mánudagur, apríl 03, 2006

Í nógu að snúast...

Ýmislegt í gangi þessa dagana, veit eiginlega ekkert í hvern fótinn ég á að stíga. Er búin að vera að rembast við að klára ritgerð fyrir International Negotiations kúrsinn sem ég á að skila á fimmtudaginn og á sama tíma verið að reyna að finna almennilegan kenningagrunn fyrir mastersritgerðina. Á morgun er svo svokallaður "Negotiation day" en þetta er einhvers konar samningaviðræðnahermir, þar sem allir í bekknum hafa ákveðið hlutverk í samningaviðræðum. Guatemala er viðfangsefnið, eigum sem sé að reyna að leysa deilurnar milli mismunandi hópa þar. Ég og Tobias (sænski tennisleikarasjarmörinn) erum fulltrúar ríkisstjórnarinnar. Erum búin að skrifa yfirlýsingu og reyna að undirbúa hverju við ætlum að koma fram og hvað við erum reiðubúin að gefa eftir o.s.frv. Þessi dagur á víst að taka meira og minna allan daginn, veit ekki alveg hvað við eigum að tala um allan þennan tíma, vona bara að fulltrúar Sameinuðu þjóðanna sjái um þetta og leysi deiluna. En þetta verður eflaust ágætt, allir ætla að klæða sig upp eftir því hvaða hóp þeir standa fyrir. Sem fulltrúi stjórnvalda væri líklega best að klæða sig í jakkaföt og setja á sig yfirvaraskegg þar sem ég býst við að konur hafi ekki mikið haft að segja í þessum efnum fremur en flestum öðrum. En þar sem maður er ekki orðinn það mikill plebbi bý ég ekki yfir slíkum fatakosti svo eitthvað annað verður fyrir valinu.
Fékk svo boð um viðtal vegna lærlingsstöðu sem ég sótti um hjá Utanríkisráðuneytinu. Þar sem ég hef hvorki efni né tíma til að fara til Íslands sérstaklega fyrir þetta, auk þess sem líkurnar á að ég fái djobbið eru hverfandi, hef ég fengið samþykki á símaviðtal. Gjörningurinn mun fara fram næsta mánudag! Ég hef aldrei farið í svona formlegt atvinnuviðtal þannig að ég ætla mér að reyna að fá þjálfun hjá Aysu vinkonu minni, sem er alvön slíku. Þarf að láta benda mér á hvað ég er frábær og ómissandi, erfitt að koma upp með slíkt sjálfur...
Er annars bara í nokkuð góðu stuði svona miðað við hvað ég ætti að vera að fara á taugum vegna alls þessa. Engar áhyggjur þó, þið megið vafalaust eiga von á einhverjum taugaveiklunarpóstum innan skams.
Tútilú

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Hei! Þú slærð í gegn í þessu viðtali og færð starfið. mundu bara að draga ekki úr þér, þú ert klár og getur þetta vel (annars værirðu ekki í þeirri stöðu sem þú ert í í dag). Ekki halda að aðrir umsækjendur hafi eitthvað betra fram að færa en þú :)

Gangi þér rooooosalega vel. Læt þig vita um leið og eitthvað skýrist í mínum málum :)

Kveðja
Þorgerður

Anna Þorbjörg sagði...

Takk fyrir það Þorgerður mín! Spennandi að heyra hvort þú verðir arftaki minn hér við deildina..