miðvikudagur, maí 23, 2007

Farin

Tækniörðugleikar

þriðjudagur, maí 22, 2007

Finninn er djammóður svo nú sit ég í vinnunni og greiði fyrir það. Finnar eru frægir fyrir að vera fyllibyttur, Íslendingar eru frægir fyrir að vera fyllibyttur svo þetta er banvæn blanda.

föstudagur, maí 18, 2007

Finninn kemur

Á morgun kemur fyrrum bekkjarfélagi minn, sambýlingur og vinkona í heimsókn til mín til Reykjavíkur. Hún ætlar að vera hér í heila 10 daga svo ég verð að taka á öllu sem ég á til að vera hress og skemmtileg í heila 10 daga. Þeir sem til þekkja vita að það getur verið mér erfitt. En ég mun reyna. Að sjálfsögðu verður farið beint á reykvískt næturlíf og vonast til að það standi undir væntingum. Var búin að marglofa það þegar ég bjó úti og kvartaði yfir því sænska. Allir sem eru skemmtilegir því endilega að fara út á laugardag og leita okkur uppi. Og plís veriði sjúklega skemmtileg

Stjórnmálatuð

Einhvern tíma þarf maður víst að hafa rangt fyrir sér og það hafði ég með fyrri yfirlýsingum um áframhaldandi ríkisstjórnarsamstarf B og D. Ég fagna því auðvitað að "vinstri" flokkur fái nú aðild að stjórn eftir langa útilokun. Hefði auðvitað verið betra ef V og S hefðu verið saman þarna, ein og óstudd en það var víst ekki í boði. Því fáum við aftur Viðreisnarstjórnarmynstur.
Hef fulla trú á að Ingibjörg Sólrún muni standa sig vel enda kvenskörungur mikill. Ég vona einnig að hetjan mín, Jóhanna Sigurðardóttir fái ráðuneyti. Hún hefur verið eitt af mínum átrúnaðargoðum frá því hún var félagsmálaráðherra (held ég alveg örugglega) og afþakkaði ráðherrabíl og bílstjóra og ók um á eigin bílskrjóð. Þegar ég lýsti þessu einhvern tíma yfir í hópi ungra frjálshyggjupilta fussuðu þeir yfir því að ég félli fyrir svo ódýru bragði. Ég sé nú Geir Haarde eða Þorgerði Katrínu fórna slíkum forréttindum þó það væri í þeirri von um að skora nokkur atkvæði. Áfram Jóhanna! Verst að hún er í vitlausum flokki.
Í þessu öllu saman finnst mér líka leiðinlegt hvað formaður vor Steingrímur Joð er í mikilli fýlu yfir málalokum. Þetta er ástæðan fyrir því að oft þykja mér stjórnmál afar leiðinleg, það eru allir alltaf í fýlu við alla ef hlutirnir fara ekki nákvæmlega eftir þeirra eigin höfði. Ég hafði alla vega ekki viljað sjá V með D í stjórn því það myndi fela í sér alltaf mikinn afslátt af málefnum. Steingrímur var nú reyndar eitthvað farin að slá af rétt eftir kosningar til að sleikja D upp. Svoleiðis lýst mér ekki á. Ég vil að þetta lið standi fast á sínu og ef það fellur ekki í kramið hjá vinsælu krökkunum þá verður bara að hafa það.

þriðjudagur, maí 15, 2007

Komin suður

Úrslit kosninga liggja nú fyrir og verð ég að segja það að ekki koma þau nú mikið á óvart. Ég spáði því að ríkisstjórnin myndi halda og því miður hafði ég rétt fyrir mér. Eins og það er nú gaman að hafa rétt fyrir sér þótti mér það miður í þessu máli. Spái því einnig að valdasjúku Framsóknarmenn muni áfram sitja í ríkisstjórn með ránfyglinu.

Er annars flutt suður og byrjuð að vinna. Bý í kjallarholu í Þingholtunum sem býður ekki upp á internet svo eitthvað verður lítið um blogg. Reyni að lummast í vinnunni kannski annað slagið.

laugardagur, maí 12, 2007

föstudagur, maí 11, 2007

Sorrí, get ekki hætt

Ég ætla að skrifa eitt enn um Júróvision og svo er ég hætt. Enda löngu komið nóg.

Ég vil gjarnan taka tilbaka allt um svindl við kosningarnar. Ég er svo mikið nörd að ég fór aðeins að hlusta á nokkur lög úr keppninni í dag. Ég stóð mig að því að hlusta bara á "austur Evrópu" lögin. Ég kaus satt að segja eitt þeirra í gær. Danmörk var leiðinlegt, Noregur var skítsæmó, Belgía var martröð, Holland niðurdrepandi, Sviss grín, Austurríki púkó og Portúgal jakk. Kannski verðum við bara að sætta okkur við það að þau eru bara betri en við í Júróvision. Ætli þessi ríki muni ekki brátt valta yfir okkur á öðrum sviðum líka og t.d. búlgarskur auðjöfur kaupa Símann og Íslendingar að streyma til Póllands til að vinna í Prins Póló verksmiðju.

Ef þetta er bara klíkuskapur fyrrum Sovétlýðvelda hvernig gat þá Finnland unnið í fyrra, var það vegna ótta um nýtt Vetrarstríð eða hvað?

Meira Júróvision

Held ég hafi komið með lausn í stóra Júróvision málinu. Við þurfum auðvitað bara að safna liði. Við vitum að liðið á norðurlöndum nennir kannski að kjósa okkur svona stundum og því vantar okkur bara fleiri norðurlönd. Sem sé, gefa Færeyjum og Álandseyjum sjálfstæði, gera Danmörku að 3 löndum, Sjálandi, Fjóni og Jótlandi, Vestmannaeyjar eiga alveg skilið að vera sjálfstæðar, Árni Johnsen getur verið forseti (þá þurfum við hin uppi á landi ekki að hlusta á hann lengur), Svalbarði getur orðið lýðveldi, yrði stærsta háskólasamfélag heims (miðað við höfðatölu), hægt yrði að flytja nokkra til Jan Majen o.s.frv.
Þá er bara að stofna til smá illinda svo alþjóðasamfélagið hjálpi okkur við að skipta þessu drasli niður í smáeiningar. Vandamálið er auðvitað að við höfum verið allt of friðsæl síðustu áratugina.

Svindl

Það þarf engan stjórnmálafræðing til að sjá að þessar júróvisionkosningar eru ekkert nema svindl. Ég heimta að kosningaeftirlit S.Þ. hafi yfirumsjón að ári.

P.S. Ef einhver flokkur kemur með loforð um að segja okkur úr Evrópu og sækja um í Ameríku þá kýs ég þann flokk, þó hann muni bera listabókstafinn D.

fimmtudagur, maí 10, 2007

Tilraun til heilaþvottar

Þar sem ég er stjórnmálafræðingur áskil ég mér þann rétt að leiðbeina fólki aðeins í stjórnmálum þar sem ég er FRÆÐINGUR athugið um þessi mál.
Trúið því mér þegar ég segi; landið mun ekki fara til anskotans þó Sjálfstæðisflokkurinn sitji ekki í ríkisstjórn. Ef þið trúið mér ekki lítið til hinna Norðurlandana þar sem vinstriflokkar hafa oftast verið við völd.
Mér finnst ótrúlegt að um 40% kjósenda ætli sér að kjósa flokk sem hefur verið við völd nánast tja, alltaf. Ég ætla ekki að halda fram að hér á Íslandi sé allt í skít en mér finnst hins vegar komin tími til að leyfa einhverjum öðrum að spreyta sig. Mér finnst ekki gott ef við ætlum að halda áfram að byggja hér upp samfélag þar sem bilið milli ríkra og fátækra eykst ár frá ári. Mig langar ekki að búa í landi þar sem til eru ríkra manna hverfi og fátækrarhverfi. Að sérstakir skólar verði til þar sem ríku krakkarnir fara og hía á krakkana í blokkahverfaskólunum. Mig langar ekki að búa í landi þar sem því er troðið að manni leynt og ljóst að helsta dygðin sé að verða ríkur. Hvernig sem farið að því að verða ríkur virðist vera aukaatriði. Mig langar heldur ekki að búa í landi þar sem virkjanir eru við hvern bæjarlæk því að stjórnvöld eru of hugmyndasnauð til að finna aðrar leiðir til atvinnuuppbyggingar. Hvað þá að það sé í lagi að selja orkuna til samviskulausra alþjóðafyrirtækja sem koma fram við starfsmenn sína eins og tíðkaðist við upphaf iðnbyltingar. Mig langar heldur ekki að búa í landi sem hefur ekki sjálfstæða utanríkisstefnu. Mig langar ekki að búa í landi þar sem ríkir geta keypt sig fram fyrir raðir í heilbrigðiskerfinu. Mér finnst fremur augljóst að allt stefni í að heilbrigðiskerfið verði einkavætt þar sem ríkið virðist hafa voðalega gaman að því að einkavæða. Það er svo hagstætt sjáiði til. Mig langar heldur ekki að búa í landi þar sem ekkert er verið að gera í jafnréttismálum. Markaðurinn á að sjá um þau mál.
Hvernig væri að prófa eitthvað nýtt. Plís ekki kjósa Sjálfstæðisflokkinn. Hlustið á mig, ég er fræðingur sjáiði til.

Myndasyrpa

Ég hef verið með eindæmum léleg bæði að taka myndir og setja hér inn síðan ég kom heim. Ég ætla aðeins að bæta úr því með því að skella hér inn nokkrum.
Hér að ofan er litli sæti frændi minn hann Jobbi litli sem var einmitt 4 ára þann 3. maí og bauð húsmóðirin Agla að sjálfsögðu í kaffi og meððí
Varð svo að skella mynd af hinum fjallmyndarlega föður mínum ásamt einhverjum vini sínum.
Hér er síðan Gunna (sem verður eflaust himinlifandi yfir því að vera komin á veraldarvefinn) en hún kom til landsins í stutt stopp í mars að mig minnir. Hún á sætan kött sem er þó ekki alveg jafn sætur og okkar en slagar upp í það.
Stína stuð kom svo um páskana og skemmti mér og öðrum með nærveru sinni. Hún er einmitt frænka Eika Hauks sem mun trylla lýðin í kvöld.
Svo er hér einhver ljóshærð gella sem ég veit ekki nánari deili á
Hér er að lokum hluti fjölskyldunar er við skelltum okkur í badminton. Held jafnvel að þetta sé sportlegasta fjölskyldan norðan heiða.
Aldrei skal setja á sig gloss á varirnar áður en maður fer í klippingu til að laga toppinn (ákvað að gefa honum annan séns). Loðnar varir eru ekki foxí

miðvikudagur, maí 09, 2007

Kosningar

Ekki það að ég þurfi eitthvert próf til að segja mér hvað ég eigi að kjósa en þó tók ég þetta nú samt (http://xhvad.bifrost.is/). Það sem er mest sjokkerandi er að næst á eftir vinstri grænum er stuðningurinn mestur við Sjálfstæðisflokkinn. Fyrr frysi í helvíti en ég myndi kjósa það gengi. Kaus Samfylkinguna í fyrstu Alþingiskosningunum sem ég hafði kosningarétt, það hafa greinilega verið mikil mistök.

Stuðningur við Sjálfstæðisflokk: 25%
Stuðningur við Framsóknarflokk: 10%
Stuðningur við Samfylkinguna: 0%
Stuðningur við Vinstri-Græna: 75%
Stuðningur við Frjálslynda flokkinn: 9%
Stuðningur við Íslandshreyfinguna: 20%

þriðjudagur, maí 08, 2007

Megrun spegrun

Á sunnudaginn var víst svokallaður megrunarlausi dagurinn. Eflaust hafa margir fagnað því að hafa löglega afsökun fyrir að hætta í megrun svona í einn dag. Ég hélt upp á hann með því að kaupa mér bland í poka. Reyndar geri ég það næstum á hverjum degi svo það er kannski ekki að marka.
Annars vildi ég lýsa andstyggð minni á öllu þessu megrunartali eða það sem flestir kalla "vera í átaki" því það hljómar betur og eins og maður sé ekki eins feitur. Ég vildi hins vegar deila því með ykkur sem eruð í þessum hugleiðingum, einu besta megrunarráði sem um getur. Að hætta að vera í megrun.
Þannig er það að ég eins og svo margar konur, hef í gegnum árin verið með krónískt samviskubit yfir nokkrum mör sem ég hef bætt á mig síðan ég varð fullorðin. Ég hef oft talið mér trú um að ég yrði loksins fyllilega hamingjusöm, bara ef ég myndi nú missa þó ekki væri nema 2 kíló. Ég hef oft farið í megrun (og ég geri mér þó alveg grein fyrir að ég er ekkert sérstaklega feit) bara af því mig langar að komast í buxur í minna númeri því að þá væri ég miklu meiri pæja.
Megrunin byrjaði oft á mánudegi og fór oft vel af stað þar sem ég borðaði t.d. epli yfir sjónvarpinu á kvöldin en ekki bland í poka. Þriðjudagurinn var oft erfiðari en oftast þraukaði ég þó. Á miðvikudeginum gafst ég oftast upp, fór út í búð og keypti mér allt sem mig langaði í og nærðist ekki þann daginn á neinu öðru en nammi, poppi og öðru slíku. Fimmtudagurinn fór svo í samviskubit og sjálfsvorkun yfir því hvað ég hefði litla sjálfstjórn og ég myndi aldrei aftur passa í gallabuxurnar sem ég var í í MA.
Ein áramótin fyrir einhverjum árum síðan, var ég hins vegar komin með upp í háls af þessu rugli. Ég strengdi þess heit að hætta að hugsa um hvað ég mætti og mætti ekki borða og borða bara það sem ég vildi. Ef mig langaði í nammi, þá borðaði ég nammi og ef mig langaði að borða popp og kók í kvöldmati þá gerði ég það. Viti menn, ég léttist um einhver 2 kíló og hætti að þjást af stanslausum ásökunum í minn garð yfir því hvað ég væri léleg í að halda aftur af mér.
Nú ætla ég ekki að halda því fram að ég sé algjörlega laus við þennan fitukomplex og þessi 2 kíló löngu komin aftur og fleiri til, en ég held að ég sé ekki jafn geðveik í þessum málum og ég var fyrir einhverjum árum. Og þó er ég feitari og ætti samkvæmt fyrri kenningum að vera óhamingjusamari.
Gerum alla daga að megrunarlausum dögum!

laugardagur, maí 05, 2007

Bleik martröð

Varð hugsað aftur til bernskuárana fyrir skemmstu þegar ég skellti mér í fína H&M mjög svo bleika jakkann minn um daginn.
Þetta var örugglega vorið þegar ég var í 0 bekk. Þá þótti það afskaplega hallærislegt að halda upp á litinn bleikann. E.t.v. vegna þeirra tengingar sem sá litur hefur við stelpur almennt og það sem stelpulegt er þykir oftast lítið töff. Alla vega þá vildi enginn vera sakaður um það að finnast eitthvað sem var bleikt, flott. Ég, litla, pervisna og feimna stúlkan átti mér þó myrkt leyndarmál sem var falið djúpt í hugskoti mínu og ásótti mig. Í einfeldni minni sagði ég eldri systur minni frá þessu leyndarmáli. Bleikur var í raun uppáhaldsliturinn minn!
Einn daginn eftir skóla kom vinkona mín með mér heim. Af einskærri illsku blaðrar systirin út úr sér leyndarmálinu beint fyrir framan vinkonuna. Í örvæntingu reyni ég að verjast öllum ásökunum en sé fljótt að leikurinn er tapaður. Vinkona mín VEIT að mér finnst þessi stelpulitur í alvörunni flottur. Í örvilnun hleyp ég inn á bað og læsi á eftir mér. Tárin byrja að streyma og ég heyri hvernig flissið í þeim fyrir utan færist nær og nær hurðinni. Nú eru góð ráð dýr. Ekki get ég farið fram og mætt dæmandi augnarráði vinkonunar og glugginn á baðherberginni er of lítill og of hátt upp til að hægt sé að troða sér út um hann. En trúið mér ég reyndi þó. Mín örlög voru því að hanga grenjandi inni í klósetti þangað til mamma kom heim og gera það sem ég var og er best í; klaga!
Ég man svo ekki frekari eftirmála þessa máls en minnist ég þó ekki einhverrar útskúfunar í kjölfarið og virðist ég ekki hafa borið allmikinn skaða af. Alla vega spásseraði ég alls óhrædd nú fyrir nokkrum dögum í bleikasta jakka sem fyrirfinnst án þess að finna fyrir vott af skömm.

föstudagur, maí 04, 2007

Vorboðinn

Í dag er síðasti dagurinn minn á FSA, svona í bili a.mk. Einhvern veginn virðist ég alltaf enda hérna aftur. Hef unnið hér meira og minna á sumrin (sem og reyndar á öðrum tímum) síðan sumarið 1996 þegar ég byrjaði ferilinn í bítibúrinu á Seli. Mér hefur líkt við farfuglana af nokkrum starfsmönnum sjúkrahússins þar sem sumarið er víst komið þegar ég mæti á svæðið. Einhvers konar náttúrulögmál. Vona þó að svo sé ekki raunin þar sem ef svo væri yrði sumarið búið í dag.
Finnst annars vafasamur titill að vera einhvers konar vorboði. Man eftir einum sem var kallaður það hér á Akureyri og þó það sé eflaust ágætis kall langar mig ekkert að vera líkt við hann.

Nonni kominn úr sauðskinsskónum yfir í eðalsteina

Svo skilst manni sem Garðar Thor Cortes sé að slá í gegn í útlöndum. Svo merkilegur er hann að nú er hann sendur á verðlaunahátíðir skrýddur eðalsteinum úr smiðju forsetafrúarinnar. Veit ég eigi hvort það er honum til framdráttar því alla vega að mínu mati er aðeins eitt sem er klígjulegra en karlmaður með skartgripi en það er karlmaður með demantskross um hálsinn sem kostar 254 miljónir króna. Oj!

fimmtudagur, maí 03, 2007

Jón í grjótið

Það gleður mig að dómur hefur loks fallið í endavitleysunni sem kallast Baugsmálið. Grunar þó að eitthvað munum við fá að heyra meira af því. Ekki það að ég viti eitthvað um málið, en hefði mér þótt eitthvað skemmtilegt við það ef Jón Ásgeir og co hefðu þurft að fara í grjótið en ekki bara fengið skilorðsbundinn dóm. Held líka að fangar almennt séu ósáttir við það að fá ekki Jón sem kollega sinn í steininum þar sem slíkt hefði eflaust falið í sér aukinn lúxus í afplánuninni. Fersk er minningin þegar Árni Johnsen reddaði splunkunýjum rúmum í fangelsið að Kvígabryggju. Ég man það mjög vel því þá var ég, fátæki námsmaðurinn, einmitt nýbúin að punga út 50 þúsund kalli fyrir rúm sömu tegundar.
Ef Árni gat reddað rúmum hvað hefði þá eiginlega Jón litli orðið sér og sínum úti um? Held að eftir að Bónusdrengurinn hefði endurbætt aðstöðu fanga hefði hvert mannsbarn á landinu dreymt um að komast í grjótið. Spáiði í því ef hann hefði þurft að halda komandi fertugsafmælið þar inni. Óhætt er að fullyrða að glæpaalda myndi skekja samfélagið sem aldrei fyrr.

Kommi/komma

Eftir síðustu færslur býst ég fastlega við því að viðurnefnið Anna Kommi hafi fests við mig. Er þá markmiðinu náð enda lengi þráð þá nafnbót. Þekki nú þegar til Óla Komma og Stebba Komma og finnst alveg tími til kominn að fá kvenmann í kommaviðurnefnishópinn. Reyni að standa undir nafni með fleiri færslum í kommúnískum stíl. Svo bíðið spennt.

Spurning hvort ég væri komma frekar en kommi svona þar sem ég er kvenkyns, það væri svo sem líka kúl.

miðvikudagur, maí 02, 2007

Fram þjáðir menn í þúsund löndum...

Til hamingju með daginn!
Eins og sönnum sósíalista sæmir fór ég í Fyrsta maí göngu í dag. Verð þó að viðurkenna að ekki hef ég nú oft farið í slíka göngu en batnandi mönnum er best að lifa. Nokkurt fjölmenni var í göngunni á Akureyri í ár og ætli veðurblíðunni sé þar ekki einhverju að þakka. Hluti af minni sósíalísku fjölskyldu var þarna samankominn þar sem við töltum á eftir lúðrasveitinni undir Internationalen og fleiri góðum slögurum. Skemmtilegt þótti mér nú að ganga fram hjá höfuðvígi erkiandstæðingsins, kosningamiðstöð Sjálfstæðisflokksins. Þar sátu blámenn og horfðu með vanþóknun á gönguliða, verkalýðspakkið og fátæklingana. Eða svona alla vega dramatiseraði ég þetta augnablik í huga mínum. Eflaust voru þau bara í sólbaði og nákvæmlega sama um eitthvað lið með fána og lúðrasveit.
Gangan hélt svo í annað vígi Sjálfstæðisflokksins, Sjallann, en þar fengu gönguliðar húsaskjól fyrir ræðuhöld og kaffiþamb. Eitthvað fór nú fyrir ofan garð á neðan hjá mér hvað átti sér stað þarna því ég var upptekin við að sýna frændsystkinum mínum athygli. En svo steig poppstjarnan Ögmundur Jónasson í pontu og þrumaði yfir lýðnum um auðvaldið og þeirra klæki til að svíkja okkur launafólk. Fussum svei! Gamall eldmóður minn sem hefur mikið róast síðustu árin, byrjaði aftur að krauma, slík var fegurð og sannleikur orða meistarans.
Held ég verði bara að fara að lesa Kommúnistaávarpið aftur enda ein sú fallegasta lesning sem hægt er að komast í. Á ég því miður ekki eintak á íslensku en það er víst ófáanlegt. Ég man einmitt þegar ég hringdi í ágæta bókabúð hér í bæ fyrir nokkrum árum til að spyrja hvort þeir ættu það á íslensku. Ég var alveg bit þegar frökenin í símanum spurði mig hver væri höfundurinn. Finnst nú að hvert einasta mannsbarn ætti að þekkja þetta rit. Ég ætlaði nú alltaf að safna þessu ávarpi á hinum ýmsu tungumálum en er þó aðeins komið með það á ensku og sænsku. Lélegt safn það ...

Öreigar allra landa sameinist