fimmtudagur, apríl 27, 2006

Beðið eftir Valborg

12 blaðsíður komnar, 28 eftir.
Framundan er viðburðarík helgi framundan. Á sunnudaginn er víst mesti partýdagur í Uppsala sem um getur. Svo kölluð Valborg. Þar sem ég þekki nánast bara útlendinga hér, veit ég ekki svo mikið um uppruna þessarar hátíðar sem ávalt er haldin hér síðasta daginn í apríl. Tveimur aukalestum er bætt inn yfir daginn til Uppsala frá Stokkhólmi. Höfuðborgarbúarnir sem vanalega eru ekki að ómaka sig að fara út á land eru þennan dag ekki of góðir til að skreppa í "sveitina". Hef jafnvel fengið fregnir af gömlum Uppsalastúdentum sem búa nú erlendis, sem koma sérstaklega hingað til að vera viðstaddir ósköpin.
Dagskráin fyrir þennan dag er eitthvað á þessa leið:
Kl. 10: Kappsigling niður eftir Fyrisån sem gengur gegnum bæinn. Tekið er fram að gjarnan megi blanda því að fylgjast með herlegheitunum megi kombinera (?) það með kampavínsmorgunverði. Það er sem sé hefð að byrja þennan dag á einum slíkum.
Kl. 12: Lautarferð í einum af görðunum hér í borg. Hér er sérstaklega mælt með að snæða síld og hafa með því snaps.
Kl. 15: Stúdentar hittast fyrir utan aðalbókasafnið þar sem rektor heldur stutta tölu og allir veifa sínum fínu stúdentahúfum (samskonar og "lögregluhattarnir" sem við fengum við útskrift). Strax þar á eftir hefst kampavínskapphlaup þar sem stúdentar hlaupa sem fætur toga til sinnar "nation" (einskonar stúdentafélag, 13 mismunandi og allir meðlimir að einni slíkri) og fá þar kampavín.
Kl. 21: Hist við höllina hér og vorið sungið inn. Stór efa að maður muni mæta þangað, finnst líklegt að kampavínið sé að þessum tímapunkti farið að segja til sín og fjöldasöngur sé ekki efst í huga manns.
En sem sé, nóg um að vera, og svo höfum við sjálf auðvitað reddað okkur partýpleisi milli liða. Stafrænu vinkonur mínar munu vonandi vera duglegar að taka myndir þennan dag og láta mig fá svo ég geti skellt þeim hingað inn. Þetta hljómar alla vega stórskemmtilega og eftir að hafa séð myndir frá fyrri árum er ég sannfærð um að íbúafjöldi Uppsala tífaldast þennan dag!
En þangað til gleðin tekur völdin; nokkrar blaðsíður bíða eftir að vera skrifaðar.

Engin ummæli: