Ritgerðarskil eftir viku. Ætti að vera á skriljón að vinna í ritgerðinni minni. Hins vegar hef ég fundið mér ýmislegt annað til dundurs í dag. Byrjaði á að labba í Gottsunda Centrum til að versla í matinn. Labbaði athugið, því það myndi taka of lítinn tíma að hjóla. Þreif svo alla íbúðina (sem samanstendur víst bara af 1 herbergi og klósetti en samt), og setti í nokkrar þvottavélar. Svona inn á milli hef ég lesið hitt og þetta fyrir ritgerðina. Fattaði líka í dag að hægt er að hlusta á Rás 2 í gegnum netið. Skemmti mér því konunglega við þrifin að hlusta á Gest Einar tala um veðrið og góða slagara með Savanatríóinu. Mjög huggulegt, maður gleymir því bara að maður sé í útlöndum. Veit allt hvað er að gerast á Íslandi bæði hvernig veðrið er þökk sé Gesti Einari, Hverjir eru byrjaðir saman og hverjir hættir saman, þökk sé slúðurblaðasendingu Gyðu Bergs og hvað er annað að gerast á Íslandi þökk sé mbl.is og fleiri góðum síðum. Svolítið annað en fyrir íslenska stúdenta stadda erlendis hér áður fyrr þegar sendibréf að heiman nokkrum sinnum í mánuði innihéldu einu fréttirnar að heiman. Jebb, breyttir tímar, það er alveg ljóst.
Fékk annars tilbaka frá Hönnu bekkjarsystur, það sem ég bað hana að lesa yfir fyrir mig til að leiðrétta enskuna mína. Svo sem ekkert gríðarlega mikið sem þurfti að laga en eitt samt frekar fyndið. Var að tala um samskipti breska og íslenska forsætisráðaherrans í e-u þorskastríðinu og notaði orðið college (skóli) í staðinn fyrir colleague (starfsbróðir). Hafði sjálf lesið þetta yfir örugglega svona 5x án þess að sjá nokkuð athugavert við það Hermann Jónasson hafi verið að fara til Bretlands á fund við skólann sinn. Gott að geta skemmt Hönnu annars við lesturinn sem eflaust er annars ekki svo skemmtilegur.
fimmtudagur, maí 25, 2006
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli