þriðjudagur, maí 30, 2006

Prent og pjatt

Ákvað að skella eins og einni sumarmynd svona til að bæta fyrir neikvæðni síðustu daga. Er öll að koma til enda ritgerðin sama sem tilbúin og býst ég við með að fara með ósköpin í prentun á morgun. Þurfum að skila 10 eintökum af einhverjum ástæðum svo þetta verða um 600 blaðsíður sem maður þarf að punga út fyrir. Hér er þó ekki sama pjattið og í HÍ þar sem ósköpin öll eru bundin inn í fíneríis bókalíki sem tekur hálfan daginn að útbúa og kostar formúgu ef ég man rétt. Hér er bara prentað og heftað saman með einu hefti. Ekkert vit í að vera með eitthvað dútl í kringum þetta, eykur bara á pressuna á að hafa innihaldið gott, svona til að það eigi skilið að vera bundið inn.
Sit núna og er að reyna að hugsa upp titil til að skella á forsíðuna. Finnst ég þurfa að hafa eitthvern töff titil. Enn sem komið er hafa engar góðar hugmyndir litið dagsins ljós sem innihalda orðin Cod Wars, realism og international norms. Uppástungur vel þegnar.
Frábært....D og B komið í borgarstjórn líka.

sunnudagur, maí 28, 2006

Aðeins um kosningarnar

Verð aðeins að fá útrás fyrir pirring minn hér eins og endranær. Lofa að brátt mun ég koma með hamingjuríka og jákvæða pistla.
En mér finnst afar óþolandi þegar stjórnmálamenn geta aldrei viðurkennt að þeir séu fúlir yfir kosningum. Allir þylja þeir upp sömu rulluna, að þeir geti vel við unað og í raun sé útkoman ákveðin traustsyfirlýsing við flokkinn og hans störf og blablabla. Hvernig get t.d. Vilhjálmur og co. í D í Reykjavík, sagt að skilaboðin séu skýr vantraustyfirlýsing á R-lista flokkana og að Sjálfstæðisflokkurinn hafi unnið góðan sigur, þegar lokatölur voru langt frá væntingum um meirihluta. Hinir lítið skárri. Allir kveðast hafa unnið og geta unað sáttir við sitt. Auðvitað eru allir drullu fúlir. Allir vilja alltaf meira. Hvernig væri að segjast vera vonsvikinn. Við viljum hreinskilni en ekki endalaust sama tuðið úr öllum fylkingum. Verið tapsár og kvartið, það myndi kannski gefa þessum sirkus öllum í kosningar raunverulegri mynd.

Haglél

Ég skal segja ykkur það.....Það er geðsjúk haglél úti!

Neikvæðnin með ritgerðina hefur aðeins dofnað. Fékk margar góðar athugasemdir frá Ericu og henni fannst margt gott hjá mér. Þurfti bara aðeins smá pepp frá einhverjum sem veit sínu viti.

Straumurinn lá til vinstri

Fólk er kannski loksins að átta sig á því að hægri og miðkokteillinn er ekki hin fullkomna blanda og tími sé til kominn að leyfa öðrum kokteilum að spreyta sig í að lappa upp á sveitarstjórnir þessa lands. Mun þó ekki fagna almennilega fyrr en vinstrið hefur einnig hreiðrað um sig í stjórnarráðinu. Í það skiptið mun ég leggja á mig að fara á kjörstað hvar svo sem ég verð stödd þá.
Annars er ég svona nokkurn veginn á barmi taugaáfalls yfir ritgerðinni minni og er hún nú í mati hjá Ericu frá Kirgistan sem er "researcher" við Háskólann. Er í alvörunni farin að íhuga að skila í ágúst, aðallega námslánin sem eru að koma í veg fyrir þá hugmynd. En best að fara að vinna í smá damage control á ritgerðinni í staðinn fyrir að kvarta hér.

föstudagur, maí 26, 2006

Annar í Kristi Himmelsfärdsdag

Það er föstudagskvöld. Mér leiðist voðalega. Ekkert rokk og ról þessa helgina enda ritgerðardruslan á lokasprettinum.
Svíar virðast vera voðalega hrifnir af Uppstigningadegi, taka alveg 3 daga í að halda upp á hann. Hafa líklega verið glaðari en aðrir þegar Jesús blessaður dreif sig til himna. Bókasafninu var alla vega lokað snemma í dag og er lokað á morgun. Kann ekki aðra skýringu á þessu en að það sé annar og þriðji í Uppstigningu! Kannski var Jesús svona lengi að koma sér inn fyrir himnahliðið, hvað veit maður. Ætli hann hafi ekki verið að reyna að sannfæra Guð að hann hafi ekki verið að syndga með henni Maríu Magdalenu eins reynt er að telja manni trú um þessa dagana.
Annars er ég með örlítið samviskubit yfir að hafa ekki nýtt mér lýðræðislegan rétt minn og kosið utankjörstaðar í þessum sveitastjórnarkosningum. Nennti bara ekki né tímdi að gera mér sérferð til höfuðstaðarins, Stokkhólms, til að kjósa. Ef Kristján fokking Júlíusson kemst í bæjarstjórasætið eina ferðina enn á minn kostnað þá verð ég ill við mig sjálfa. Býst svo sem við því að það muni muna meira en mínu atkvæði. Veit annars ekkert hvað ég hefði átt að kjósa þó að það komi nú kannski ekki margt til greina hjá manneskju haldin krónískri vinstrimennsku. Var annars búin að velta því fyrir mér að hafa samband við einhvern flokkana og biðja þá um lestarferðarstyrk til Stokkhólms svo ég gæti nú kosið, fátækur námsmaðurinn. Maður fær nú fregnir af því að þetta sveitarstjórnarlið vaði í peningum í kosningaslagnum svo ætli einn lestarmiði hefði nokkuð verið mál.
Held ég fari annars bara að sofa í hausinn á mér (hví segir fólk þetta?!?!)
Tútilú

fimmtudagur, maí 25, 2006

Breyttir tímar

Ritgerðarskil eftir viku. Ætti að vera á skriljón að vinna í ritgerðinni minni. Hins vegar hef ég fundið mér ýmislegt annað til dundurs í dag. Byrjaði á að labba í Gottsunda Centrum til að versla í matinn. Labbaði athugið, því það myndi taka of lítinn tíma að hjóla. Þreif svo alla íbúðina (sem samanstendur víst bara af 1 herbergi og klósetti en samt), og setti í nokkrar þvottavélar. Svona inn á milli hef ég lesið hitt og þetta fyrir ritgerðina. Fattaði líka í dag að hægt er að hlusta á Rás 2 í gegnum netið. Skemmti mér því konunglega við þrifin að hlusta á Gest Einar tala um veðrið og góða slagara með Savanatríóinu. Mjög huggulegt, maður gleymir því bara að maður sé í útlöndum. Veit allt hvað er að gerast á Íslandi bæði hvernig veðrið er þökk sé Gesti Einari, Hverjir eru byrjaðir saman og hverjir hættir saman, þökk sé slúðurblaðasendingu Gyðu Bergs og hvað er annað að gerast á Íslandi þökk sé mbl.is og fleiri góðum síðum. Svolítið annað en fyrir íslenska stúdenta stadda erlendis hér áður fyrr þegar sendibréf að heiman nokkrum sinnum í mánuði innihéldu einu fréttirnar að heiman. Jebb, breyttir tímar, það er alveg ljóst.
Fékk annars tilbaka frá Hönnu bekkjarsystur, það sem ég bað hana að lesa yfir fyrir mig til að leiðrétta enskuna mína. Svo sem ekkert gríðarlega mikið sem þurfti að laga en eitt samt frekar fyndið. Var að tala um samskipti breska og íslenska forsætisráðaherrans í e-u þorskastríðinu og notaði orðið college (skóli) í staðinn fyrir colleague (starfsbróðir). Hafði sjálf lesið þetta yfir örugglega svona 5x án þess að sjá nokkuð athugavert við það Hermann Jónasson hafi verið að fara til Bretlands á fund við skólann sinn. Gott að geta skemmt Hönnu annars við lesturinn sem eflaust er annars ekki svo skemmtilegur.

þriðjudagur, maí 23, 2006

mmm....

Gleymdi að þakka henni Gyðu Bergs fyrir sendinguna sem barst mér í gær. Fékk heljarinnar böggul með íslensku nammi, íslensku slúðri og myndum af íslenskum fljóðum. Ekki amalegt. Takk Gyða mín :)

Fréttir frá Uppsölum

Nokkurn veginn svona lítur líf mitt út þessa dagana. Starandi á tölvuskjá, umkringd bókum, bland í poka og Aysu.
Talaði annars við Ashok í dag og skv. honum á ég alls ekki langt í land, aðeins eftir að betrumbæta hitt og þetta. Sem ég auðvitað nenni ekki en reyni þó að gera.
Fengum í dag fyrirlestur um það hvernig sækja skal um mastersgráðu í hinu sænska menntakerfi. Það er víst ekki nóg að klára alla áfanga og skrifa mastersritgerð heldur þarf maður að skrifa umsókn og skila inn alls kyns fylgiskjölum til að fá gráðuna. Merkilegt alveg hreint. Sænskurinn er víst hrifinn af skrifræðinu sínu og því skal ei hallmæla.
Fór annars á DaVinci Code í gær. Tja, ekki kannski það besta sem í boði er en ágætis afþreying. Djöfull er Tom Hanks samt óþolandi. Djöfull er amerísk kvikmyndatónlist óþolandi. Djöful er ég glöð að Tom Hanks og Amilie-stúlkan kysstust ekki eins og þau gerðu í bókinni, það hefði valdið mér ógleði. Það sem var merkilegt við þessa bíóferð að sænskurinn klappaði að lokinni sýningu. Veit ei hvort hann hefur haldið sig vera á frumsýningunni á Cannes eða bara verið svo frá sér numinn af gleði yfir að myndin var búin eða fundist hún í alvöru svona góð. Maður spyr sig!
Eftir að hafa sötrað eitt hvítvínsglas á Norrlands-nation, hjóluðum við Alec heim á leið. Akkurat þegar við höfðum stigið á bak hjólhesta okkar byrjaði að rigna, svo kom elding, svo koma þruma svo miklu, miklu, miklu meiri rigning. Þegar maður hjólar í mígandi rigningu í tæpan hálftíma verður maður blautur. Mjög. Sá þó mína fyrstu eldingu í lífinu en ekki bara flassið. Fannst þetta því allt frekar spennandi. I-podinn var þó næstum drukknaður í töskunni, en hafði það af. Guði sé lof, er orðin svo háð þessu tæki að ég get varla farið út með ruslið án þess að hafa hann með í för.

sunnudagur, maí 21, 2006

Allt er vænt sem vel er bleikt

45 bls. búnar ..... 12 dagar eftir
Jamm, þetta ætti allt að vera að koma. Mun skila fyrsta uppkasti til Ashok á morgun. Vona að hann verði ekki með of mikið vesen. Nenni ekki meira. Vil bara klára þennan fjanda.
Eins og sjá má er komið nýtt lúkk á síðuna. Skil ekkert í mér að hafa ekki valið bleika litinn góða strax í upphafi þar sem ég er ansi bleik svona almennt. Vona að breytingin fari vel í lýðinn.

Til hamingju Finnland!

Þá erum við formlega orðin lélegasta Norðurlandaþjóðin í Júróvision. Fúlt. Ég er samt glöð að Finnar unnu þetta loksins, tími til kominn eftir að hafa verið með í næstum 50 ár og hafa aldrei komist ofar en 7. sætið. Gleður mig líka óstjórnlega að Carola hafa bara verið í 5. sæti eftir að hafa verið spáð sigri. Hún fór í fýlu og fór ekki í eftirpartýið. Var búin að láta hafa eftir sér að ekkert annað en sigur kæmi til greina. Hún er geðsjúk. Gjörsamlega óþolandi karakter. Sem sé, ekki er allt gott sem er sænskt (sbr. sömuleiðis færslan um sniglana).
Ég fór líka í fýlu þegar Silvía datt út og horfði ekki á keppnina sjálfa í gær. Fórum og fengum okkur hressingu á barnum í staðinn. Svíar eru greinilega jafn spenntir fyrir þessari keppni í Íslendingar, allt var tómt og útlendingar að vinna á barnum.

laugardagur, maí 20, 2006

Ekki er allt vænt sem vel er grænt

Oj, oj, oj, oj...
Ógeðslegu grænu stóru sniglarnir með húsi og öllu eru komnir. Fékk næstum flog áðan þegar ég var að labba og var næstum búin að stíga á einn. Má ég þá heldur biðja um brúnu, litlu, húslausu, íslensku sniglana.

fimmtudagur, maí 18, 2006

Jävla Europa

Náði að ná fleirum til að glápa á Júró með okkur Keit. Angela frá Kólumbíu og Tejal frá Indlandi sem vissu ekki í hvað þær voru að láta hafa sig og svo Tobias sem var búin að gera mikið grín að mér fyrir að horfa á þetta. Kom svo á daginn að hann hafði horft á sænsku undankeppnina og bankaði spenntur upp á hjá okkur og fylgdist með, með glampa í augum. Utan-Evrópubúarnir voru afar sjokkeraðir yfir Silvíu og fannst atriðið allt saman agalegt, Svíinn og Eistinn ekki jafn. Ég og Keit erum núna báðar í fýlu yfir því hvað Evrópa er glötuð álfa sem kýs lög eins og þau frá Írlandi og Tyrklandi en ekki okkar. Lýtaaðgerðarfríkið Carola komst þó að sjálfsögðu áfram með hina klassísku sænsku formúlu og vindvél og fána. Tobias gat verið glaður. Gerði þó mitt til að koma Silvíu áfram og gaf henni atkvæði mitt. Held að eina ráðið til að við komumst einhvern tíma úr þessari undankeppni sé að flytja alla Íslendinga af landi brott meðan keppnin er haldinn svo við getum kosið okkur sjálf. Kommon, meira að segja Finnland komst áfram og við getum ekki verið lélegri í Júróvision en Finnar...

Evróvision

Þá er stóra stundin runnin upp! Júróvision í kvöld...Það eru þó ekki allir jafn spenntir og ég fyrir þessu og fólk er búið að gera grín af mér í allan dag þegar ég hef verið að reyna að fá fólk til að horfa á þennan stórviðburð með mér. Hlæja bara að mér bölvuð! Segja að það séu bara hommar sem horfi á þessa keppni. Nei, ó nei, ekki á Íslandi og að því er virðist ekki heldur í Eistlandi. Keit var sú eina sem tók vel í að horfa á þetta með mér. Eistland og Ísland eru líka bæði í undankeppninni svo við getum fylgst spenntar með. Býst nú ekki við að Silvía blessunin komist í alvöru keppnina svo maður verður að láta þessa sér að góðu verða. Eistarnir réðu til sín sænska slagersöngkonu sem hlýtur að falla í kramið hjá Evrópu. Verð ótrúlega tapsár ef Eistland kemst áfram en ekki Ísland...

miðvikudagur, maí 17, 2006

Sjarmerandi þjóðarbókhlöðubókavörðurinn í lopapeysunni

Man einhver eftir sæta bókasafnsverðinum á Þjóðarbókhlöðunni? Hann var hávaxinn og frekar slánalegur, með skollitað, lubbalegt hár, oft í lopapeysu og sérlega kurteis... Hann hef ég nokkrum sinnum talið mig sjá hér í Uppsala en talið að um missýn að ræða. Á bókasafninu í dag (sem ég b.t.w. eyddi rúmum 10 klst á í dag) sá ég kauða skýrt og greinilega. Reyndi að vekja athygli á bókinni um Ísland sem lá á borðinu mínu en hann veitti henni enga athygli þegar hann stormaði fram hjá (b.t.w. enn í lopapeysunni). Alla vega, alltaf gaman að sjá kunnugleg andlit, sérstaklega ef andlitin eru fríð!

þriðjudagur, maí 16, 2006

Tisdag

37 bls. búnar, 3 eftir
....eða hvað! Nei ekki alveg svo gott. Á í raun alveg eftir að greina (analyse) case-ið mitt (þorskastríðið) með hjálp kenninganna minna, og það er í raun mesta vinnan, alla vega þarf mest að hugsa þá, og það er ekki auðvelt get ég ykkur sagt. Svo á eftir að skrifa um rannsóknarsniðið (sem er eitthvað sem ég skil ekki alveg) og svo niðurstöður. Sem sagt á að giska á ég eftir svona 15 bls. Það er sem sé nóg eftir. Þyrfti svo að láta Ashok (indverska leiðbeinanda minn) lesa þetta yfir svo hann geti komið með athugasemdir en er ekki að nenna því. Það myndi þýða að ég þyrfti að breyta einhverju og kannski bara miklu og það er ekki spennandi tilhugsun. Vil bara skrifa þetta drasl og skila og taka því sem út úr því kemur. Metnaður minn er farinn í sumarfrí.
Er annars búin að eyða mest öllu kvöldinu í að setja inn myndir á myndasíðuna. Djöfulli helvíti er þetta hægt drasl. Eins gott að einhver nenni að skoða þetta, annars er þetta ein sú mesta tímasóun sem um getur. Svo gott fólk, skoðið!

sunnudagur, maí 14, 2006

Myndir

Hér var haldin örlítil grillveisla í gær fyrir alla íbúa Lilla Sunnersta, ekki aðeins okkur UPIS nemendur (Uppsala program of international studies). Að vanda blönduðum við lítið geði við aðra enda voru þetta mestmegnis Svíar og erum við lítið fyrir að hafa samskipti við innfædda. Tobias er undanskilinn enda frá Skáni sem er næstum því Danmörk.
En loksins hefur mér tekist að búa til myndasíðu sem er hér til hliðar og hef sett þar nokkrar myndir, aðallega frá gærkvöldinu. Það tekur langan tíma að setja inn myndir fyrir mig sem er örugglega að gera þetta vitlaust, þannig að ég mun henda inn fleirum á næstu dögum.

Afmælisbörn dagsins

Elskuleg stóra systir mín, Elma Óladóttir, er 30 ára í dag, ótrúlegt en satt. Hún er enn sem táningur í anda, sem og stundum í hegðun! Hún er byggingarverkamaður og málvísindamaður og gítarleikari og ýmislegt annað, tvímælalaust systirin með mestu hæfileikana (sorrí Dagga).
Elskulegur afi minn, Egill Jónasson, er 82 ára í dag. Held að kallinn sé einn sá góðhjartaðasti (er hægt að segja það???) í bransanum og syngur eins og engill og mikill hestamaður að auki! Vona að hann hafi það gott í Danmörku með nýjasta barna,barninu og öllum hinum.
Elskulegur forseti vor, Ólafur Ragnar Grímsson, er held ég 63 ára í dag. Við erum hinir mestu mátar eftir að ég ræddi við hann um árið á árshátíð stjórnmálafræðinema, aðallega um Alþýðubandalagið að mig minnir. Held reyndar að það hafi aðallega verið ég sem sá um að tala og hann að kinka kolli kurteisislega. Hittumst svo á nýjan leik þegar hann bauð mér (sem og nokkrum öðrum reyndar) í kokteilboð heim til sín á Bessastaði. Hann minnist mín vafalaust því í miðri ræðu fór síminn minn að hringja. Í þá daga var ég mikill aðdáandi Destiny's Child og hafði hringinguna góðu Survivor, sem ómaði glatt um salinn. Það var frekar vandræðalegt verð ég að viðurkenna. (Takk Gyða, sem átti sökina að hringja).
Afmælisbörn dagsins, innilega til hamingju með daginn.

laugardagur, maí 13, 2006

Celebrities

Var að bæta hér inn nokkrum tenglum til hliðar, vona að öllum hlutaðeigandi sé sama um að ég hafi sett þá hér inn, ef ekki þá látið bara vita. Sömuleiðis ákvað ég að setja inn nokkrar skemmtilegar síður sem hægt er að skoða þegar þið eigið t.d. að vera að skrifa ritgerð, varist þó Háskóla linkinn, hann er ekkert skemmtilegur. Það skal engan undra að mitt sérsvið í Trivial séu bleiku spurningarnar, svo virðist sem fræga fólkið sé mitt helsta áhugamál. Sem mastersnemi í alþjóðafræðum myndi maður ætla að ég lægji yfir Time og Forreign Affair og öðrum merkum ritum, en nei, fremur les ég sögur af óléttu Britney og vangaveltum um hvenær Angelina og Brad ætla að gifta sig. Ef þið vitið af mastersnámi í frægafólksfræðum látið mig þá endilega vita, það væri eitthvað sem ég yrði í alvöru góð í.

föstudagur, maí 12, 2006

Litlu/stóru strákarnir í Lilla Sunnersta

Bekkjarbræður mínir sem búa hér í Lilla Sunnersta eru frisbee-óðir! Er að fylgjst með þeim fyrir utan gluggann minn kasta sér á eftir disknum með miklum tilþrifum. Þeir hafa spilað nú á hverju kvöldi í örugglega viku. Er ekki alveg að fatta hvað þeir geta haft gaman að þessu tímunum saman en það er alla vega gaman að fylgjast með þeim, þeir eru svo hamingjusamir með fína græna frisbee-inn sinn kastandi og grípandi með mismunandi aðferðum. Hin besta skemmtun að fylgjast með á föstudagskvöldi.

fimmtudagur, maí 11, 2006

Lúxusvandamál sjónvarpsfíkils

Helvítis þrumuveður #/}"#~ (þetta eiga að vera blótmerki)
Eins og það var huggulegt meðan á því stóð þá var það minna huggulegt þegar ég var búin að poppa mér dýrindis örbylgjupopp og kveikti á sjónvarpinu til að horfa á Scrubs eftir erfiði dagsins. Þá var bara ekkert í sjónvarpinu nema snjókoma. Fékk nóg af snjó í vetur og kæri mig ekki um meira af slíku í bili. Hlýtur að vera þrumuveðrinu að kenna. Hvað er hægt að gera á kvöldin annað en að glápa á sjónvarp ef maður er forfallinn sjónvarpsfíkill? Læra? Nei, búin að fá nóg af því í dag. Skoða blogg? Búin að skoða öll sem mér dettur í hug í litlu pásunum sem ég hef tekið í dag. Þrífa? Allt enn fínt eftir þrifin fyrir nokkrum dögum, og ég verð nú að passa mig á að breytast ekki í mömmu mína og þrífa þegar ekkert er til að þrífa (sorrý múttí). Fara í labbitúr? Búin að því. Fara í heimsókn til e-s? Nenni ekki að vera social. Blogga sjálf? Tja, góð hugmynd, en dettur ekkert meira í hug til að tuða.
Sem sé, erfitt líf þegar manns traustasti vinur svíkur mann.

og þá kom rigning

26 bls búnar, 14 eftir.
Húrra!!! Það er komin rigning, m.a.s. fylgja þrumur og eldingar með. Allt í einu er orðið fremur huggulegt að sitja inni og skrifa ritgerð, drekka te og heyra rigningardropana falla og stöku þrumur í fjarska. Mun betra en að sitja sveittur við skrifborðið, blindaður af sólinni og með hugann við alla brunkuna sem maður er að missa af. Sólin má þó koma aftur fljótt en ekki þó fyrr en ég er búin með alla vega 30 bls.

miðvikudagur, maí 10, 2006

Niðurtalningin heldur áfram

Gleymdi einu!
24 bls búnar, 16 eftir = Þetta gengur hægt og bítandi, aðallega hægt þó. Sólin og góða veðrið er að gera mig latari en ég hef aldrei fyrr verið, og hef þó oft verið ansi löt.

Sérviska

Ég held að flestir sjái mig sem frekar venjulega manneskju, almennt fremur heila á geði og í andlegu jafnvægi (skv. ungfrú Gyðu Bergs alla vega). Hef þó áttað mig á ákveðinni sérvisku sem ég bý yfir. Ég virðist vera ófær um að kaupa venjulega hluti. Fattaði það áðan þegar ég var að vaska upp með nýju uppþvottahönskunum mínum, þeir eru large. Ég er með hendur í minna lagi. Þetta uppvask var ekkert sérlega auðvelt! Ástæðan fyrir að ég keypti þá er að þeir eru bleikir. Hanskarnir sem voru til í minna númeri voru gulir. Það er ekki nógu smart skiljiði! Fór þá að hugsa. Keypti mér tannkrem nýlega. Keypti túbuna sem var bleik þó hún væri helmingi dýrari en sú sem var hvít. Keypti mér kaffibrúsa til að hafa á bókasafninu, hann er fagurblár. Allir aðrir eiga silfraða sem kosta helmingi minna en minn, en nei, ég varð að eignast þann bláa. Tölvutaskan mín er rauð, átti svarta en fannst hún of boring og keypti mér nýja þó sú gamla væri í fínasta lagi. Sama um gleraugnahulstrið sem ég hef nýlega eignast. Það er með blómum, afskaplega huggulegt, hið gamla var brúnt. Brúnn er held ég leiðinlegasti liturinn í heiminum. Ég var að hugsa um að fjárfesta í stafrænni myndavél, fór á e-bay og fletti upp á bæði rauðum og bleikum. Mig langar ekki í silfraða, það er of venjulegt. Ætli við séum ekki öll örlitlir sérviskupúkar þegar uppi er staðið...

þriðjudagur, maí 09, 2006

Emilie litla


Gleymdi að minnast á það að ég eignaðist nýja frænku um helgina. Til hamingju Egill og Pernilla og að sjálfsögðu Eygló amma. Finnst ég samt asskoti gömul núna þegar bæði litli frændi og litla frænka eru komin með börn og ég engu nær því en áður þrátt fyrir háan aldur. Hlakka til að sjá afkvæmið þó það verði eitthvað að bíða.

Heja Sverige!

Þessa dagana ELSKA ég Svíþjóð! Það er búið að vera svo fullkomið veður, er meira að segja orðin brún. Fór með Vibeke (fyrrum sambýliskonu minni) að vatni á sunnudaginn sem er hér aðeins fyrir utan Uppsala og þar voru í kring svona týpísk rauð tréhús eins og eru í öllum Astrid Lindgren þáttunum, allt var svo væmið og yndislegt. Við sátum við vatnið og sóluðum okkur og í kring voru fjölskyldur að grilla, börn að leika og á vatninu var fólk að róa. Ef sumarið verður svona þá hlakka ég svo sannarlega til þess.
En auðvitað er sá galli á gjöf Njarðar að lærdómurinn situr á hakanum sem aldrei fyrr. Mig langar bara að vera úti og leika mér. Ætti að vera bannað að skrifa mastersritgerðir á vorin, hefði verið fínt að sitja inni við tölvuna þegar hér var 20 stiga frost dag eftir dag í vetur. Það verður ekki á allt kosið!
Nú er bara 1 mánuður eftir af þessu prógrammi. Það er fúlt. Mig langar ekki að kveðja þetta fólk sem ég er búin að kynnast hér, maður er búin að hanga með þessu liði síðan í september og mér finnst eins og ég sé búin að þekkja þau í mörg ár. Held samt að við höfum kannski gott af að skiljast. Erum orðin ófær um að tala um annað en fólkið í bekknum. Á laugardaginn var farið út (sem aldrei fyrr), sátum úti allt kvöldið og sötruðum öl. Bróðir Tóbíasar var í heimsókn. Þegar leið á kvöldið var hann farin að verða ansi pirraður því við fórum alltaf að tala um bekkjarfélagana. Tóbías tók upp á því að leika marga þeirra, þ.á.m. mig. Ég segi víst "vá" oftar en aðrir og æpi sömuleiðis oft upp yfir mig, t.d. þegar býfluga á leið hjá. Hafið þið tekið eftir þessu? Eftir að hafa verið bent á þetta er ég mjög meðvituð um hvort skipti sem ég er komin með V fram á varirnar, reyni nú að stoppa Áið, en sem sé hef áttað mig á því að líklega segi ég Vá oftar en annað fólk! Alla vega, þá áttuðum við okkur á því að kannski höfum við eytt of miklum tíma saman, þegar utanaðkomandi eru að farast úr leiðindum þegar þeir slást í hópinn. En okkur finnst við skemmtileg og það er fyrir öllu!

föstudagur, maí 05, 2006

og það er hálfnað

Jibbí jeij!!!!! Ég er hálfnuð..................og farin í útilegu
Góða helgi allir saman!

Sumar

Þið eruð ekki að trúa því hvað er gott veður, örugglega eins og besti sumardagur á Íslandi (alla vega í Reykjavík!) Vissu ekki að það byggju svona margir í Uppsala, alls staðar er fólk. Nú skil ég af hverju ég vildi endilega koma til Svíþjóðar, það var stundum erfitt að skilja þegar ég var að hjóla í 20 stiga frosti með frosin augnhár. Svona á lífið alltaf að vera...

Föstudagur :)

18 blaðsíður búnar, 22 eftir!
Bongóblíða og útilega plönuð í kvöld. 20 stiga hiti í gær og sól, lautarferðin vel heppnuð. Virðurlegir mastersnemar í alþjóðafræðum spiluðu frisby af miklum móð.
Búið í hringja í mig 3x síðustu daga til að bjóða mér vinnu í sumar. Greinilega auðvelt að fá vinnu í hemtjänstan hér þó maður sé útlendingur, kannski ég leggi þetta bara fyrir mig þegar ég flyt til Stokkhólms í haust. Virðist vera vinsæl í bransanum.
Best að halda áfram að skrifa eitt stykki ritgerð...

fimmtudagur, maí 04, 2006

Afmæli

Til hamingju með afmælið elsku Stína!

Smávegis taugaveiklun

16 blaðsíður búnar, 24 eftir!
Fékk létt taugaáfall áðan þegar ég var að skoða dagbókina mína og skipuleggja hvernig ég á að ná að klára ritgerðina mína í tíma. Þarf virkilega að spýta í lófana til að ná þessu. Þar sem enskan mín er ekki upp á marga fiska þarf ég að biðja einhvern af enskumælandi bekkjarfélögum mínum að fara yfir ósköpin og get varla kastað þessu í einhvern daginn áður en ég á að skila. Finnst samt frekar vandræðalegt að láta einhvern úr bekknum lesa þetta yfir, bæði vegna lélegrar ensku og lélegs innihalds. Var búin að tala við Hönnu frá Bretlandi um að gera þetta fyrir mig, finnst það einhvern veginn skárra þar sem ég þekki hana ekkert svo mikið og hún er feimin og hlédræg og myndi aldrei gera grín að mér,,,,held ég.
Annars erum við með smá lautarferð á grasflötinni hér í Lilla Sunnersta í hádeginu. Alec á afmæli og ákváðum við að taka ráðin í okkar hendur og halda honum smá veislu. Hann hatar afmæli en fær engu um ráðið, hann skal fá afmælisveislu! Það verður fínt að komast aðeins út úr herberginu mínu og út í góða veðrið. Það er loksins komið almennilegt vor!

miðvikudagur, maí 03, 2006

Raunveruleikinn tekinn við

Er búin að vera vakandi í 2 klst, búin að hugsa um það í svona 1 tíma og 45 mínútur að fara að byrja að skrifa ritgerðina. Það er erfitt að koma sér aftur í gírinn. Tók mig 2 daga að jafna mig eftir átök sunnudagsins, maður er greinilega orðinn of gamall fyrir svona lagað. Ætlaði á bókasafnið í gær, en fyrst fór ég í kaffi til Aysu. Endaði með því að við elduðum góðan mat og gláptum á video og hlógum og hlógum að öllu því sem átti sér stað á sunnudaginn. Aldrei komst ég á bókasafnið! Um kvöldið var svo Cheong búinn að biðja okkur um að halda upp á afmælið sitt með sér á einni nation. Auðvitað varð maður að fara þangað. Það er erfitt að vera þekkt sem alræmdur partýpinni, allir ætlast til að maður sé alltaf til í glens. Þetta var hins vegar stutt stopp og sá eini sem varð eitthvað kenndur var afmælisbarnið sjálft, hann var asskoti hress!
En, jæja, best að drulla sér að skrifa nokkrar línur um þorskastríðið...

þriðjudagur, maí 02, 2006

Eftir Valborg

Kl. 10. Fylgst með kappsiglingunni. Fyrsta glas af freyðivíni drukkið.
Kl. 11. Svalirnar hjá Aysu. Nokkur freyðivínsglös drukkin sem og jarðaber étin. Einstaklega staðgóður morgunverður.
Kl. 12. Ekonomikumparken. Veigar af ýmsum gerðum innbyrgðar sem og óhollt snakk úr öllum áttum. Hádegisverður sem stendur með manni langt fram á kvöld.
Kl. 15. Röðin fyrir utan Snerikes nation. Ef vel er að gáð má sjá mig og Alenu bíða spenntar eftir inngöngu. Held við höfum beðið þarna í ca. klukkustund eða svo. Ekkert að því svo sem, eignuðumst skemmtilega vini í röðinni og fengum okkur öl, hressandi í kaffitímanum. Þegar inn var komið tók við allsherjargeðveiki þar sem allir voru vopnaðir kampavínsflöskum sprautandi í allar áttir. Varla þurr þráður á manni þegar út var komið seinnipartinn. Myndatakan lá svo að mestu niðri eftir það. Ljósmyndarinn var vant við látinn eftir þetta. Kannski sem betur fer, fólk var farið að skila öllum dýrindisveigunum í klósettið þegar leið á kvöldið. Ég hélt út til miðnættis en þá læddist ég heim án þess að kveðja neinn (það er orðinn nokkurs konar hefð fyrir því að ég láti mig hverfa án þess að kveðja kóng né prest). Tók leigubíl heim, en bílstjórinn var frá Stokkhólmi og rataði ekki neitt og keyrði mig í hinn enda bæjarins. REyndi að útskýra fyrir honum hvert hann skildi fara og það endaði með að við vorum farin að rífast en ég komst þó nokkurn veginn klakklaust heim, þó hann hafi látið mig úr dálítið frá heimili mínu. Líklega búinn að fá ógeð á mér. Maður var sem sé asskoti hress.
Morgundagurinn var hins vegar ekki mjög hress, lá í bæli mínu allan daginn og það sama má segja um bekkjarfélaga mína. En þetta var hins vegar æðislegur dagur, fengum frábært veður og allir sprækir framan af degi. Þó Svíar séu ekki þekktir fyrir að sýna sínar villtu hliðar, þá er óhætt að segja að þeir hafi verið eins og hinar verstu íslensku fyllibyttur þennan dag. Nú hafa þeir aftur sett um bindið og vatnsgreitt hárið og láta eins og ekkert hafi í skorist og bíða eftir Valborg 2007 til að hleypa villidýrinu í sér aftur út!