þriðjudagur, júní 06, 2006

Áframhaldandi lærdómur, matur og heimkoma

Hefði ekki átt að fagna sumrinu of fljótt, sé á kortunum að það er betra veður á Íslandi en hér. Svo sem engin snjókoma, en varla sólbaðsveður þó. Truflar mig reyndar ekki svo mikið þar sem ég þarf að undirbúa mig fyrir seminarið á morgun. Er að lesa ritgerðina hennar Sunu í annað skiptið. Það tekur mig svona 4 tíma að lesa yfir þetta almennilega. Athyglin er víðs fjarri. Einnig er ótrúlega erfitt að finna eitthvað til að setja út á, er að rembast við að benda á hitt og þetta sem ég veit ekkert hvort er bara bull í mér eða ekki. Held það sé erfiðara að vera gagnrýnandi heldur en að verja sitt eigið verk. Annars verður þetta ekki skemmtilegt að fara yfir allar ritgerðirnar. Þetta tekur 2 daga, og byrjum við klukkan 9 og endum 17:30 og fáum eina hádegispásu. Úff.
Tejal hin indverska eldaði inverskan mat handa öllum bekknum í gær. Bauð upp á ótal rétti og gerði næstum út af við nokkra hvolpa í bekknum vegna styrkleika matarins. Fólk var að blanda jógúrti við 50/50 til að höndla ósköpin. Mér fannst þetta fínt. Veit þó að foreldrar mínir hefðu svitnað duglega! Við vestræna fólkið beittum stálgöfflum við að skófla matnum upp í okkur en Indverjinn notaði guðsgafflana. Varð þó hugsað til þess þegar við vorum á Indlandi fyrir ári síðan. Í einni lestarferðinni fengum við matarbakka með engum áhöldum til átu og ég reyndi að pota í þetta en Sólrún var fagmanlegri svo ekki sé talað um Guðrúnu sem var eins og innfædd. Man að pempíuskapurinn vakti nokkra kátínu meðal klefafélaga okkar. Ég hef líka líklega þótt heldur ógeðfelld að nota hina "óæðri" vinstri hendi til að borða með. Hún er víst ætluð í annað.

Nánari ferðaáætlun fyrir Stínu og fleiri: Kem til Íslands þann 16. júní. Býst við að fara nánast beint til Akureyrar. Verð á Akureyri vikuna á eftir en helginni mun ég síðan eyða á ættarmóti. Á sunnudeginu 25. júní fer ég svo suður og daginn eftir árla morguns aftur til Svíþjóðar. Allt of stutt :(

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Takk fyrir það! Frábært þú verður á Akureyri allan tíman sem ég verð þar! Ég kem að kveldi 16. og fer 21. Þér er boðið í stúdentsveislu 17. skyldi ég ekki vera búin að bjóða þér. Gangi þér vel í "verjunni" á morgun (hömmhömm).