laugardagur, september 30, 2006

Til hamingju mútta

Elsku mamma mín á fimmtugsafmæli í dag. Til hamingju mútta mín.
Mamma mín er nú stödd á Englandi í enskuskóla. Það eru ekki allar konur á hennar aldri sem hafa þor í að fara einar í skóla í útlöndum í 2 mánuði. Hún virðist skemmta sér konunglega þarna en vonum þó að hún skemmti sér ekki það vel að hún vilji ekki koma heim aftur. Heimilið mitt á Akureyri er að mér skilst að niðurnýslu komið, börnin þróttlítil af næringarskorti og ganga um nánast nakin þar sem allur þvottur er óhreinn. Hvað hefði orðið um mann ef mamma hefði ekki séð um mann eins vel og hún gerði.
Megi hún lifa alla vega 50 ár í viðbót!

föstudagur, september 29, 2006

Föstudagskvöld

Gaman þykir mér að því hvað föðursystur mínar eru öflugar í kommentum hér á síðunni. Ýmist til að ergja sig á fíflinu honum Árna Johnsen, monta sig af barnabarninu sínu eða með almennar athugasemdir. Þið standið ykkur vel systur!
Er annars á leið í háttinn. Búin að glápa á sænska Idolið sem og sænska bíómynd um hjónaskilnað og það sem því fylgir. Eðal sjónvarpsefni sem sé!
Þið partýdýrin skemmtið ykkur vonandi fallega í kvöld.
God natt

miðvikudagur, september 27, 2006

Ekki bims

Mér finnst ég þurfa að árétta það sem María frænka mín segir í síðustu athugasemd. Ég lánaði ekki VISA kortið mitt heldur fyllti sjálf út í borgunina en í tölvu Indverjans en upplýsingarnar hafa vistast sjálfkrafa. Er ekki alveg bims! Þetta launadót kemur ekki beint á ávísun, meira svona á einhvern launamiða ef vinnuveitandinn hefur ekki fundið bankareikning starfsmans í bankakerfinu. Þetta gerðist af einhverjum ástæðum núna en hefur áður komið beint inn á reikninginn. Vil nú ekki að fólk fari að álíta Svía lifa í forneskju.
Náði í bankann rétt fyrir lokun og er nú komin með peninga í hendurnar. Að sjálfsögðu lá leiðin beint í næstu H&M þar sem keypt var eitthvert óþarfa drasl. Fór svo í tónlistarbúð og verslaði mér nýja diskinn með nöfnu minni Ternheim. Já, það er gott að vera komin aftur í eðlilegt neyslumynstur þar sem maður heldur áfram að sanka að sér dóti sem maður hefur ekkert með að gera. Þökk sé kaptítalismanum þykir manni maður ekki lifa mannsæmandi lífi nema að geta keypt sér nógu helvíti mikið drasl. Þetta drasl hatast maður svo við í hvert skiptið sem flutt er en þó er haldið áfram að kaupa og kaupa.

þriðjudagur, september 26, 2006

Peninga meninga

Jibbí jei!
Var að fá útborgað eftir afar erfiðan mánuð efnahagslega vegna tölvuviðgerða, IKEA innréttinga og sem og vegna almennrar illa úthugsaðrar eyðslu.
En auðvitað gat þetta ekki verið svo gott að ég fengi peningana mína beint inn á reikninginn minn. Nei, nei, ég fékk ávísun sem þarf að leysa út í banka. Það er nú aldeilis skemmtilegt fyrir fólk sem vinnur úti í rassgati og þar að auki er ekki búið fyrr en seint og um síðir í vinnunni. Af hverju getur aldrei neitt verið einfalt?

mánudagur, september 25, 2006

Og svona rétt til að taka smá Pollíönu á þetta, þá var engin sól í dag svo ég þurfti engin sólgleraugu!

Ný byrjun

Ætti nú kannski ekki að ganga svo langt að segja að ég væri Litla Fröken Sólskin í dag, en líður alla vega aðeins betur en í gær. Hringdi í flugfyrirtækið sem bakfærði VISA dótið, fékk tölvupóst frá Indverjanum sem segist ætla að reyna að borga þetta án þess að ég þurfi að sækja peningana milli heimsálfa, spýttist heim eftir vinnu og náði að setja í vél, svo nú þarf ég ekki að vera lengur á tánum og keypti mér dýrindis pizzu í kvöldmat.
Þar sem ég stóð og reiddi fram einar 38 krónur fyrir pizzunni áðan fór ég að hugsa af hverju það eru engar svona gæðabúllur heima. Þyrfti ekki að fara að flytja inn pizzugerðarinnflytjendur til Íslands svo almúginn hafi efni á að festa kaup á flatböku annað slagið? Í staðinn fyrir að hafa alls kyns flókin og leiðinleg skilyrði fyrir því að fá landvistarleyfi, ætti það að nægja að kunna að búa til pizzu. Þá skal ég fyrst flytja heim...

sunnudagur, september 24, 2006

Alltaf batnar það...

Helgin stórkostlega heldur áfram!
Eins og í öllum sænskum fjölbýlishúsum, er hér sameiginlegt þvottahús í kjallaranum. Allir hafa sinn bókunarhnapp sem þeir koma fyrir á skema sem segir til hvenær hver og einn "á" þvottahúsið. Þar sem maður er ekki komin heim fyrr en klukkan 6 á virkum dögum er lífsins ómögulegt að þvo nema um helgar þar sem síðasti þvottahústíminn er milli klukkan 5 og 9 á kvöldin. Kvöldið í kvöld var því löngu bókað fyrir þvottastúss okkar sambýlinga.
Við fórum niður í þvottahús ca. 5-10 mínútum fyrir bókaðan tíma klukkan 5. Við settum í vélarnar og færðum bókunarhnappinn á næstu helgi. Þegar við fórum síðan niður í þvottahús rétt í þessu, til að hengja draslið upp, var búið að taka allan þvottinn út úr vélunum og setja nýjar af stað. Á þvottinn okkar var búið að líma miða þar sem okkur var bent á að við værum að þvo á bókuðum tíma grannans og ættum við að hverfa með okkar þvottadrasl úr þvottahúsinu hið snarasta. Þessi "yndæli" granni okkar hefur sem sé komið rétt eftir 5 og séð að enginn hnappur hefur verið á þessum tíma og sett sinn þar í og þannig fundist hann eiga bókaðan tímann okkar. Silvía sem er meiri bógur en ég skrifaði mikla skammar ræðu á miðann og mældist til þess að viðkomandi kæmi í persónu og ræddi við okkur um blessaðan þvottatímann. Ef granninn kemur sendi ég hana til dyra.
Nú er ég sem sé algjörlega sokkalaus þar til næstu helgi. Er búin að vera á tánum í dag, sem er svo sem í lagi þar sem er gott veður, en hvað veit maður um framhaldið. Auk þess sem ég hata tær.
Held að þessi helgi komist á topp 5 leiðinlegustu helgar í mínu lífi.

Meira fokk


Nú er ég búin að heyra frá þeirri indversku sem kom af fjöllum. Hún fór inn á Yahoo síðuna sína og sá þá að hún (eða eins og hún sagði, önnur hvor okkar!!!) hafði hakað í reit sem fór fram á það að fylla á símainneignina hennar 1x í mánuði. Það hefur sem sé verið tekinn alla vega 6000 kall sem átti ekki að vera gert. Hún kom því með þá "frábæru" uppástungu að ef ég þekkti einhvern sem ætti leið um Indland þá gæti sá hinn sami heimt þessa aura. Þannig að ef gott fólk, þið eruð á leið til Indlands þá væri það vel þegið að þið myndið sækja peningina mína.
Með þetta Noregs fokk þá verð ég að bíða til morguns með að hringja í flugfélagið. Ef ég þarf svo að hringja í VISA á Íslandi vegna þessa er ég að spá í að gera það úr vinnunni og segja að ég sé að tala við Radionaust kallinn því það skilur hvort sem er enginn neitt sem ég segi....
Ætlaði aðeins að reyna að gera mér glaðan dag þrátt fyrir allt þetta fokk og hélt af stað til Gamla Stan þar sem ég ætlaði að fara á kaffihús og lesa. Þegar ég er að labba rösklega í lestina detta sólgleraugun af mér og skoppa ofan í brautarteinana. Það er ekki hægt að fara bara niður á teinana til að ná í þau svo gleraugun mín eru týnd og tröllum gefin. Hin sólgleraugun mín eyðilögðust fyrir svona 2 vikum. Fór í svo vont skap að ég hætti við að fara í bæinn og fór í ICA, keypti mér flögur og kók og fór heim og horfði á ömurlega mynd með Jennifer Lopez og vorkenndi mér ótrúlega mikið.
Þetta er ekki góð helgi get ég ykkur sagt :(

laugardagur, september 23, 2006

Fokk

Ég hata VISA kort....
Var að fá VISA reikning upp á skrilljón en þar sá ég að Noregsflugferðin hafði verið tekin 2x út af kortinu sem og fullt af símainneign hjá Yahoo Voice. Þannig er mál með vexti að ég var svo almennileg að borga með VISA kortinu mínu í gegnum netið, inneign fyrir indversku stelpuna í bekknum, sem hún svo borgaði mér með peningum. Þetta gerði ég nokkrum sinnum sem var svo sem ekkert mál. Nú lítur hins vegar þannig út að hún hafi haldið áfram að nota kortið mitt, því ég gerði þetta í gegnum hennar tölvu og þar hafa allar upplýsingarnar geymst. Annað hvort er það hún sem er svona óprúttin eða þetta er eitthvað tölvufokköpp.
ARRRRG

Sumar í september

Oft kemur það fyrir að ég sakna Íslands skelfilega. Í dag er ekki einn af þessum dögum. Í dag er búið að vera yfir 20 stiga hiti og sól, svona eins og heitustu hásumarsdagarnir á Íslandi verða bestir. Labbaði því á hlírabol í bæinn með sólgleraugu og var haustið langt því frá að vera í huga mínum.
Annars átti sér hræðilegur atburður stað rétt fyrir utan íbúðina okkar um hádegið. Manneskja varð undir lestinni sem stoppar hérna á Thorhildsplan. Vitum svo sem ekki hvað átti sér stað en sáum alla vega þegar látinni mannveru var komið fyrir í sjúkrabíl.
Sem sé, ekki allt gott á þessum annars fína septemberdegi.
Vona að allir eigi góða helgi...

fimmtudagur, september 21, 2006

For helvede

Þá er ég næstum því búin að lifa af eina viku í vinnunni þar sem ég er ein í Danmerkurdeildinni. Sú sem vinnur með mér er í 2ja vikna sumarfríi. Verð að viðurkenna að þetta hafa verið erfiðir dagar þar sem hefur stundum mest langað til að fara að grenja. Reiðir Danir semhringja í tíma og ótíma sem spyrja hvað í helvede hafi eiginlega orðið af sjónvarpinu sem þeim var lofað fyrir 2 mánuðum, eru ekki skemmtilegir viðfangs. Danskan mín er þó öll að rifjast upp og minna og minna af sænskum orðum eru að væflast fyrir mér. Tala þó enn þá eins og fífl en þó minna fífl en áður.
Hún Inge Pedersen bjargaði þó deginum í dag með því að senda mér tölvupóst þess efnis að ég væri best, eftir að ég var búin að stússast eitthvað fyrir hana. Inge, takk fyrir það!
Agalega hlakka ég þó til að fá helgarfrí og sofa....

P.S. Gaman var að fylgjast með umræðunni frá fjölskyldumeðlimum mínum við síðustu færslu. Greinilegt að í minni ætt eru kirkjugarðamál afar mikilvæg.

P.P.S. Sigríður feilafrí Larsen er velkomin hingað í Ástarhreiðrið í Stokkhólmi hvenær sem er (sem og aðrir, þ.e. sem ég þekki)!

mánudagur, september 18, 2006

Var að horfa á sjónvarpsfréttir RUV. Heyrði þar agalegar fréttir. Framtíðarkirkjugarður Akureyrar verður í Þorpinu. Fyrr skal ég dauð liggja en enda sem Þorpari...sem líklega verður þó raunin

Noregur

Er nú komin heim eftir Osloferðina um helgina. Þórhildur og Egill sýndu mér höfðinglegar móttökur eins og þeirra var von. Við kíktum auðvitað á lífið og er hið oslóska (!) skemmtanalíf öllu minna plebbalegra en hið stokkhólmska sem er vel.
Á myndunum má sjá okkur í gær þegar við fórum á eina af eyjunum í norska skerjagarðinum og nutum veðurblíðunnar og hvíldum lúin bein eftir skemmtanalífið því við erum víst engir unglingar lengur.
Sá ýmislegt áhugavert í borginni eins og sýningu Ólafs Elíassonar og sýningu Damien Hirst. Sýning Ólafs var nú öllu auðveldari að melta heldur en hin. Sýning Damiens er af kvígu og kálf sem eru í formalíni en skrokkarnir hafa verið sagaðir í tvennt svo hægt er að skoða innyflin (kannski rétt að benda á að þau eru sko dáin!) Ég sem hélt ég þoldi allt er búin að vera að hugsa ótrúlega mikið um þetta og gat ekki einu sinni borðað pylsuna sem ég keypti á flugvellinum í gær því ég ímyndaði mér innyflin og kjötið á formalínsnautgripunum. Og ég sem þoli ekki kjötpempíur...

Heimur versnandi fer!

Þegar Svíar kjósa yfir sig hægri stjórn þá er nú fokið í flest skjól...

miðvikudagur, september 13, 2006

Heja Norge!

Fékk bréf frá Þórhildi í gær þar sem hún spurði mig hvort mig langaði ekki til Oslo um helgina. Held hún hafi nú ekki búist við því að eitthvað myndi verða úr því en ég ákvað að athuga málið. Hringdi því í 19 ára systur mína og sló lán (já, það er þröngt í búi!) og pantaði flug á föstudaginn eftir vinnu. Þetta verður ekki langt stopp þar sem ég flýg aftur "heim" til Stokkhólms á sunnudaginn. En engu að síður alltaf gaman að skella sér til Noregs. Vona bara að Þórhildur blessunin hafi í alvöru verið að meina að hún vildi fá mig...

mánudagur, september 11, 2006

11. september

Í dag eru 3 ár síðan Anna Lindh dó. Þegar ég heyrði þær fréttir í útvarpinu á sínum tíma tók ég það meira nærri mér en það sem gerðist fyrir 5 árum sama dag. Svíar eru fífl. Þeir drepa alltaf bestu ráðherrana sína.

sunnudagur, september 10, 2006

Sunnudagskvöld

Tónleikarnir í gærkvöldi í Kungsträdgården voru alveg hreint stórskemmtilegir. Sá m.a. Önnu Ternheim (sem þökk sé Kristrúnu ég komst í kynni við og er að fara á tónleika bara með henni í lok október) og sjúklega sætu strákana í Mando Diao. Held að við höfum verið aldursforsetar þar sem allt var krökkt af unglingum með litað svart hár, í þröngum gallabuxum og Converse skóm. Var búin að gleyma hvað mér þykja unglingar einstaklega leiðinlegur þjóðflokkur.
Læt svo fylgja með mynd af herberginu mínu fína. Allan húsbúnað sem sést á myndinni má nálgast í IKEA nema að sjálfsögðu hann Jobba minn sem er einstakur og ekki nein IKEA fjöldaframleiðsla og að vitaskuld ei falur.

laugardagur, september 09, 2006

Anna í Uppsölum!

Var rétt í þessu að koma frá Uppsala en ég fór þangað strax eftir vinnu í gær og fór heim til Martinu. Fórum síðan á Värmlandsnation þar sem maður fékk smá nostalgíukast yfir liðnum vetri þegar við öll vorum saman á þessum sama stað (sem kallaður er The meat market af e-m ástæðum)
Við hittum svo strák frá Slóvakíu sem Martina kannaðist við sem var ansi hress. Vinur hans frá Bandaríkjunum kom síðan seinna en Martina var búin að segja að hann væri einmitt svona mín týpa. Var því ágætlega spennt að hitta hann. Hann mætti svo á staðinn og var það fullkomlega ljóst frá fyrstu mínútu að ég var ekki hans týpa þar sem ég er tja stelpa. Alltaf gaman þegar reynt er að koma manni saman við samkynhneigða, ákveðin áskorun fólgin í því. En hann var alla vega hressasti piltur og var komin í hörku samræður við einhvern finnskan strák sem var víst meira svona hans týpa, þ.e. rétt kyntýpa.

Sem sé skemmtilegt kvöld í Uppsala og þykir mér ekki ólíklegt að slíkt verði leikið aftur eftir síðar. Þó maður búi í stórborg er ekki þar sem sagt að maður skelli sér ekki í "smábæina" til að ná sér í skemmtun.
Í kvöld er ég að fara á útitónleika í garðinum sem er hér nærri, með nokkrum sænskum tónlistarmönnum. Ókeypis og svona sem er alltaf gott.
Góða helgi allir saman

fimmtudagur, september 07, 2006

Magna-æði

Stal þessu hér fyrir neðan af Baggalút. Er ekki alveg að fatta þetta Magna-æði sem virðist hafa gripið Íslendinga. Hef aldrei séð þetta súpernóva dót og get því ekki alveg lifað mig inn í þennan æsing allan. En svo virðist sem þetta sé aðalmálið á landinu. Hef ekkert orðið vör við þetta hér, held þetta sé ekki einu sinni sýnt. Hmm, skrítið!
Mér finnst þetta samt sjúklega fyndið að fólk sé að kjósa piltinn langt fram á nætur bara af því að svo vill til að hann sé Íslendingur. Ég hélt að maður ætti að kjósa þann sem manni þætti bestur...
Þola ekki Magna
Geir og Sunna voru upptekin við að brenna ljósmyndir af Magna í ruslafötunni þegar ljósmyndari Baggalúts sótti þau heim

Eldri hjón á Akranesi hafa viðurkennt opinberlega að þau þoli ekki Magna Ásgeirsson, þeim þyki hann leiðinlegur söngvari og hann sé að þeirra mati langt frá því að vera rétti leiðtoginn fyrir hljómsveitina Supernova.

„Við viljum ekki sjá hann í þessu frábæra bandi - ekki sjá hann!“, sagði Geir Geirsson sem ásamt eiginkonu sinni Sunnu Unnarsdóttur hefur markvisst hvatt fólk á Netinu til að kjósa ekki Magna. „Hann er bara í miklu lægri klassa en Gilby og þessir strákar. Hann á að sjá sóma sinn í að snáfa heim strákurinn. Við konan sáum það strax að hann á ekkert erindi í svona vandaða hljómsveit - þessvegna höfum við alltaf kosið þarna stelpuna með stóru brjóstin. Hún er sannur listamaður.“

miðvikudagur, september 06, 2006

Meira um vinnu

Þá er ég búin að spreyta mig á nokkrum samtölum á dönsku og ó mæ hvað það er erfitt að skilja hana. Þeir bara bauna öllu út úr sér í einum graut og ég skil ekki neitt, segji bara et öjeblik og horfi síðan ráðþrota á samstarfskonu mína sem hlustar á símtölin og hún segir mér hvað ég eigi að segja eða tekur símtalið. Átti hins vegar prýðissamtal við gaurinn í Radionaust á Akureyri og þá skildi ég allt! Bara að við hefðum fleiri söluaðila á Íslandi þá væri lífið létt, ó já...
Á mánudaginn byrja svo 2 Finnar að vinna á sama stað hjá Samsung og ég. Ég hlakka til að vera ekki lengur eini útlendingurinn og sömuleiðis að vera ekki sú nýjasta og vitlausasta. Þeir fá hins vegar að tala finnsku í símann, lukkunar pamfílar.
Finnst einhvern veginn eins og fólki finnist ekki endilega skemmtilegt að lesa bara um vinnuna mína en þið verðið að sýna mér biðlund. Geri ekki mikið annað en að vinna. Kem heim um 6 leytið og glápi á sjónvarp og les og fer að sofa. Á föstudaginn er hins vegar planið að fara til Uppsala og nýta okkur í síðasta sinn stúdentaskilríkin okkar og fá ódýran öl og hitta táninga og fá nostalgíukast yfir námsárinu okkar þar.

mánudagur, september 04, 2006

Danska flanska

Nú er komið að því. Ekki verður skotist undan þessu lengur. Á morgun mun ég svara í símann í vinnunni; "Samsung, det er Anna". Jebb, og sá sem mun svara á hinni línunni mun svara á dönsku. Er að reyna að stimpla helvítis dönsku tölurnar aftur inn í hausinn á mér þar sem samtölin munu að miklu leyti fara fram í tölum. Ég sem var svo hamingjusöm að geta gleymt því rugli og notast við hið logíska sænska talnakerfi. Ekkert bévítans halvtreds og halvfems bara femtio og nittio.
Það versta finnst mér við þetta er að allir á skrifstofunni minni munu heyra mig tala... eða reyna að tala.
Læt vita hvernig gengur við tækifæri
Held og lykke til mig.... (held ég að sé skrifað svona alla vega)

sunnudagur, september 03, 2006

Síðan síðast....

Jæja! Nú er víst komin tími á smá blogg. Tölvan mín er komin aftur til lífsins svo nú er engin afsökunin fyrir að láta ekki heyra frá sér. Ekki þurfti ég að láta eftir annað nýrað fyrir viðgerðinni en þó ekki langt frá því. En svona er lífið...
Set hér inn myndir af lífi mínu síðustu vikur svona til að auðvelda skipulagið hvernig ég eigi að fara í gegnum hvað ég er búin að vera að bauka.
Fór sem sé til Gautaborgar strax eftir síðasta vinnudaginn minn í Uppsala. Egill bróðir var þá í heimsókn hjá Dagnýju en ég var búin að segja honum að ég kæmist ekki þar sem ég þyrfti að vinna. Ég og Dagný vorum svo búnar að plotta að þau myndu koma á lestarstöðina og þar yrði ég, sörpræs! Tókst ansi hreint vel og litli bróðir var hissa og glaður. Hef nú ákveðið að koma alltaf óvænt heim, ekki segja neinum, það er svo gaman að sjá viðbrögðin.
Við systkinin áttum svo góða daga í Gautaborg, fórum í tívolí, þar sem ég næstum dó, í búðir, kaffihús og héngum heima og borðuðum nammi og gerðum grín að hinum fjölskyldumeðlimunum o.s.frv.!
Fór svo beint til Stokkhólms þegar ég kom til baka og kom mér fyrir. Hjólið mitt var samt enn eftir í Uppsala þannig að ég fór síðasta sunnudag þangað og hjólaði síðan heim. Eins og sjá má á þessu skilti eru það einir 65 km. Fyrri helmingur leiðarinnar gekk eins og í sögu og tók ekki nema um 2 og hálfan tíma. Þegar ég hins vegar kom í úthverfi Stokkhólms vissi ég svo ekkert hver ég átti að fara, alls staðar hraðbrautir þar sem ekki má hjóla og hjólastígar út um allt og ekki merktir. Hjólaði því fram og tilbaka og seinni helmingurinn tók mig rúma 4 klst. Myndi giska á að í allt hafi ég hjólað um 80 km. Tour de France here I come! Held að það sé málið.
Þegar ég var einmitt villt í úthverfunum rakst ég einmitt á vinnustaðinn minn sem má sjá hér að ofan. Er nú búin að vinna í viku og líst bara vel á þetta en ótrúlega mikið að læra og mér finnst ég rugla öllu saman. Þetta snýst um svo ótrúlega stórar upphæðir að ég er skíthrædd að gera einhverja vitleysu og tapa miljónum fyrir fyrirtækið. Er búin að taka 1 símtal sem gekk skítsæmilega en mun byrja meira í því í næstu viku. Ég og ein önnur stelpa sjáum alfarið um Danmerkur markað og mun því bara tala við Dani í símanum. Er eiginlega svolítið mikið stressuð að fara að reyna að skilja þá og reyna að láta þá skilja mig og fatta hvernig í andskotanum ég geti hjálpað þeim.
Þetta er annars skemmtilegur vinnustaður, með rúmlega 100 starfsmönnum. Eiginlega allt Svíar og svo eru nokkrir Kóreu-búar/menn/fólk (hmm) sem vinna þarna líka og fylgjast með hvort við sinnum fyrirtækinu þeirra nógu vel.
Þegar ég var að kvarta yfir því að það tæki svo langan tíma að komast í vinnuna vissi ég ekki að það tæki ekki 45 mín að komast í vinnu heldur rúmlega klst! Jibbí!!!
Dagný og Elfa vinkona hennar komu til mín á fimmtudaginn og fóru núna í morgun. Fórum m.a. á tónleika með Håkan Hellström í Gröna Lund á föstudaginn og hér að ofan erum við að sigla þangað.
Notaði tækifærið þegar ég var með gesti að kaupa mér stól í herbergið mitt. Til að láta gestina bera, sjáiði til. Vakti mikla kátinu þegar ég tók stólinn með mér í neðanjarðarlestina og sat svo í honum. Mun þæglegra sæti en hin.
Held ég láti þetta gott í bili, mun nú byrja aftur að blogga oftar en 1x í viku.