Þessa dagana ELSKA ég Svíþjóð! Það er búið að vera svo fullkomið veður, er meira að segja orðin brún. Fór með Vibeke (fyrrum sambýliskonu minni) að vatni á sunnudaginn sem er hér aðeins fyrir utan Uppsala og þar voru í kring svona týpísk rauð tréhús eins og eru í öllum Astrid Lindgren þáttunum, allt var svo væmið og yndislegt. Við sátum við vatnið og sóluðum okkur og í kring voru fjölskyldur að grilla, börn að leika og á vatninu var fólk að róa. Ef sumarið verður svona þá hlakka ég svo sannarlega til þess.
En auðvitað er sá galli á gjöf Njarðar að lærdómurinn situr á hakanum sem aldrei fyrr. Mig langar bara að vera úti og leika mér. Ætti að vera bannað að skrifa mastersritgerðir á vorin, hefði verið fínt að sitja inni við tölvuna þegar hér var 20 stiga frost dag eftir dag í vetur. Það verður ekki á allt kosið!
Nú er bara 1 mánuður eftir af þessu prógrammi. Það er fúlt. Mig langar ekki að kveðja þetta fólk sem ég er búin að kynnast hér, maður er búin að hanga með þessu liði síðan í september og mér finnst eins og ég sé búin að þekkja þau í mörg ár. Held samt að við höfum kannski gott af að skiljast. Erum orðin ófær um að tala um annað en fólkið í bekknum. Á laugardaginn var farið út (sem aldrei fyrr), sátum úti allt kvöldið og sötruðum öl. Bróðir Tóbíasar var í heimsókn. Þegar leið á kvöldið var hann farin að verða ansi pirraður því við fórum alltaf að tala um bekkjarfélagana. Tóbías tók upp á því að leika marga þeirra, þ.á.m. mig. Ég segi víst "vá" oftar en aðrir og æpi sömuleiðis oft upp yfir mig, t.d. þegar býfluga á leið hjá. Hafið þið tekið eftir þessu? Eftir að hafa verið bent á þetta er ég mjög meðvituð um hvort skipti sem ég er komin með V fram á varirnar, reyni nú að stoppa Áið, en sem sé hef áttað mig á því að líklega segi ég Vá oftar en annað fólk! Alla vega, þá áttuðum við okkur á því að kannski höfum við eytt of miklum tíma saman, þegar utanaðkomandi eru að farast úr leiðindum þegar þeir slást í hópinn. En okkur finnst við skemmtileg og það er fyrir öllu!
þriðjudagur, maí 09, 2006
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
3 ummæli:
En yndislegt, Anna mín loksins að upplifa sænska drauminn!! Ég kannast nú vel við ópin í þér yfir býflugum eða öðru slíku. Vá-in held ég í rauninni að séu meira svona eitthvað íslenskt, alla vega finn ég mig oft segja vá á öðrum tungumálum og finnst það hljóma skrítið og finnst aðrir aldrei segja það. Annars veit ég ekki, bara hugdetta, hef alla vega ekki tekið spes eftir því að þú segir meira vá en aðrir!! Til hamingju með litlu frænku og óskaðu Siggu til hamingju frá mér.
Stína mín! E-ð að miskilja, Sigga á engar hamingjuóskir skildar, enda er hún ekkert að fjölga mannkyninu. Nema þú sért að meina að ég eigi að óska henni til hamingju með að vera orðin frænka!!
já ég er eitthvað að miis... það var eitthvað skrýtið við þetta, lítill frændi búinn að eignast barn, samt ekkert að kveikja, þetta var alveg fast í mér af einhverjum ástæðum! Gaman að upplýsa mannkynið um vitleysisskap sinn á alheimsnetinu! En til hamingju allir og ísland og allt!!
Skrifa ummæli