föstudagur, apríl 09, 2010
Exorcist - ekki fyrir viðkvæma
Þegar kemur að hryllingsmyndum er ég algjör gunga. Er reyndar algjör gunga á flestum öðrum sviðum líka en það er önnur saga. Fyrir nokkrum dögum var Exorcist í sjónvarpinu. Ég veit að þetta er svona mynd sem einhverjum finnst bara fyndin því hún er í raun svo fáránleg. Fyrir mér er hún hins vegar bara óhugnarleg. Ég varð alveg skíthrædd að horfa á þetta þó svo að allar persónurnar töluðu þýsku sem hefði átt að draga aðeins úr hryllingsáhrifunum myndi maður halda. Að horfa á þessa viðurstyggilegu andsetnu stelpu var bara of viðbjóðslegt og kóngulóarmúvið niður stigann, mamma mía! Þegar myndinni var nýlokið og kreditlistinn byrjaði að rúlla og ég enn með hjartað í buxunum, byrjaði Óli að grenja. Það var ekki nema miðnætti og hann vaknar aldrei svona snemma, yfirleitt ekki fyrr en þrjú að hann vaknar. Venjulega finnst mér Óli minn alveg það saklausasta og krúttlegasta í heimi en þegar hann byrjaði þarna á miðnætti að gefa frá sér sérkennileg hljóð og haga sér skringilega(fannst mér þá alla vega) fór ég að ímynda mér andsetningu drengsins. Það var því með dálitlum ótta sem ég lagði litla strákinn minn við brjóst mér, milli vonar og ótta að hann myndi æla á mig grænu slími eða byrja að tala tungum. Kannski óþarfi að taka það fram að ekkert slíkt gerðist og hann drakk bara og sofnaði aftur. Eftir lá ég með kjánatilfinningu að láta hryllingsmynd hafa þessi áhrif á mig fullorðna konuna.
föstudagur, apríl 02, 2010
Knútur - here I come
Þó ótrúlegt megi virðast þá hef ég nú búið í næstum 2 mánuði í Berlín og hef ekki enn þá séð ísbjörninn Knút. Hver man ekki eftir Knúti litla sem er reyndar núna orðinn stór og þunglyndur. Nú mun hins vegar verða bætt úr þessu og Knútur mun verða heimsóttur eins oft og mig lystir því nú á ég árskort í dýragarðinn. Dýragarðurinn er í göngufjarlægð frá mér svo nú get ég strollað þangað inn að vild, með því einu að veifa nýja dýragarðskortinu mínu. Mætti kannski halda að ég væri 5 ára, svona með tilliti til hve spennt ég er fyrir þessu. Dýragarðurinn býður sem sé börnum innan 3ja mánaða og einu foreldri þeirra árskort á spottprís. Nú vita sem sé þeir sem hyggjast heimsækja mig hingað að þeir verða að koma með mér í garðinn svona til að nýta kortið góða.
mánudagur, mars 29, 2010
Leiðrétting
Móðir mín heldur að ég sé eitthvað þunglynd sbr. síðasta póst. Þykir mér því rétt að árétta að svo er ekki! Maður má nú samt vera smá fúll annað slagið án þess að maður sé grenjandi þunglyndur...
laugardagur, mars 27, 2010
Samviskubitspóstur
Afskaplega er maður latur hérna inni. Nú rifjast skyndilega upp fyrir mér hví ég hætti þessu. Enn einn samviskubitsfaktor í líf manns. Það sem er að valda mér samviskubiti annað en þetta blogg þessa dagana;
- Títtnefnt þýskunám, eða skortur á því. Er bara ekkert að nenna þessu. Verð líka hálfþunglynd að átta mig á því hvað ég man ekki neitt af því 4ra ára námi í þýsku sem ég stundaði á sínum tíma. Hversu grátlegt er það að geta ekki stunið upp úr sér nokkrum orðum þegar maður skrifaði heilu ritgerðirnar á þýsku hérna í denn. Ekki að segja að þær hafi verið lýtalausar en maður hafði alla vega einhverja hugmynd.
- Tiltekt. Hér er fullt af dóteríi sem þarf að fara í gegnum og sortera. Kenni reyndar Peter um mest af því en mætti nú samt lyfta alla vega litla fingri. Það sem átti upphaflega að vera barnaherbergið er nú svokallað "trash-room". Ekki getur maður skutlað barninu inn í þann ruslahaug, þá fengi ég nú fyrst samviskubit.
- Kynna mér borgina. Ég sá fyrir mér að ég myndi þeysast um borgina þvera og endilanga og uppgötva nýja staði daglega. Einhvern veginn virðist ég alltaf enda á því að labba í garðinum sem er næst okkur. Nú eða það sem verra er, labba bara beint í H&M og skoða dótið þar. Vill nefnilega svo ,,skemmtilega" til að verslunargatan er á milli íbúðinnar okkar og þessa garðs sem ég fer oft að labba í og því fer sem fer.
- Framtíðarplön. Ekki er nokkur framtíð í því að vera í fæðingarorlofi, nú nema maður ætli að drita krökkum niður með nokkurra mánaða millibili. Þó ég sitji við tölvuna meira og minna allan daginn þá hef ég mig engan veginn í það að skoða eitthvað nám sem ég gæti mögulega farið í. Hvað skal gera þegar fæðingarorlofssjóður hættir að dæla í mig peningum er því alls óráðið.
Sem sé, nóg af dóti til að láta sér líða illa yfir...
föstudagur, mars 19, 2010
feff vs. pepp
Stundum virðist svo vera að maður læri ekki af fyrri reynslu, jafn vel þó trámatísk sé. Þannig var það að á mínum Uppsalaárum að ég fór eitt sinn á veitingastað og pantaði mér pizzu með pepperóní. Ekki er hægt að gera lítið úr þeim vonbrigðum sem ég varð fyrir þegar flatbakan var lögð fyrir framan mig. Í stað yndislegrar rauðrar niðurskornar kryddpylsu, löðrandi í fitu var á pizzunni einhver dularfullur grænn ávöxtur sem ég kannaðist ekki við. Þar sem ég er sérlega kurteis stúlka sem reyni að forðast alla konflikta sagði ég ekki orð og át þessi skringilegheit án þess að segja orð. Komst svo að því síðar að þessi belgaldin á pizzunni voru svokölluð fefferóní. Það sem eftir lifði af tíma mínum í Svíaríki passaði ég mig á því að biðja alltaf um salami í stað pepperóní.
Fyrir nokkrum dögum síðan var ég í sérlega miklu stuði fyrir eitthvað feitt og gott. Ég sendi því Peter út í pizzubúð að kaupa pizzu fyrir mig, með einmitt pepperóní. Áður en hann fór velti ég því þó upp við hann hvort ég ætti að hætta mér í þýskt pepperóní, gæti verið öðruvísi en það íslenska. Þetta fannst honum ekkert athugaverð vangavelta sem er óskiljanlegt þegar að framhaldi sögunar kemur. Þegar hann kemur inn um dyrnar fara munnvatnskirtlarnir á fullt, næ mér í kók og helli í glas, tek pizzukassann og opna. Hvað blasir þá við mér nema helvítis FEFFERONI! Þvílík vonbrigði og pirringur út í Peter að hafa ekki fattað að það er ekki til neitt sérræktað íslenskt fefferóní svo hann hefði augljóslega átt að átta sig á misskilningnum þegar ég fór að tuða um sérlega gott íslenskt pepperóní. Bömmer!
laugardagur, mars 13, 2010
Misjafn smekkur
Eins og þeir sem mig þekkja vita þykir mér nammi, flögur, ís og annað gotterí sérlega ljúffengt. Þegar mig langar að gera eitthvað skemmtilegt (nú eða reyndar eitthvað leiðinlegt líka) þá er það yfirleitt það fyrsta sem kemur upp í hugann að fá mér eitthvað gott með því. Að horfa á sjónvarp er ekki kósí nema að vera að japla á einhverju góðu á meðan. Sama á við um að lesa bók, ekkert spennandi bara með bókina eina og sér.
Peter er hins vegar örlítið öðruvísi gerður. Fyrst í stað reyndi ég að fela þennan svínslega eiginleika og þóttist vera mjög pen. Hamdi mig sérlega vel og rétt nartaði í 80% súkkulaðið sem hann bauð upp á. Við erum líka sérlega ólík þegar kemur að þynnkuvenjum. Hann bauð mér upp á nýkreistan appelsínusafa og niðursneidda ávexti þegar ég átti þann vana að vakna með Doritos flögupoka við hliðina á koddanum og kók á náttborðinu.
Nú er hins vegar þannig komið að ég nenni ekki að fela mitt sanna eðli lengur. Þótti mér því afar lýsandi í gærkvöldi þegar við vorum að glápa á bíómynd að ég var með flögur og kók en hann epli og rauðvín. Kúlteveraði Þjóðverinn og svínslegi Íslendingurinn. Spurning hvaða leið afkomandinn mun svo feta.
þriðjudagur, mars 09, 2010
Heidi
Ég skal segja ykkur það, ég komst varla hingað inn til að setja niður nokkrar línur þar sem bloggerinn var bara búinn að snara sér á þýsku og ég alveg lost. Scheise!
Er annars komin með nýja lærdómstækni. Er farin að lesa þýsk slúðurblöð með orðabók við höndina. Var að lesa stórmerkilega grein (hmmm) um goðið þeirra hana Heidi Klum. Varla eiga þeir nógu sterk lýsingarorð til að lýsa þeirri konu, svo fullkomin er hún. Eigandi einhver 4 börn, stjórnandi 2 sjónvarpsþáttum auk allra sýningana og myndatakana. Spurning hversu fullkomin mamma börnunum hennar finnst hún vera þegar fram líða stundir og þau farin að kalla barnfóstruna/fóstrurnar mömmu sína. Já, þá er nú hann Óli minn heppinn. Hann á mömmu sem er heima hjá honum allan daginn, glápandi á unglingaþætti og borðandi nammi. Þar er almennilegt uppeldi á ferðinni!
mánudagur, mars 08, 2010
Mánudagskvöld
Í sjónvarpinu er auðvitað allt á þýsku. James Bond á þýsku er jafnvel enn verri en James Bond á ensku. Guð sé lof fyrir internet sjónvarp annars yrði ég að gera eitthvað gáfulegt með tíma minn, lesa eða eitthvað. Hjúkk
fimmtudagur, mars 04, 2010
Þýska fyrir mig?
Nú er ég búin að vera mánuð í Þýskalandi. Samkvæmt fögrum fyrirheitum sjálfrar mín áður en ég fór að heiman ætti ég vera farin að kunna nokkra þýsku þar sem ég ætlaði að læra eitthvað nýtt á hverjum degi. Sá fyrir mér að ég myndi setjast niður með þýskt dagblað og orðabók og skemmta mér stórvel við að lesa og fletta upp í orðabók. Hmmm, ég hef ekki enn séð þýskt dagblað. Hef séð þýskt Vogue en hef bara skoðað myndirnar.
Fljótt eftir komuna áttaði ég mig á því að ég hafði verið heldur bjartsýn. Næst var því að setja sér raunhæfara markmið. Ætlaði að kveikja á þýska barnaefninu þegar ég færi á fætur með Óla kl. 7 á morgnana. Barnaefni er nefnilega auðveldara að skilja en fullorðins efni en því fylgir ákveðinn galli; það er hundleiðinlegt! Einhver skærblá kanína hoppandi í kringum ofurglaðan þéttlaginn mann er það sem er boðið upp á hér. Lærði þó eitt nýtt orð, Kaninchen! Held það sé eina nýja orðið sem ég hef lært síðan ég kom hingað. Nú nenni ég hins vegar ekki einu sinni að reyna þessa aðferð, horfi bara á ameríska þætti af netinu í staðinn, það er miklu skemmtilegra...
mánudagur, janúar 25, 2010
Nýtt blogglíf
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)