað með land þeirra að gera en hvað um það. Við vorum stolltar og mamma varð glöð og þá er nú tilgangnum náð ekki satt?

föstudagur, mars 16, 2007

Helgarpóstur

Bara svona rétt að kasta kveðju. Svo sem ekkert mikið sem ég vil segja, ekkert sem mig langar til að setja hérna svona þar sem allir geta séð. Ekki þó halda að ég leyni á spennandi leyndarmálum, því miður er ekki svo.

Langar aðeins að kommenta á þetta fræga Smáralindarbæklingsbrálæði. Viðurkenni fúslega að þessi aumingjans kona sem skrifaði að stúlkan minnti sig á klámstjörnu var ansi ósmekkleg í orðavali sínu en mér finnst þó eitthvað sannleikskorn í orðum hennar. Hefði þessi mynd verið í bæklingi fyrir 20 árum, jafnvel 10 árum? Nei, svo tel ég ekki líklegt. Ég tel að þetta þætti ekki viðeigandi fermingarauglýsing, svona Lólítustíll í hámarki. Við erum orðin svo gjörsamlega blind á það sem er smekklegt og það sem er hreinlega klám (vona að enginn fari að leggja mig í einelti fyrir að nota svona orðalag). Umburðaryndislyndisþröskuldur okkar er orðinn svo lágur að við erum t.d. löngu hætt að kippa okkur upp við að sjá gellur hálfberar nugga sér upp við hina ýmsustu karlmenn í tónlistamyndböndum, unglingum sem klæða sig eins og vændiskonur eða myndum í auglýsingabæklingum sem vísa beint eða óbeint í klámmyndir. Blindnin er að mér finnst orðin algjör og þar sem allir eiga að vera svo frjálsir og boð og bönn eru mannréttindabrot verða þeir sem voga sér að benda á að eitthvað sé að, fyrir þeim nornaveiðum sem mér finnst hafa farið af stað í þessu máli.
Ef hverju má ekki virða tjáningarfrelsi þeirra sem gagnrýna ríkjandi þankagang líkt og þeirra sem vilja hafa fullkomið frelsa til að markaðsetja kynþokka unga stúlkna (og svo sem drengja líka).
Vona að orð mín munu ekki lenda á síðum allra blaða og bloggsíðna þar sem ég verð kölluð forpokuð afturhaldstútta. Kemur í ljós. Þá fæ ég alla vega mínar 15 mínútur frægðar sem allir virðast þrá.

Langar svo aðeins að beina orðum mínum til 2ja lesenda bloggsins:

Sigga Larsen: Veit ekki hvenær ég kem nákvæmlega til DK en brúðkaupið er 14. júlí svo verð eitthvað í kringum það. Veit ekki hve lengi eða neitt slíkt, erfitt að skipuleggja þar sem ég veit ekkert hvað ég verð að gera. Mun að sjálfsögðu líta á littla sæta húsið ykkar í Óðinsvé, ef mér er boðið.

Þorgerður: Geturu gefið mér slóðina á bloggið þitt aftur, er búin að týna.

Góða helgi!

miðvikudagur, mars 14, 2007

Siðapistill

Margt ljótt gerist í heiminum. Það veit maður vel. En oftast nær er maður ekkert að velta því of mikið fyrir sér því það er óþægilegt og setur manni of miklar skorður.
Svo gerist það annað slagið að maður er hraktur úr þessu þæginda fáfræði greni sínu. Þetta vita þeir sem horfðu á dönsku heimildamyndina á Rúv í gærkvöldi; Tilboð sem drepa, held ég að hún hafi heitið. Hún fjallaði um hvernig við Vesturlandabúar, sem alltaf viljum fá sem mest fyrir sem minnst, ýtum undir hræðilegar aðstæður verkafólks í 3ja heiminum með því að kaupa vörur sem við öll vitum að eru framleiddar við vondar aðstæður. Enginn getur sagst ekki vita að það sé ekki eitthvað dularfullt við það að geta keypt eitthvert kertastjakarusl í Rúmfó á 99kr. Það að þykjast ekki vita er engin afsökun. Þú veist en hefur kosið að þykjast ekki vita.
Samfélag okkar er að kafna í rusli. Allir eiga mikið meira en þeir þurfa. Allir henda dóti sem ekkert er að af því það á svo mikið af því. Ég líka. Við erum að sanka að okkur dóti af því að það er svo sjúklega ódýrt en hvað höfum við að gera með allar þessar heimskulegu styttur og það að eiga 10 sett af rúmfötum eða handklæði fyrir hvern einasta dag mánaðarins.
Ég skil alveg að fólk vilji kaupa ódýrt. En einmitt vegna þess að allt er svo ódýrt kaupum við bara margfalt meira. Svo ég fari nú ekki að tala um hvað þetta dót veitir okkur enga ánægju af því við eigum hvort eð er svo mikið.
Það sem ég sé sem svo einfalda lausn, en ég veit að er samt svo erfið, er að neitendur fari að gera kröfu á að vörurnar sem það kaupir séu framleiddar við mannsæmandi aðstæður. Auðvitað yrði draslið dýrara en er það ekki bara allt í lagi. Ég þyrfti þá kannski bara að safna mér fyrir t.d. brauðrist í stað þess að rjúka út í búð samstundis sem mér dettur í hug að það gæti verið sniðugt að kaupa mér svoleiðis.

Ég ætla alla vega að reyna að bæta mig

föstudagur, mars 09, 2007

Sundferð

Eins og alþjóð veit hef ég verið dugleg að heimsækja laugarnar síðan ég kom til landsins. Sem sé laugina, þessa hér til hliðar.
Hef venjulega bara synt þar virðulega nokkrar ferðir með allan þann aukabúnað sem til þarf, sundhettu og þess konar sjáiði til.
Í gær fór virðuleikinn aðeins af þessum sundferðum mínum. Tók litlu systur með í sundið og við syntum örfáar ferðir en svo fluttum við okkur yfir í rennibrautarlaugina. Upp í mér kom þá einhvers konar unggæðislegur (er það ekki einhvers konar orð?) galsi og æstist öll upp í að fara í rennibrautirnar. Sú yngri var eitthvað treg til þessa en með mínum alkunna sannfæringarkrafti tókst mér að fá hana með mér í nokkrar ferðir. Fannst ég verða 12 ára aftur þar sem ég hljóp upp tröppurnar og spýttist síðan niður brautina og nýtti mér við hið fræga trykk að hagræða sundbolnum þannig að hann snerti ekki mikið brautina, ef þið skiljið hvað ég á við!
Þegar galsinn var í hámarki fékk ég þá snilldarhugmynd að reyna að klifra upp minni rennibrautina. Þegar við vorum svo að brasast við að koma okkur upp brautina var skyndilega skrúfað fyrir vatnið. Í fyrstu hélt ég að það væri bara skrúfað fyrir þar sem klukkan var orðin margt. En svo þegar við vorum hættar að príla kom vatnið aftur á. Sundlaugarverðirnir hafa sem sé verið með augun opin og reynt að fá okkur af þessari óæskilegu hegðun með því að taka af vatnið. Það sem eftir lifði sundferðar var ég ansi lúpuleg og forðaðist að ná augnsambandi við sundlaugarverðina svo þeir tækju nú ekki upp á að skamma mig í þokkabót. Næst þegar ég fer í sund verð ég sko með sundhettuna og gleraugun allan tímann svo þau þekki mig ekki.
Minna má á það að á þessu ári verð ég 28 ára. Bara svona til að setja hlutina í samhengi.

fimmtudagur, mars 08, 2007

Alþjóðlegur baráttudagur kvenna

Til hamingju konur með daginn!
Ekki jafn mikið til hamingju með;
- Lægri laun
- Lágt hlutfall kvenna á þingi, sveitastjórnum og stjórnunarstöðum
- Að geta ekki labbað einar heim af djamminu án þess að vera hræddar
- Að vera kallaðar gribbur, frekjur, breddur, brussur og öðrum álíka misskemmtilegum nöfnum þegar þið standið fast á ykkar
- Að kynsystur ykkar eru neyddar og seldar í kynlífsþrældóm
- Að haldið sé að ykkur stöðugu samviskubiti að vanrækja börn og heimili ef þið eruð framakonur
- Að þurfa að raka á ykkur hvert stingandi strá á líkamanum fyrir utan á hausnum því annars þykið þið subbulegar rauðsokkur
- Að íþróttir kvenna komast varla í fjölmiðla og ef þær gera það er flissað yfir hvað þið eru brussulegar
- Að þið eru almennt ekki teknar alvarlega
- Að stöðug krafa er á að þið séuð sætar og prúðar því ef þið eruð það ekki er stöðugt rætt um það og ritað
- Að eiga nokkuð á hættu að verða barðar heima hjá ykkur
- Að átta ykkur ekki á því að jafnrétti er langt frá því náð

þriðjudagur, mars 06, 2007

Söfnun

Fékk þetta bréf frá ofurkonunni Sólrúnu vinkonu minni. Lesið endilega í gegnum þetta og látið fé af hendi rakna í gott málefni. Getið t.d. notað bensínpeninga eins mánaðar sem þið getið sparað með því að labba eða taka strætó. Bara svona til að nefna dæmi!

Kæru vinir
Okkur langar til að segja ykkur frá vini okkar honum Ali Jawara. Við kynntumst honum í Gambíu 2005. Þá hafði hann nýlega misst eldri bróður sinn í bílslysi, þegar þeir voru á vegum Rauða Krossins að fara að taka á móti flóttafólki. Ali var samt enn mjög lífsglaður ungur maður þegar við kynntumst honum og fjölskyldu hans. Þá var pabbi hans orðin alvarlega veikur af sjúkdómi sem auðvelt er að meðhöndla hér á Íslandi, en mjög erfitt í Gambíu og hann lést stuttu eftir að við fórum frá Gambíu. Nú hefur Ali og fjölskyldan hans misst báðar fyrirvinnur heimilisins.

Í Gambíu býr stórfjölskyldan iðulega saman. Ali býr með móður sinni, systur og manninum hennar og fjórum börnum. Hann er 21 árs og reynir hvað hann getur að verða sér út um vinnu til að brauðfæða fjölskylduna sína. En atvinnutækifærin í Gambíu eru afar fá og hann hefur einungis getað fengið tímabundin verkefni. Fjölskyldan hefur neyðst til að flytja, vera án rafmagns og að komast af með eina máltíð á dag undanfarið. Þann mat hafa þau getað keypt fyrir lán og þann pening sem mágur Ali hefur getað fengið hjá sinni fjölskyldu.

Nú er hljómurinn í rödd Alis allt annar. Hann er beygður og vonlítill um að geta hjálpað fjölskyldunni sinni. Móðir hans er niðurbrotin og börnin oft svöng. Það er þess vegna sem Við skrifum þetta bréf. Við erum að reyna að safna pening svo að Ali og fjölskyldan hans geti stofnað rekstur. Von okkar er að okkur takist að safna fyrir bíl svo að Ali og fjölskylda geti orðið leigubílstjórar.

Með ykkar hjálp getum við sent honum smá pening til þess að koma af stað þessum rekstri, kaupa þarf bíl, tryggingar og greiða bensín í einhvern tíma.

Við erum nokkuð vissar um að þetta eigi eftir að nýtast honum, þar sem mikil þörf er á farartækjum milli Brikama þar sem Ali býr og síðan höfuðborgarinnar Banjul, sem er svona um 30 km á slæmum vegum. Þetta er helsti ferðamáti fólks, svokallaðir Shappar, þetta eru bílar sem taka um 8 manns í sæti og keyra fram og til baka svo lengi sem er eftirspurn. Ef okkur tekst að leggja út fyrir þessu verður fjölskyldan hans Ali sjálfstæð á ný og þarf ekki að vera upp á aðra komin. Þau munu hafa sjálfstæðan rekstur og vonandi þegar jafnvægi er komið á reksturinn getur Ali hafið nám en það er hans helsti draumur að nema Information Technology.


Ef þið hafið áhuga á því að leggja Ali og fjölskyldu hans lið þá er söfnunarreikningurinn:

1145-05-443827.

Kt: 300179-3049

Með kærri kveðju

Sólrún María Ólafsdóttir og Þóra Kristín Ásgeirsdóttir

Fólk er fífl

Mikið hefur verið rætt og ritað um hið ógnvænlega svifrik sem nú svífur um bæ og byggð. Fólk talar um hve agalegt ástand þetta sé nú og eitthvað verði að gera.
Þetta sama fólk heldur áfram að keyra til vinnu, keyra í búðina, keyra í ræktina, keyra með börnin á hinar ýmsustu æfingar og stundum bara að keyra til að keyra.
Sumir segjast hvort eð er ekki vera á nagladekkjum og finnst þeir þá vera að fría sig allri ábyrgð. Heldur fólk í alvöru að mengun að völdum bíla sé bara nagladekkjum að kenna? Mér finnst fólk stundum ekki með fulla fimm.
Hættið bara að keyra svona mikið og hreyfið á ykkur rassgatið og jafnvel brjótið odd af oflæti ykkar og takið strætó.

sunnudagur, mars 04, 2007

Sunnudagur

Mínu heilbrigða líferni er hvergi nærri lokið. Dagurinn byrjaði með göngutúr í Kjarnaskógi í sólinni og síðan tók við sundferð og nú sit ég á Karólínu með kaffi. Það er af sem áður var þegar helgar voru teknar í djamm og djús. Kann nú betur við þetta líf, svona alla vega enn sem komið er.
Heyrði á tal nokkurra unglinga í sundi þar sem þau voru að ræða hvað þau hefðu verið ógeðslega full og flippuð í gærkvöldi. Vona að ég hafi aldrei verið svona hallærisleg en hef það samt örugglega. Einn gaurinn var svona að rifja upp hverjar hann hefði nú verið að kyssa og hvar hann hafði eiginlega endað kvöldið. Úffúffpúff. Bara vandræðalegt að hlusta á þetta. Kannski ég sé bara orðin forpokuð kelling.

laugardagur, mars 03, 2007

Skíðagarpar

Við systur gerðumst svo heilbrigðar að leigja okkur gönguskíði og fara út í Kjarnaskóg á föstudagskvöldi og skíða þar um svæðið. Dagný var öllu hugaðari í brekkunum og lét sig góssa niður þær á fullri ferð á meðan ég var varkár og fór hægar yfir. Hér að ofan má sjá hvernig fer fyrir þeim sem rennur of mikið kapp í kinn. Að neðan má sjá mig yfirvegaða og rólega og einbeita mér að þeirri tækni sem til þarf til að gönguskíða í stað þess að hlunkast niður brekkur eins og bavíani.
Ansi er þetta annars hressilegt sport og ekki verra að hafa slíka aðstöðu eins og úti í Kjarnaskógi með norðurljósin yfir sér. Ef ég hefði ekki fyllst þjóðernisrembingi yfir þessu ætti ég nú bara að flytja aftur til útlanda.

fimmtudagur, mars 01, 2007

Snjór, snjór, snjór og aftur snjór

Úti er alltaf að snjóa eins og segir í kvæðinu. Hér á Akueyri er heldur jólalegt um að litast þessa dagana. Huggulegt segi ég, agalegt segja foreldrarnir. Skil ekki hvað allir eru svona mikið á móti snjó. Hann gerir allt svo fallegt og dregur úr dimmu og þunglyndi.
Eitt þó sem er ansi hvimleiður fylgikvilli snjós. Blautir fætur. Allir mínir skór sem ekki eru hælaskór, eru að syngja sitt síðasta og geng ég því um í strigaskóm í snjónum. Fór í smá skóleiðangur áðan og mátaði þar stígvél sem voru svo asskoti lekker á mynd í dagskránni en þegar ég sá þau berum augum lá mér við uppköstum.
Svo sem ágætt þó að ég er ekkert að eyða peningum í slíka munaðarvöru sem skór eru svona á þessum síðustu og verstu tímum atvinnuleysisins. Þarf hvort eð er ekkert út úr húsi og hver þarf þá aðra skó en inniskó og af þeim á ég nóg.

Spurt og svarað

Held ég byrji á því að svara þeim spurningum sem komu fram í athugasemdunum frá síðustu færslu.

-María Larsen
* Hef keyrt kallinn nokkrum sinnum upp í hús og klappað gripunum. Er svo mikil skræfa að ég þori ekkert á bak, og svo er Skolur heldur ekkert til taks, sem er það eina sem ég myndi mögulega þora að hætta mér á.
* Dís vinkona mín er að fara að giftast sínum danska manni. Hún hefur greinilega ekki hlustað á ráðleggingar þínar sem þú eitt sinn gafst mér; aldrei að giftast útlendingi!
* Skrifa í blöð, tja, veit ei hvað ég ætti að hafa merkilegt að segja. Þakka þó hólið.

-Kristrún (sem greinilega hundsar einnig ráðleggingar frænku minnar um að leggja lag sitt við erlenda menn)
* Enn allt óljóst hvernig Danmerkur ferðin fer fram. Er jafnvel að gæla við að fara á Hróarskeldu sem er helgi fyrir brúðkaupið en veit svo sem ekki hvort það er raunhæft sökum atvinnuleysis.

-Lóló og Sólrún (sem báðar eruð í þeim erlendu einnig, hvers lags vini á maður eiginlega???)
* Takk fyrir skemmtileg komment, gaman að heyra hvað þið gerið um helgar í útlöndunum.

sunnudagur, febrúar 25, 2007

Um helgina hef ég...

-Keyrt foreldra mína í partý og farið síðan heim sjálf og horft á sjónvarpið
-Leikið við Dódó (heimilisköttinn) með jólakúlu
-Keypt mér sundgleraugu og synt með þau og séð eftir að hafa keypt þau því þá sér maður svo vel hvað laugin er subbó
-Farið á Karólínu með litla bró
-Náð ágætis tökum á smells like og æft mig á byrjuninni á Boys don´t cry með Cure. Er enn sjúklega léleg en komin með sigg framan á puttana. Rokk og ról!
-Spilað Popp punkt við Egil og unnið.
-Spilað Popp punkt við sama Egil og tapað
-Farið aftur og Karólínu, ein (og er þar enn!)
-Pirrað mig á því að á Karólínu er stór flatskjár og nú er einhver fótboltaleikur og því einhver sportidjót hér
-Farið í Hagkaup og keypt mér bland í poka á 50% afslætti (tvímælalaust hápunktur helgarinnar)
-Verið kölluð ónytjungur sökum atvinnuleysis míns (af örverpinu í fjölskyldunni)
-Horft á fjölskyldumynd á Rúv með góðan boðskap; partýjast vont, fjölskyldulíf gott
-Tekið ákvörðun að fara í brúðkaup til Danmerkur í júlí

Hver segir svo að það sé ekki nóg að gerast á Akureyri?

föstudagur, febrúar 23, 2007

Atvinnuleysingjafundur

Var að koma af atvinnuleysingjafundi sem er skylda fyrir þá sem vilja krunka út einhverjar bætur. Ég er svo fordómafull að ég bjóst við að ég yrði eina manneskjan sem ekki væri eins og róni til fara en svo voru hinir atvinnuleysingjarnir bara venjulegt fólk. Merkilegt alveg hreint!
Kvennsan sem hélt fundin var svona týpísk miðaldra gribba sem bunaði út úr sér staðreyndum um atvinnuleysisbætur og horfði á okkur hornauga. Einhver kollegi minn (sem sé atvinnuleysingi) opnaði dyrnar þegar um 10 mínútur voru liðnar af fundinum og hún hreytti í hann að fundurinn væri langt kominn og hann gæti bara komið næsta. Greyið hrökklaðist því í burtu. Var skikkað að koma á fund atvinnuráðgjafa þann 15. mars en ég vona nú að þá verði ég komin í einhverja vinnu þá. Segi svo sem ekki að það sé eitthvað agalegt að vera atvinnulaus svona þegar maður býr og étur frítt hjá pabba og mömmu. Frekar ljúft líf alveg hreint. En það er víst föstudagur (þó hjá mér séu allir dagar frídagar þannig að það breytir nú litlu), en ég óska ykkur alla vega góðrar helgar.

miðvikudagur, febrúar 21, 2007

Akureyrarlíf

Lífið á Akureyri heldur sinn vanagang. Ég slæpist hér um og nýjasta áhugamálið mitt er að æfa Smells like teen spirit á rafmagnsgítar bróður míns. Já, maður er töff! Atvinnulaus alþjóðastjórnmálafræðingur að nálgast þrítugt að rembast við að spila unglingarokk á rafmagnsgítar. Þess má þó einnig til gamans geta að einnig hef ég æft ýmis lög sem henta betur mínum aldursflokki, til að mynda hið sívinsæla Vor í Vaglaskógi sem við bróðir minn tókum einmitt upp, svo það er aldrei að vita að við systkinin sláum brátt í gegn.
Annars er ég bara enn að bíða eftir svörum um vinnur sem ég hef sótt um. Svona til að eignast einhvern pening fór ég á stúfana um það hvernig skal sækja um atvinnuleysisbætur. Það er nú ekki fyrir hvern sem er að redda sér svoleiðis. Ef fólk er eitthvað að ergja sig yfir því að einhverjir aumingjar sem nenna ekki að vinna hangi á þessum bótum ár eftir ár, segi nú bara, þetta eru sko engir aumingjar ef þeir gátu í fyrsta lagi orðið sér út um bótarétt og bara vegna þess að þeim hefur tekist það í upphafi verður að bera ákveðna virðingu fyrir því og leyfa þessu augljóslega klára fólki að vera á bótum. Held alla vega ekki að mér takist að fá út nokkrar bætur, slík er skriffinnskan. Frekar súrt að í stað þess að leita að vinnu skuli maður eyða allri orkunni í að sækja um atvinnuleysisbætur.

föstudagur, febrúar 16, 2007

Kynþokkakeppni

Nú hefur í dag staðið yfir hið árlega val Rásar 2 á kynþokkafyllstu konu Íslands. Eins og þetta sé ekki nógu hallærislegt val fyrir gera margir vont enn verra með því að kjósa konuna sína! Kommon kallar! Það veit engin hver konan ykkar er og hún er örugglega ekkert sérlega sexy mama og ef hún væri það yrðuð þið ógeðslega fúlir ef einhver annar myndi kjósa hana. Ef þið viljið gleðja konurnar ykkar látið ykkur detta eitthvað annað í hug en að bögga hlustendur Rásar 2 á upptalningu einhverja Guðrúnar Kristjánsdætra og Júlía Guðjónsdætra úti í bæ.
Spurði annars litla bróður minn hvort hann myndi ekki kjósa mig (að þessu spurði ég smjattandi á bakkelsi, með gleraugu og í flíspeysu af mömmu). Hann svaraði því til að það þætti honum viðbjóðslegt, að honum ætti að finnast stóra systir sín kynþokkafull. Býst sem sé ekki við neinum atkvæðum í ár frekar en hin fyrri.

miðvikudagur, febrúar 14, 2007

Karó

Eftir yndislega sundferð sit ég nú á Kaffi Karólínu og sötra kaffi og hangi á netinu. Skrítið að vera hér ein að degi til en ekki umkringd góðum vinum með öl við hönd.
Er orðin nokkuð meðtekin af koffínneyslu svo maður ætti nú kannski ekki að vera skrifa mikið undir slíkum áhrifum.
Enda hef ég svo sem ósköp lítið að segja. Líf mitt er afar ljúft og rólegt þessa dagana þar sem Guiding light er hápunktur dagsins. Talandi um þann gæðaþátt, held ég drífi mig heim til að ná honum. Missti sko af í gær og eins og þið vitið þá er atburðarásin svo gríðar hröð svo ekki má ég missa af meira.

þriðjudagur, febrúar 13, 2007

Sá blái

Vildi benda á að blái liturinn á síðunni hefur enga pólitíska merkingu enda er ég langt frá því að vera blá þegar kemur að stjórnmálum.
Fannst bara viðeigandi að hafa síðuna bláa þar sem hér er fimbulkuldi og ég haldin krónískum handkulda, sem sé er blá af kulda.
Nei, Eygló mín, ég er enn réttum megin í stjórnmálunum og ekki saka mig aftur um slík svik sem það væri að ganga til liðs við óvininn blámann.

Líf mitt sem auðnuleysingi

Lífið mitt á Akureyri heldur áfram. Enn sem komið er er ég auðnuleysingi sem fer á fætur klukkan 10 á morgnana og horfi á Skjá 1 fram eftir nóttu. Set mér ákveðin verkefni svona til að hafa eitthvað fyrir stafni, svona eins og að fara með bréf í póst, labbitúr með Núma og önnur krefjandi verkefni.
Eins og venjulega þegar ég kem heim frá útlöndum eftir einhvern tíma er ég feitari en venjulega svo þá er tilvalið að einbeita sér að breytingum í þeim efnum. Þar sem ég óverdósaði á ræktinni á sínum tíma get ég ekki hugsað mér að byrja á þeim hryllingi aftur svo ég hef ákveðið að reyna að stunda sund. Nú hvá sjálfsagt margir enda hefur mér ætíð þótt sund afar leiðinleg íþrótt og ekki síst subberíið í kringum hana. Þið vitið, hár og annað ógeð á gólfinu í sturtuklefanum sem og allur vibbinn í lauginni sjálfri. En nú verður tekið á því sko. Fjárfesti í einum Speedo í gær og fór mína fyrstu ferð í Akureyrarlaug með það fyrir augum að synda. Það hefur eflaust ekki gerst síðan í 3ja bekk í MA þegar maður var neyddur til sundsins. Enn þá finnst mér gólfið í sundinu pínu ógeðslegt en ekki eins og áður þó. Varð þó að tipla á tánum þegar ég kom upp úr en þá var sturtukonan ekki nýbúin að moppa. En sundferðin var engu að síður ánægjuleg þó enn sé ég drulluléleg að synda. Við skulum spyrja að leikslokum hvernig þessu átaki mínu mun reiða af.

mánudagur, febrúar 12, 2007

Nýtt líf og nýtt útlit.
Allt að gerast!

föstudagur, febrúar 09, 2007

Komin heim

Óþreyjufullir aðdáendur geta tekið gleði sína á ný! Hér kemur blogg!
Kom til landsins á föstudaginn en þar sem ég sendi draslið mitt með Samskip þurfti ég að bíða eftir því sem frestaðist sökum tollskoðunar og almennrar skriffinsku. Brunaði milli Samskips og Tollstjórans í Reykjavík með þá pappíra sem krafist er til að fá leyst út það góss sem í pappakössunum mínum var, H&M föt, hælaskór og notaðir kjólar.
Þar sem ég var hlaðin þessu dóteríi var ómögulegt að fara norður með flugi og kom ég því með rútu til Akureyrar í dag. Landið var fagurt sem aldrei fyrr sem sannfærði mig enn frekar um hve rétt og góð ákvörðun það var að koma aftur til Íslands.
Er nú búin að koma mér fyrir í kjallaranum á Austurbyggð 6 og fékk dýrindis kjötsúpu í kvöldmat þannig að ég er sátt og sæl. Enn sem komið er alla vega. Veit ég ei hvað framtíðin ber í skauti sér og hvernig ég ætla að vinna fyrir mér hér í bæ. Fer á stúfana í næstu viku.

miðvikudagur, janúar 31, 2007

Sídasti vinnudagurinn

Sídasti dagurinn í vinnunni brátt lidinn. Búin ad hafa kvedju "fika" (kaffipásu) og fékk gódar kvedjur frá vinnufélögunum. Er bara sátt ad vera ad haetta hér thó thetta hafi verid fínn tími.
Leidinlega konan var ód í ad fá íslenska símanúmerid mitt svo hún gaeti heimsótt mig ef hún kaemi til Íslands eins og hún er ad hugsa um ad gera. Hvad getur madur sagt. Ad madur vilji ekki gefa henni númerid? Er nú ekki thad mikill ruddi. En langar nú samt lítid til ad fá hana í kaffi í Austurbyggdina og hlusta á hana tala út í eitt. Úff, thvílík tilhugsun.

Svo er bara ad fara heim og thrífa íbúdina. Thad verdur nú aldeilis skemmtilegt!

þriðjudagur, janúar 30, 2007

Útflutningspartý og pirringur

Gott var útflutningspartýið á laugardaginn og hefur eflaust farið endalaust í taugarnar á grannanum á neðri hæðinni. Haha! Mikið af góðu fólki mætti en eins og ég á til þegar á partýstandi stendur, lét ég mig hverfa úr miðju partýi. Það kemur fyrir þegar áfengi er haft um hönd, að skyndilega hellist yfir mig einhvers konar pirringur hvað það er í rauninni heimskulegt og tilgangslaust að vera ölvaður, og þá langar mig ekki að tala við neinn, því allir eru fullir og pirrandi, og læt mig hverfa án þess að segja neinum frá því. Hef t.d. stundum reynt að ná jakkanum mínum laumulega undan rössum vinkvenna minna á skemmtistöðum þegar ég nenni ekki að kveðja þær og vill komast óséð heim. Gerði þetta í Uppsala í tíma og ótíma, og í byrjun varð fólk áhyggjufullt og hringdi í mig, en þar sem ég var pirruð svaraði ég ekki í símann. Frekar ömurleg, ég veit. Svo lærði fólk á þetta smám saman að ég bara hverf.
Alla vega, kom þessi ákveðni pirringur yfir mig á laugardaginn og fór ég þá bara inn í rúm að sofa í miðju partýi án þess að kveðja neinn, sem er frekar dónalegt af mér þar sem suma mun ég ekkert hitta aftur áður en ég fer heim.
Það versta er samt þó að ég missti af unglingavinum okkar. Þeir komu með 3 aðra unglinga með sér, m.a.s. eina 17 ára og Aysu varð ein að hafa ofan af fyrir krakkagreyjunum. Held að hinum gestunum hafi þótt frekar súrealískt að sjá allt í einu unglingagengi í miðju partýinu. Krakkarnir stoppuðu þó stutt við og héldu heim á leið. Er samt ótrúlega fúl að hafa misst af þeim, þó ekki væri nema að sjá viðbrögð hinna gestana við komu þeirra.
Er annars að fara á kaffihús núna til að hitta Lauru svona í síðasta skiptið, í bili alla vega.

laugardagur, janúar 27, 2007

Barnapartý

Ég og Aysu fórum út á lífið í gær. Afar skemmtilegt kvöld og ólíkt flestum öðrum. Fórum á skemmtilegan stað og sátum þar við blaður og drykkju þar til lokað var klukkan 1. Okkur var bennt á góðan stað sem væri opinn lengur og við ætluðum að skunda þangað. Þá sér Aysu 2 unga pilta sitja í bíl fyrir utan staðinn sem við komum út af. Hún vindur sér að þeim og biður þá að skutla okkur sem þeir taka vel í. Kemur á daginn að þeir eru 19 ára. Ég laug auðvitað að ég væri 25 ára og Aysu hélt kjafti um aldur sinn. Töluðum piltana á að koma með okkur og reyndum svo að komast inn á þennan stað + nokkra aðra en hvergi var strákgreyjunum hleypt inn sökum aldurs. Jafnvel þó þeir hafi verið í fylgd með fullorðnum. Það endaði því að við buðum þeim heim til okkar þar sem þar er ekkert aldurstakmark og þar sátum við langt fram á morgun og drukkum kaffi og borðuðum piparkökur. Spes!
Hér eru nýju barnungu vinir okkar þeir Matthias og Cliff. Matthias er með hatt sem mamma hans gaf honum í jólagjöf. Krúttlegt eða hvað!
Fyrir ykkur hafið sýktan hugsunarhátt og haldið að eitthvað ósæmilegt hafi átt sér stað milli kellingana og barnana get ég fullvissað ykkur um að ekki var um neitt slíkt að ræða.
Við höldum svo útflutningspartý í kvöld og buðum að sjálfsögðu piltunum en veit ekki alveg hvort þeir þora að koma í svona fullorðinspartý. Veit ekki heldur alveg hvernig þeir myndu passa inn en ég vona að þeir komi svona til að krydda aðeins partýið og láta okkur líða ungum á ný! Þess má geta að þegar ég loks gaf þeim um að ég væri fædd 1979 sagði annar þeirra, "vá ertu þá 38 ára!" Veit ekki alveg hvort það sé verra að hann trúi virkilega að ég gæti verið næstum fertug eða að sænsk æska sé svona agalega léleg í stærðfræði.

föstudagur, janúar 26, 2007

Listi 2

Thad goda vid ad flytja til Íslands
-Fjölskyldan eins og hun leggur sig. Ekki thad ad aldrei gaeti pirrings en thad goda vegur upp a moti honum
-Vinirnir gömlu gódu. Reyndar er meirihluti theirra busettur i utlöndum en nokkrar hraedur ma tho enn finna a landinu. Tho enginn a Akureyri :(
-Númi og Dódó (heimilisdýrin, tho thau kannski falli undir fjölskyldu)
-Hafa fjöll allt um kring
-Thurfa aldrei ad sleppa thvi ad segja eitthvad bara af thvi madur veit ekki hvernig a ad segja thad
-Geta verid fyndin. A utlensku er afar erfitt ad vera fyndin thar sem mikid af glensi felst i thvi ad snua ut ur ymsum ordum og nota ord sem eru hallaerisleg og thvi fyndin ef notud rett. Sliku er afar erfitt ad na a utlensku.
-Villast aldrei thegar madur fer i labbitúr (truid mer, thad hefur oft gerst fyrir mig her)
-Ad lída eins og madur se heima :)

fimmtudagur, janúar 25, 2007

Listinn

Blogger er bilaður svo ekki er hægt að setja inn myndir. Fúlt þar sem ég var búin að finna þessar líka fínu myndskreitingar við færsluna. Ákvað að gera smá lista þar sem ég stend nú á þeim tímamótum að yfirgefa Svíþjóð eftir að hafa búið hér í tæpt 1 1/2 ár.

Hvers mun ég sakna:
-Að tala sænsku
-Að fara í göngutúr um Stokkhólm og alltaf getað fundið eitthvað nýtt
-Vinana minna, sérstaklega Aysu (eins gott að hinir hvorki lesi né skilji þetta)
-Kexchoklad
-H&M
-Trjánna
-Alvöru sumars
-Logns (þegar það er ekki logn hrópa Svíarnir upp yfir sig "stormur, stormur" og allt verður vitlaust
-Að allir segi "hej" við mann
-Kaffihúsana og barana sem ég enn eftir að prófa
-Second hand búðana sem ég nýbúin að uppgötva
-Að getað skroppið til annarra útlanda án þess að það kosti aleiguna
-Allra hjólastígana

Hvers mun ég ekki sakna
-Að tala dönsku (þeir sem ekki fylgjast vel með, þá tala ég mikið dönsku í vinnunni)
-Að troðast í neðanjarðarlestinni
-Metrósexúal karlmanna
-Netto (subbubúlla)
-Að vera klukkatíma að komast til vinnu og annan klukkutíma að komast frá
-Endalausum seinkunum á lestum sem veldur því að maður stendur og bíður í kuldanum
-Að standa í röð til að komast í hraðbanka (alltaf)
-Að pirra mig yfir sambýlingum mínum þegar þeir gera ekki hlutina nákvæmlega eins og ég vil
-Herbergisins míns þar sem allt heyrist úr sambýlingsins herbergi og öfugt að sjálfsögðu
-Ömurlegra sjónvarpsstöðva
-Nágrannans á neðri hæðinni
-Subbulega þvottahússins í kjallaranum
-Paddana í íbúðinni okkar
-Leiðinlegu konunar í vinnunni

Mér telst svo til að fleira sé neikvætt en jákvætt svo niðurstaðan hlýtur því að vera sú að þetta er hárrétt ákvörðun hjá mér að yfirgefa þetta land.

þriðjudagur, janúar 23, 2007

Kjaftakelling

Verd adeins ad deila med ykkur sma pirring sem er ad hrja mig thessa stundina. Veit ei hvort thid minnist thess ad eg hafi minnst af fremur leidinlega konu sem eg vinn med. En hun er alla vega ein theirra sem getur talad og talad og talad tho augljost se ad folk nennir ekki ad hlusta. Oft thegar madur er frekar stressadur ad reyna ad vinna eins hratt og madur getur, byrjar hun ad babla um eitthvad sem madur hefur engan ahuga a, t.d. hvad hun er haefileikarik (i alvöru, hun var ad grobba sig hvad hun hefdi alltaf fengid godar einkunnir i skola) eda um börnin sina eda bara um eitthvad ut i loftid. Nu var hun ad koma fra laekni sem segir hana hafa einhverja bolgu a raddböndunum og aetti thvi ad reyna ad tala sem minnst. Nu er hun ad vorkenna ser agalega yfir ad thurfa ad svara i simann her (sem er hennar adalstarf). Thad sem hun svarar vinnutengdum samtölum er adeins litid brotabrot af thvi sem hun notar röddina i her i vinnunni.
Ohhhhh, ég er svo pirr!