fimmtudagur, maí 03, 2007

Jón í grjótið

Það gleður mig að dómur hefur loks fallið í endavitleysunni sem kallast Baugsmálið. Grunar þó að eitthvað munum við fá að heyra meira af því. Ekki það að ég viti eitthvað um málið, en hefði mér þótt eitthvað skemmtilegt við það ef Jón Ásgeir og co hefðu þurft að fara í grjótið en ekki bara fengið skilorðsbundinn dóm. Held líka að fangar almennt séu ósáttir við það að fá ekki Jón sem kollega sinn í steininum þar sem slíkt hefði eflaust falið í sér aukinn lúxus í afplánuninni. Fersk er minningin þegar Árni Johnsen reddaði splunkunýjum rúmum í fangelsið að Kvígabryggju. Ég man það mjög vel því þá var ég, fátæki námsmaðurinn, einmitt nýbúin að punga út 50 þúsund kalli fyrir rúm sömu tegundar.
Ef Árni gat reddað rúmum hvað hefði þá eiginlega Jón litli orðið sér og sínum úti um? Held að eftir að Bónusdrengurinn hefði endurbætt aðstöðu fanga hefði hvert mannsbarn á landinu dreymt um að komast í grjótið. Spáiði í því ef hann hefði þurft að halda komandi fertugsafmælið þar inni. Óhætt er að fullyrða að glæpaalda myndi skekja samfélagið sem aldrei fyrr.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Hahaha þetta eru skemmtilegar pælingar. Gleymi því ekki þegar ég las um það í mogganum að tugthúslimir landsins væri fullir spennings að sækja um að fara á þjóðhátið árið sem árni greyið fékk svo ekki að fara. Svo virtist sem félagar hans vildu ólmir flykkjast með honum. Ég sá þá fyrir mér alla saman í rútu í röndóttum fangabúningum með kúlur í keðju um fæturna að æfa sig fyrir brekkusönginn.