Á sunnudaginn var víst svokallaður megrunarlausi dagurinn. Eflaust hafa margir fagnað því að hafa löglega afsökun fyrir að hætta í megrun svona í einn dag. Ég hélt upp á hann með því að kaupa mér bland í poka. Reyndar geri ég það næstum á hverjum degi svo það er kannski ekki að marka.
Annars vildi ég lýsa andstyggð minni á öllu þessu megrunartali eða það sem flestir kalla "vera í átaki" því það hljómar betur og eins og maður sé ekki eins feitur. Ég vildi hins vegar deila því með ykkur sem eruð í þessum hugleiðingum, einu besta megrunarráði sem um getur. Að hætta að vera í megrun.
Þannig er það að ég eins og svo margar konur, hef í gegnum árin verið með krónískt samviskubit yfir nokkrum mör sem ég hef bætt á mig síðan ég varð fullorðin. Ég hef oft talið mér trú um að ég yrði loksins fyllilega hamingjusöm, bara ef ég myndi nú missa þó ekki væri nema 2 kíló. Ég hef oft farið í megrun (og ég geri mér þó alveg grein fyrir að ég er ekkert sérstaklega feit) bara af því mig langar að komast í buxur í minna númeri því að þá væri ég miklu meiri pæja.
Megrunin byrjaði oft á mánudegi og fór oft vel af stað þar sem ég borðaði t.d. epli yfir sjónvarpinu á kvöldin en ekki bland í poka. Þriðjudagurinn var oft erfiðari en oftast þraukaði ég þó. Á miðvikudeginum gafst ég oftast upp, fór út í búð og keypti mér allt sem mig langaði í og nærðist ekki þann daginn á neinu öðru en nammi, poppi og öðru slíku. Fimmtudagurinn fór svo í samviskubit og sjálfsvorkun yfir því hvað ég hefði litla sjálfstjórn og ég myndi aldrei aftur passa í gallabuxurnar sem ég var í í MA.
Ein áramótin fyrir einhverjum árum síðan, var ég hins vegar komin með upp í háls af þessu rugli. Ég strengdi þess heit að hætta að hugsa um hvað ég mætti og mætti ekki borða og borða bara það sem ég vildi. Ef mig langaði í nammi, þá borðaði ég nammi og ef mig langaði að borða popp og kók í kvöldmati þá gerði ég það. Viti menn, ég léttist um einhver 2 kíló og hætti að þjást af stanslausum ásökunum í minn garð yfir því hvað ég væri léleg í að halda aftur af mér.
Nú ætla ég ekki að halda því fram að ég sé algjörlega laus við þennan fitukomplex og þessi 2 kíló löngu komin aftur og fleiri til, en ég held að ég sé ekki jafn geðveik í þessum málum og ég var fyrir einhverjum árum. Og þó er ég feitari og ætti samkvæmt fyrri kenningum að vera óhamingjusamari.
Gerum alla daga að megrunarlausum dögum!
þriðjudagur, maí 08, 2007
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli