þriðjudagur, apríl 25, 2006

Helgin góða



Hér má sjá nokkrar myndir af ferðinni til Helsinki. Lögðum í hann frá Uppsala klukkan 2 á laugardeginum og fórum til Stokkhólms þar sem skipið beið okkar. Annað eins skip hef ég varla séð, leit fremur út sem verslunarmiðstöð að innan en skip. Þar sem veðrið var upp á sitt besta eyddum við fyrstu klukkutímunum úti að dekki þar sem við sigldum út sænska skerjagarðinn. Held að allir hafi verið jafn ofurhamingusamir og ég, þetta var ólýsanlega gaman og allt svo fallegt og ekki var áfenginu um að kenna/þakka þar sem einungis kaffidrykkir höfðu verið innbyrgðir á þessari stundu. Þegar sólin fór að lækka héldum við í káetuna okkar, sem var mjög flott, höfðum að einhverjum ástæðum verið færðar til í betri káetu, þannig að þetta var mjög fansý. Þar drukkum við duty free rauðvín áður en við fórum á skemmtistaðina um borð. Stærsti staðurinn lítur pínu út eins og maður sér í bíómyndum frá Las Vegas, borð á pöllum/svölum umhverfis stórt svið í miðjunni. Þar var hljómsveit sem spilaði gamla slagara og svo mætti Elvis sjálfur í hvíta gallanum og tók nokkur lög. Svo var þarna fimleika og danssýning. Sem sé heljarinnar sjóv. Áhugavert var hins vegar að sjá hvað um borð voru örugglega 70% yfir 50, þannig að ekki var maður mikið í því að hitta unga, huggulega sveina. Komum svo til Helsinki um 10 leytið um morguninn. Þar var sól og blíða og löbbuðum við á kaffihús í miðbænum og fengum okkur staðgóðan morgunverð. Tókum okkur góðan tíma þar og röltum svo um borgina og fórum svo á kaffihús sem er á 12 hæð, á svölum, þannig að hægt var að sjá yfir mestalla borgina. Haldið var svo frá bryggju klukkan 5. Að þessu sinni var lítið um gamlingja um borð en þeim mun meira af unglingum. Okkur leið eins og við værum komin í grunnskóla aftur þar sem alls staðar mátti sjá ungmenni að sumbli. Ég var svo spurð um skilríki á einum barnum, afar merkilegt þar sem ég var umkringd 15 ára liði, hefði nú átt að greina einhvern mun á milli mín og þeirra. Alltaf gaman þó að vera unglegur. Áttum svo gott kvöld við dans, en hljómsveit hússins var samansett af nokkrum huggulegum piltum á réttum aldri (ekki gamalmenni og ekki börn). Einn Lüchinger bróðirinn tók svo lagið með bandinu við mikinn fögnuð. Komum svo að bryggju í Stokkhólmi næsta morgun þar sem við fengum okkur morgunmat og dúfa skeit á hausinn á Gabriel. Vá hvað það var fyndið! Yndisleg ferð í alla staði en nú er alvaran tekin við og skrif á mastersritgerð bíða mín. Jibbí
P.S. Ástæða þess að allar myndirnar sem ég set hérna inn eru alltaf af mér, er sú að Aysu og Martina sem senda mér myndir halda greinilega að ég vilji bara eiga myndir af mér, og senda þ.a.l. bara myndir til mín þar sem ég er líka á. Bara svona til að fólk haldi ekki að mér finnist ég svona sæt...

Engin ummæli: