Í gegnum tíðina hef ég verið að átta mig betur og betur á því að fólki finnst það alltaf hafa rétt fyrir sér og það sem það gerir sjálft sé það æskilega. Yfirleitt eru það "hinir" sem haga sér eins og fífl. Mér varð sérstaklega hugsað til þessa í gær þegar ég var að synda mér til heilsubótar í Akureyrarlaug. Þar synti ég af miklum móð en þótti mér nokkuð til trafala að þar voru einhver krakkaskott sem þvældust fyrir mér og hægðu á sundi mínu, þar sem þau voru að hanga á línunni sem skiptir lauginni í brautir. Þarna höngsuðust þau og busluðu þannig að ég þurfti að taka á mig nokkurn sveig til að komast fram hjá. Þetta fyllti mig pirring og ég bölvaði krakkagreyjunum í huganum. Það er hins vegar ekki svo langt síðan að mér þótti sjálfri fátt skemmtilegra en að hanga á þessari línunni. Þó það væri bannað og sundlaugarvörðurinn skammaði mann í kallkerfinu. Sömuleiðis var eitthvað fúlt fullorðið fólk sem var að synda sem leit mann hornauga þar sem maður lék kúnstir sínar á línunni góðu. Það fyllti mig pirring sem barn hvað þetta fólk gat verið fúlt. Nú er ég orðin þetta fúla fullorðna fólk.
Sömuleiðis er það gamla fólkið í sundi sem getur líka fyllt mig pirring. Það syndir hægt og hægir því einnig á ferð minni. Ekki líður á löngu þar til ég verð síðan ein af þeim og pirrast út í þetta unga fólk sem er alltaf að hamast við að taka fram úr manni.
Sem sé ótrúlega mikill pirringur sem á sér stað. Er það kannski bara ég sem er svona pirruð eða er þetta landlægur vandi?
miðvikudagur, apríl 25, 2007
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
2 ummæli:
Held því miður að það sé nú ekki bara þú. Það eru allir endalaust að pirra sig. Þetta er ekki landlægur vandi,heldur multikúltural vandi. Hef tekið eftir því hér, allra þjóða ferlíki eiga það sameiginlegt að geta pirrað sig í tíma og ótíma.
Er þá ekki hægt að nota pirring sem samnefnarar til að sameina ólíka menningarheima? Finna eitthvað sem pirrar alla jafn mikið og láta fólk síðan sameinast um þetta. Allir verða þá svo glaðir að finna eitthvað sem þeir eiga sameiginlegt. Maður spyr sig!
Skrifa ummæli