
Þegar kemur að hryllingsmyndum er ég algjör gunga. Er reyndar algjör gunga á flestum öðrum sviðum líka en það er önnur saga. Fyrir nokkrum dögum var Exorcist í sjónvarpinu. Ég veit að þetta er svona mynd sem einhverjum finnst bara fyndin því hún er í raun svo fáránleg. Fyrir mér er hún hins vegar bara óhugnarleg. Ég varð alveg skíthrædd að horfa á þetta þó svo að allar persónurnar töluðu þýsku sem hefði átt að draga aðeins úr hryllingsáhrifunum myndi maður halda. Að horfa á þessa viðurstyggilegu andsetnu stelpu var bara of viðbjóðslegt og kóngulóarmúvið niður stigann, mamma mía! Þegar myndinni var nýlokið og kreditlistinn byrjaði að rúlla og ég enn með hjartað í buxunum, byrjaði Óli að grenja. Það var ekki nema miðnætti og hann vaknar aldrei svona snemma, yfirleitt ekki fyrr en þrjú að hann vaknar. Venjulega finnst mér Óli minn alveg það saklausasta og krúttlegasta í heimi en þegar hann byrjaði þarna á miðnætti að gefa frá sér sérkennileg hljóð og haga sér skringilega(fannst mér þá alla vega) fór ég að ímynda mér andsetningu drengsins. Það var því með dálitlum ótta sem ég lagði litla strákinn minn við brjóst mér, milli vonar og ótta að hann myndi æla á mig grænu slími eða byrja að tala tungum. Kannski óþarfi að taka það fram að ekkert slíkt gerðist og hann drakk bara og sofnaði aftur. Eftir lá ég með kjánatilfinningu að láta hryllingsmynd hafa þessi áhrif á mig fullorðna konuna.