þriðjudagur, apríl 17, 2007

Akureyri ER vs. Chicago ER

Þar sem Stína vinkona mín spyr mig hvort læknarnir á bráðavaktinni á FSA séu ekki jafn sætir og á Bráðavaktinni í Chicago finnst mér ekki úr vegi að bera saman þessar tvær deildir sem eru á sama sviði að nafninu til.

- Sætir læknar: Í Chicago virðast flestallir læknarnir hafa fengið gott útlit í vöggugjöf. Það sama er hins vegar ekki hægt að segja um þá á Akureyri. Ég er nú kannski ekki að segja að þeir séu eitthvað forljótir en fríðleikinn er svona ekkert meiri en hjá öðrum stéttum. Reyndar á hvíti sloppurinn það til að gæða hversdagslega útlítandi pilta betri ásjónu en slíkt getur verið villandi. Ég man t.d. eftir að hafa þótt einn unglæknirinn svaka hott þegar ég vann á Akureyri ER fyrir mörgum árum. Sá þennan sama pilt einu sinni í daglega lífinu og skammaðist mín þá fyrir að hafa fundist hann eitthvað merkilegur. Í stað hvíta sloppsins var komin marglit, síð túristaúlpa og við var hann klæddur gulrótabuxum. Læknarnir á Chicago ER eru alltaf hott hvort sem þeir eru á vakt eða í frístundum.

- Útlenskir sætir læknar: Í Chicago ER er einna mest hott læknirinn með hreim og er þá bara meira hott. Á Akureyri ER er enginn læknir frá stríðshrjáðu landi sem bræðir ung meyjarhjörtu með tælandi talanda. Einu læknarnir með hreim sem slæðast einstaka sinnum á Akureyri ER eru miðaldra sérfræðingar með indverskan hreim. Ekki alveg sömu hughrifin.

- Einkennisbúningarnir: Á FSA fá starfsmenn niðurmjóar pokabuxur rykktar í mittið og víða nátttreyju yfir. Ég og Elma lékum okkur að því í gamla daga þegar við vorum skúringakonur að fara báðar í sömu buxurnar, sem sé með báðar lappir í sömu skálm á sömu buxunum. Á Chicago ER er fatnaðurinn mun aðsniðnari og klæðilegri.

- Starfsfólkið: Á Chicago ER sér maður nánast bara lækna við störf og einstaka hjúkkur og einn mann í afgreiðslunni. Á Akureyri ER er alls kyns annað fólk að þvælast um ganginn (það er sko bara einn gangur). Þarna er skúringafólk, fullt af hjúkkum, rafvirkjar og iðnaðarmenn á vappi, móttökuritarar og læknaritarar. Læknaritarar eru ekki til á Chicago ER eða eru alla vega ósýnilegir. Hef reyndar aldrei séð slíkt fólk þvælast um í einum einasta læknaþætti og er nú af nógu að taka.

- Tilfellin: Skotsár, hnífstungur, síamstvíburar og hitabeltissjúkdómar eru daglegt brauð í Chicago. Á Akureyri ER er hins vegar meira um tognun á ökkla, ótilgreinda magaverki og flís í auga. Hér lallar starfsfólkið einnig um gangana í rólegheitum en í Chicago er enginn tími í lall, þar er hlaupið.

Niðurstaða: Vildi frekar vera á ER í Chicago, þar virðist vera meira fjör. Verst að þar er minn starfsflokkur ekki til (þið sem fylgist ekki með þá er ég læknaritari þessa dagana) og því fengi ég aldrei vinnu þar.

5 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Hmm ég horfði einmit á einn gamlan ER þátt hérna um daginn og velti því fyrir hvernig fólki dytti í hug að vinna í þessari geðveiki. það væri alla vega ekki fyrir þegar upptjúnnað fólk eins og mig!

Læknarnir mega þó eiga það að vera myndarlegir (grrrrr)

Anna Þorbjörg sagði...

Það er reyndar rétt að ég myndi nú líklega ekki höndla álagið enda fæ ég vott af taugaáfalli þegar t.d. ég hef 2 ritgerðir hangandi yfir mér á sama tíma eða þegar 2 línur hringja á sama tíma í vinnunni.
Hélt samt kannski að myndarlegu læknarnir myndu geta róað mig niður eða kannski var þetta bara illa ígrunduð yfirlýsing hjá mér. Held ég gæti t.d. aldrei hafa skrifað þetta komment ef ég væri á ER í Chicago eins og ég er að gera hér frá Akureyri city.

Nafnlaus sagði...

Ohh....ég elska þessar niðurmjóu buxur.....hahahaha!

En geturðu gert mér greiða? Nennirðu að komast að fsa netfanginu hjá henni Mörtu smörtu á slysó og senda mér á emailið mitt hafdisth@internet.is?

Stínfríður sagði...

Takk fyrir þennan skemmtilega pistil og gleðilegan sumardag fyrsta!! (Fá læknaritarar frí á slíkum degi? nú man ég bara ekki hvernig þetta er..)

Anna Þorbjörg sagði...

Gleðilegt sumar sömuleiðis. Jú, hinir ómissandi læknaritarar fá frí þennan dag sem betur fer