laugardagur, október 14, 2006

Skandall!

Það er allt að verða vitlaust í sænskri pólitík þessa dagana. Nýskipaðir ráðherrar segjandi af sér hægri vinstri og óneitanlega hlakkar í mér yfir því að hægraliðið sé að valda svona miklum usla. Já, Svíagreyin hefðu heldur átt að halda sig við sósíalistana. Get þó reyndar ekki sagt að vinstra liðið hér hafi verið nokkru betra þegar kemur að því að halda ráðherraembættum. Í Svíþjóð virðist það vera lenska að ráðherrar hafi óhreint mjöl í pokahorninu sem er blásið upp í fjölmiðlum svo ráðherrarnir hröklast frá völdum. Hér virðist ekkert vera fyrirgefið.
Á Íslandi virðist þröskuldurinn vera mun hærri fyrir ráðherrana okkar. Það væri eflaust hægt að finna óhróður (þ.e. á sænskan mælikvarða) um alla ráðherrana. Finnst t.d. einhvern veginn ólíklegt að einhver ráðherrann segði af sér vegna þess að hann hafði ekki borgað barnapíunni sinni eftir nýjasta launataxta Eflingar og viðeigandi skatta eins og eitt skandalsmálið hér snýst um.
Það sem er þó athugavert við alla þessa ráðherraskandala hér í Svíaríki, er að þeir virðast allir snúast að konum. Ætla mér að efast um að það sé vegna þess að konur séu almennt spilltari en karlar heldur er þetta vegna þess að konur virðast þurfa að vera 10x betri en karlar til að hljóta virðingu og viðurkenningu. Konurnar eru rannsakaðar út í þaula svona eins og til að finna eitthvað á rétt eins og til að finna sönnun fyrir því sem margir vilja halda; að konur eigi ekki heima í þessum karlaheimi.
En nú veit ég það alla vega, að alltaf að biðja barnapíur um skattkort og alltaf að borga afnotagjöldin af RÚV (annar skandallinn fjallar einmitt um afnotagjöld) því annars er voðinn vís!
Í þessu samhengi er svo gaman að skoða Árna Johnsen blessaðan. Veit ég vel að ekki var hann ráðherra en bara það að hann geti boðið sig fram aftur til Alþingis og fólk í alvöru vilji kjósa hann til þess er ekkert annað en fásinna í sænsku samhengi. Ísland virðist því vera draumaland spilltra stjórnmálamanna, við erum svo góð í að fyrirgefa og gleyma.

3 ummæli:

Stínfríður sagði...

Heyr heyr!! Þú hefur sko lög að mæla! Sendu þetta í íslenska fjölmiðla Anna. Ég er ekki að grínast. Fólk hérna þarf að átta sig. Hneykslast á sænskum ráðherrum og fattar ekki að þetta séu nú smámunir miðað við það sem gengur og gerist hér!

Anna Þorbjörg sagði...

Reyndar var nú kella staðin að einhverjum meiri skattsvikum og stærri í sniðum en það var grafið upp síðar. Fyrst var það bara barnfóstrumálið sem gerði alla tjúll.
En ég skal hundur heita ef enginn af ráðherrunum okkar hefur stundað skattsvik. Ætti kannski að flytja heim og leggjast í rannsóknarvinnu miðaðri að því að finna einhvern skít á liðið, gæti verið spennandi!

Anna Þorbjörg sagði...

það var sko nefnilega bloggari sem stóð fyrir að fella ráðherrann...