mánudagur, apríl 30, 2007

Eftir helgi

Ég man þá tíð þegar það var ekkert hallærislegra en að sjást á almannafæri með mömmu sinni eða pabba. Fólk gæti haldið að maður ætti enga vini og þyrfti þess vegna að hangsa með gamla liðinu. Sem betur fer óx maður upp úr þessu því núna á ég einmitt enga vini hér á Akureyri. Ég fór því með mömmu minni á tónleika með Leaves á laugardaginn og svo á Karólínu á eftir. Þetta var svaka stuð alveg hreint og ekki amalegt að eiga svona spræka mömmu.

Annars var þetta fyrirmyndarhelgi enda var hér yfir 20 stiga hiti og sól. Reyndi því að ná mér í brúnku og hékk úti á palli og í sundi eins og flestallir Akureyringar. Ekki slæmt að ná sér í smá lit svona áður en maður flytur í rigninguna og myrkrið í Reykjavíkurborg.

föstudagur, apríl 27, 2007

Herinn burt - 2. umferð

Sem gömlum Herstöðvarandstæðingi (nú Hernaðarandstæðingi) þykir mér afar sorglegt að Ísland hafi nú gert samning við Norðmenn um varnarmál. Ekki hef ég orðið þess vör að landið hafi verið hér allt í upplausn og innrásum síðan bandaríski herinn kvaddi landið og sé ég því ekki hvers vegna við þurfum að vera í einhvers konar hernaðarbandalagi við Norsarana. Mér þótti einmitt kjörið tækifæri fyrir Ísland að fara með fordæmi í átt að herlausum heim. Auðvitað erum við ekki það merkileg að slíkt hefði umsvifalaust þau áhrif á heiminn að allir myndu leggja niður vopn en gæti e.t.v. hafa lagt örlítið á vogarskálina í þessum efnum. Okkur Íslendingum þykir oft flott að segja að við höfum engan íslenskan her en hvað hefur slíkt mont upp á sig ef við höfum útlenskan her til að passa okkur. Svo ekki sé minnst á litla íslenska herinn sem við höfum í Afganistan undir nafni friðargæsla. Einnig er vert að hugsa um fyrir hverju er verið að vernda okkur. Hvaða árásir eru þær einu sem gerðar hafa verið á Vesturlönd síðustu áratugi? Hryðjuverk. Þessum árásum hefur heldur ekki verið beint að litlum varnarlausum þjóðum heldur að þeim sem mestan og sterkastan hafa herinn. Allar þær varnaráætlanir sem Bandaríkin höfðu upp 11. september 2001 skilaði þeim litlu þegar kom að því að verja borgarana. Það eina sem her þess lands gat gert við því sem gerðist þann dag var að fara til annarra landa og drepið fleiri.

miðvikudagur, apríl 25, 2007

Pirri pú

Í gegnum tíðina hef ég verið að átta mig betur og betur á því að fólki finnst það alltaf hafa rétt fyrir sér og það sem það gerir sjálft sé það æskilega. Yfirleitt eru það "hinir" sem haga sér eins og fífl. Mér varð sérstaklega hugsað til þessa í gær þegar ég var að synda mér til heilsubótar í Akureyrarlaug. Þar synti ég af miklum móð en þótti mér nokkuð til trafala að þar voru einhver krakkaskott sem þvældust fyrir mér og hægðu á sundi mínu, þar sem þau voru að hanga á línunni sem skiptir lauginni í brautir. Þarna höngsuðust þau og busluðu þannig að ég þurfti að taka á mig nokkurn sveig til að komast fram hjá. Þetta fyllti mig pirring og ég bölvaði krakkagreyjunum í huganum. Það er hins vegar ekki svo langt síðan að mér þótti sjálfri fátt skemmtilegra en að hanga á þessari línunni. Þó það væri bannað og sundlaugarvörðurinn skammaði mann í kallkerfinu. Sömuleiðis var eitthvað fúlt fullorðið fólk sem var að synda sem leit mann hornauga þar sem maður lék kúnstir sínar á línunni góðu. Það fyllti mig pirring sem barn hvað þetta fólk gat verið fúlt. Nú er ég orðin þetta fúla fullorðna fólk.
Sömuleiðis er það gamla fólkið í sundi sem getur líka fyllt mig pirring. Það syndir hægt og hægir því einnig á ferð minni. Ekki líður á löngu þar til ég verð síðan ein af þeim og pirrast út í þetta unga fólk sem er alltaf að hamast við að taka fram úr manni.
Sem sé ótrúlega mikill pirringur sem á sér stað. Er það kannski bara ég sem er svona pirruð eða er þetta landlægur vandi?

mánudagur, apríl 23, 2007

Alltaf fór ég suður

Þá er kominn tími til að flytja að heiman eina ferðina enn. Svo telst mér til að þetta sé í 6. skiptið sem það gerist. Alltaf virðist ég lenda aftur heima í kjallaranum hjá mömmu og pabba. Útiloka því ekki að ég muni verða komin þangað aftur áður en ég veit af.
Ég er sem sé að flytja til Reykjavíkur. Mun eyða sumrinu þar en það hef ég aldrei gert áður. Sé fyrir mér í hyllingum að hangsast á Austurvelli í sól um sumaryl. Líklegast verður þó alltaf rigning eins og svo of áður. Ég er að fara að vinna í Vesturgarði sem er þjónustumiðstöð Vesturbæjar. Mun þar þjónusta íbúa þessa bæjarhluta við hin ýmsustu mál. Þægileg innivinna, og það er allt sem ég bið um. Efa það að mastersgráða mín á alþjóðastjórnmálum muni koma mér að einhverju gagni þar en get svo sem sinnt þessu þar til ég verð utanríkisráðherra. Maður verður nú að eiga fyrir salti í grautinn.

sunnudagur, apríl 22, 2007

"Mamman" ég

Mér er ekki skemmt! 17 ára vinnufélagi systur minnar, þessarari sem er fædd '87, hélt að ég væri mamma hennar. Held ég hafi aldrei verið jafn móðguð á ævi minni. Hafði tekið mig ágætlega til í dag og fannst ég nú bara svona þokkalega útlítandi. Svo fæ ég þetta eins og blauta tusku framan í andlitið. Mamma tvítugs krakka, ég! Hefði þurft að vera 8 ára þegar ég spýtti henni út úr mér. Toppurinn sem sé ekki alveg jafn yngjandi og ég hafði talið mér trú um, held ég fari að éta þaratöflur til að helvítið vaxi sem hraðast og hverfi.

föstudagur, apríl 20, 2007

Samviskubitsdraugurinn segir til sín

Ég er með samviskubit yfir því að tala svona illa um Pravda, vil nú ekki vera að styggja lýðinn. Svo á maður ekki að vera svona neikvæður og fordómafullur á sama tíma og maður boðar umburðarlyndi og náungakærleik. Eða hvað?

fimmtudagur, apríl 19, 2007

Bæ bæ Pravda

Húrra fyrir að subbustaðurinn Pravda er brunninn til kaldra kola. Ljótt að segja þetta en ef einhver skemmtistaður þurfti að brenna var eins gott að það var viðbjóðurinn sem hýsti hvíthyskis Súpermanpartýin.
Leiðinlegra þykir mér að Kebabhúsið og annað þurfti að fylgja með, á þaðan góðar minningar af síðkvöldum. Auðvitað líka leiðinlegt að falleg, gömul hús urðu eldinum að bráð, auðvitað ekki að kenna að subbulýður kom sér fyrir í þeim.
Fannst Vilhjálmur borgarstjóri annars fyndinn í gær. Hann var þarna á slysstað íklæddur allsherjar slökkviliðsgalla. Ætli hann hafi leikið stórt hlutverk í að ráða niðurlögum eldsins, svona miðað við búnaðinn mætti ætla það.

Sumar

Gleðilegt sumar lesendur kærir.
Á Akureyri er að vanda bongóblíða þó reyndar liggji smá snjóföl yfir öllu. Sól og hiti engu að síður.
Hinum fyrsta sumardegi verður því varla eytt á ströndinni undir pálmatré (enda slíkt erfitt þar sem engin eru pálmatrén) en hef þó klæðst sumarkjól í tilefni dagsins.

miðvikudagur, apríl 18, 2007

Ælíf æska?

Var áðan spurð að því hvort ég væri ekki fædd 1987! Sem sagt kona sem veit að móðir mín á dóttur á þeim aldri. Greinilega sterkt múv að klippa á mig topp...

þriðjudagur, apríl 17, 2007

Akureyri ER vs. Chicago ER

Þar sem Stína vinkona mín spyr mig hvort læknarnir á bráðavaktinni á FSA séu ekki jafn sætir og á Bráðavaktinni í Chicago finnst mér ekki úr vegi að bera saman þessar tvær deildir sem eru á sama sviði að nafninu til.

- Sætir læknar: Í Chicago virðast flestallir læknarnir hafa fengið gott útlit í vöggugjöf. Það sama er hins vegar ekki hægt að segja um þá á Akureyri. Ég er nú kannski ekki að segja að þeir séu eitthvað forljótir en fríðleikinn er svona ekkert meiri en hjá öðrum stéttum. Reyndar á hvíti sloppurinn það til að gæða hversdagslega útlítandi pilta betri ásjónu en slíkt getur verið villandi. Ég man t.d. eftir að hafa þótt einn unglæknirinn svaka hott þegar ég vann á Akureyri ER fyrir mörgum árum. Sá þennan sama pilt einu sinni í daglega lífinu og skammaðist mín þá fyrir að hafa fundist hann eitthvað merkilegur. Í stað hvíta sloppsins var komin marglit, síð túristaúlpa og við var hann klæddur gulrótabuxum. Læknarnir á Chicago ER eru alltaf hott hvort sem þeir eru á vakt eða í frístundum.

- Útlenskir sætir læknar: Í Chicago ER er einna mest hott læknirinn með hreim og er þá bara meira hott. Á Akureyri ER er enginn læknir frá stríðshrjáðu landi sem bræðir ung meyjarhjörtu með tælandi talanda. Einu læknarnir með hreim sem slæðast einstaka sinnum á Akureyri ER eru miðaldra sérfræðingar með indverskan hreim. Ekki alveg sömu hughrifin.

- Einkennisbúningarnir: Á FSA fá starfsmenn niðurmjóar pokabuxur rykktar í mittið og víða nátttreyju yfir. Ég og Elma lékum okkur að því í gamla daga þegar við vorum skúringakonur að fara báðar í sömu buxurnar, sem sé með báðar lappir í sömu skálm á sömu buxunum. Á Chicago ER er fatnaðurinn mun aðsniðnari og klæðilegri.

- Starfsfólkið: Á Chicago ER sér maður nánast bara lækna við störf og einstaka hjúkkur og einn mann í afgreiðslunni. Á Akureyri ER er alls kyns annað fólk að þvælast um ganginn (það er sko bara einn gangur). Þarna er skúringafólk, fullt af hjúkkum, rafvirkjar og iðnaðarmenn á vappi, móttökuritarar og læknaritarar. Læknaritarar eru ekki til á Chicago ER eða eru alla vega ósýnilegir. Hef reyndar aldrei séð slíkt fólk þvælast um í einum einasta læknaþætti og er nú af nógu að taka.

- Tilfellin: Skotsár, hnífstungur, síamstvíburar og hitabeltissjúkdómar eru daglegt brauð í Chicago. Á Akureyri ER er hins vegar meira um tognun á ökkla, ótilgreinda magaverki og flís í auga. Hér lallar starfsfólkið einnig um gangana í rólegheitum en í Chicago er enginn tími í lall, þar er hlaupið.

Niðurstaða: Vildi frekar vera á ER í Chicago, þar virðist vera meira fjör. Verst að þar er minn starfsflokkur ekki til (þið sem fylgist ekki með þá er ég læknaritari þessa dagana) og því fengi ég aldrei vinnu þar.

laugardagur, apríl 14, 2007

Unglingar

Eins og svo oft áður brá ég mér í sund í dag. Þar sem Söngkeppni framhaldsskólana er haldin hér á Akureyri í kvöld kom ekki á óvart að í sundi var fullt af unglingum. Mér finnst unglingar almennt fremur skrítin þjóðfélagshópur og oftar en ekki dálítið pirrandi (sorry þið unglingar sem eruð ekki svo pirrandi). Það sem vakti áhuga minn þar sem ég flatmagaði í pottinum eftir nokkrar sundferðir og glápti á fólk hálfnakið spranga um, að unglingahóparnir voru tvenns konar (svona rétt eins og áðurnefndar fegurðarungfrúr). Annar hópurinn, sem var töluvert fjölmennari, var eins og nýkominn af Mallorka svo hörundsdökkur var hann. Stelpurnar sem tilheyrðu þessum hóp voru flestar með fullkomið meiköppið enn á sér og strákarnir háværir og sjúklegar hressir. Hinn hópurinn var jafn hvítur og hinir hefðbundnu gestir Akureyrarlaugar og öllu prúðari.
Fannst hvíta fólkið miklu meira kúl og minna pirrandi. Ætli geislarnir í ljósunum hafi þessi áhrif á liðið?

föstudagur, apríl 13, 2007

Sætar stelpur!

Sá aðeins af keppninni ungfrú Reykjavík í gærkvöldi. Gat þó ekki horft á lengi enda ætlaði aulahrollurinn mig lifandi að drepa. Á sviðinu var aðeins hægt að greina tvær týpur. Það var annars vegar klámmyndastjörnu look alike með hvítt hár og hins vegar klámmyndastjörnu look alike með dökkbrúnt hár. Ég öfunda ekki dómarana af því að þekkja stúlkugreyin í sundur. Talandi um að steypa alla í sama mótið.
Skemmtilegt fannst mér að sjá þarna í dómarasæti mann sem þekkir sko fegurðardrottningar af eigin reynslu enda potað alla vega í tvær ungfrúr Ísland. [Já, þegiði, ég veit ég er grunsamlega góð í slúðri] Þarna klipparinn þið vitið. Býst við að þegar hann hefur verið að velta fyrir sér stigagjöfinni hafi hann spurt sjálfan sig þeirrar spurningar, hvort hann væri til í að "gera" þessa eða hina. Þá sem honum þótti heppilegust til þess tarna gæfi hann svo flest stig. Svo sem ekki verri leið en hver önnur í þess háttar stigagjöf. Giska svo alveg eins á að dómararnir hafi bara valið eitthvað nafn af handahófi, enda voru þær alla vega allar nákvæmlega eins. Fyrir utan áðurnefndan hárlit, þó aðeins hafi verið tveir mismunandi.
Annars á maður ekki að vera að tala illa um svona keppnir. Það eru víst bara ljótar stelpur sem gera það sem eru svo sárar yfir því að hafa aldrei verið beðnar um að taka þátt. Það er svo sem rétt, ég hef aldrei verið beðin og verð það varla upp úr þessu. Ef mér hefði verið boðið það hefði ég sko sagt nei, en það mátti samt alveg spyrja. Hver stjórnar þessu eiginlega?

P.S. Meðfylgjandi mynd var sú fyrsta sem kom upp á google þegar ég sló inn beautyqueen. Merkilegt finnst ykkur ekki?

Vinna


Annars er það nú helst að frétta að ég er byrjuð að vinna á Slysadeildinni á FSA. Þar er víst mikill annatími um þessar mundir vegna klunnalegs skíðafólks sem er alltaf að detta og meiða sig. Húrra fyrir því, því vegna svona klaufaskapar hef ég nú fengið vinnu um einhvern tíma. Er sem sé mætt eina ferðina enn á FSA. Þar er allt við það sama og varla að sjá nýtt andlit síðan ég vann hér síðast fyrir tæpum tveimur árum. Helsta breytingin er örugglega að komin er dýrindis sódavatnsvél á ganginum.

Dk

Þá er ekki aftur snúið. Var að kaupa mér flugmiða til Danmerkur þann 12. júlí en ég er boðin í brúðkaup þann 14. Þetta verður stutt stopp enda veit ég ekkert hvar ég verð að vinna á þessum tíma og vinnuveitendur eru víst ekkert sérlega hrifnir af löngum fríum starfsmanna. Vona að þeir sem mig þekkja í Danaveldi vilji hýsa mig á þessum tíma. Fer heim aftur þann 17. júlí svo enginn þarf að hafa áhyggjur af því að sitja uppi með mig lengi.

miðvikudagur, apríl 11, 2007

Fjórði í páskum

Þá eru páskarnir liðnir eina ferðina enn. Ýmislegt var brallað og urðu þetta nokkuð afkastamiklir dagar. Svona miðað við aldur og fyrri störf alla vega.
Stína kom í bæinn og við fórum nokkrum sínum á lífið sem og á tónleika og í leikhús. Meira hvað maður er orðinn menningarlegur svona í seinni tíð.
Eins og alltaf um hátíðisdaga hitti ég marga brottflutta Akureyringa sem var auðvitað gaman. En hvað það væri gaman að búa á Akureyri ef aldrei neitt af þessu fólki hefði flutt í burtu. Finnst það ætti að fara af stað átak og smala öllum brottfluttum frá Reykjavík til fyrri byggða. Mér finnst ósanngjarnt að skemmtilega fólkið flytur allt til Reykjavíkur.

Meiri kónguló

Ojjjjjjjjjjjj!
Þegar ég ætlaði að búa um rúmið mitt einn morguninn var dauð kónguló akkurat þar sem herðablöð mín hafa hvílt. Ætli ég hafi legið á henni alla nóttina?

fimmtudagur, apríl 05, 2007

For Keit

I once promised my friend Keit from Estonia to write at least one blog in English. I know she checks this page occasionally just to look at the nice pictures I put here. She wants me to write on this page in English but I do not think that would be very popular with my other readers. However, this one is for Keit!

Now I have been living in Iceland for 2 months. My life in Sweden is getting more and more like a distant memory. Looking at the pictures from my time in Uppsala is like seeing pictures from a different person’s life. It is somehow as I was never even there.

It is extremely easy to get nostalgic about this time. All the pictures from different occasion in Uppsala where everybody were happy and having fun. It is easy to forget the anxiety that was also a part of this period. Getting panic attacks once in a while about for example the presentation I had to give about Law of the Sea (where me and Keit presented our topics at the same time) or the master thesis it self that was hanging over my head most of the time. The pictures do not show that. If you would only look at them, you would think that the Uppsala year was a constant bliss. In many ways, it was but sure it wasn’t always fun spending the day at Dag Hammarskjöld Library reading some theoretical articles.

I miss it all the same. I think it was the best year of my life and I guess it was for some of my fellow students as well. I hope we will all meet again one day.


Happy Eastern!

þriðjudagur, apríl 03, 2007

Óboðinn gestur

Eins og það er nú gott að það er komið vor í loftið eru fylgikvillar þessa margir hvimleiðir. Pöddur. Þegar ég var að fara að sofa í gær hangir risa kónguló beint yfir rúminu mínu. Fékk vott af flogi en náði að róa mig niður og sótti ryksuguna. Yfirleitt notast ég hins vegar við ýmsan skófatnað við að murka úr greyjunum lífið en þar sem kóngulóin hékk í lausu lofti hefði verið erfitt að kremja hana. Ég ryksugaði sem sé hinn óboðna gest og kom ryksugunni fyrir í nokkurri fjarlægð því ekki vildi ég að rykug kónguló myndi vekja mig upp um nóttina. Eitthvað þótti mér þó óþægilegt að fara að sofa eftir þessa "skelfilegu" lífsreynslu og náði í heimilisköttinn til að sofa hjá mér. Hún hefur einstaklega gaman af því að veiða pöddur. Kattaróbermið vildi hins vegar ekki deila með mér fletinu svo ég var skilin eftir ein og óvarin. Lifði ég þó nóttina af þó draumfarirnar hafi ekki verið ánægjulegar.

mánudagur, apríl 02, 2007

Daginn eftir

Ekki urðu nú viðbrögðin mikil yfir síðustu færslu. En þetta var nú bara aprílgabb svo það er kannski gott að það voru ekki allir að ásælast miða sem ekki eru til.
Sorrí!

sunnudagur, apríl 01, 2007

Miðar


Nú er mér vandi á höndum! Ég svaraði nokkrum laufléttum spurningum um Björk inni á síðu Rokklands á Rás 2 um daginn þar sem í verðlaun voru 2 miðar á tónleikana hennar núna 7. apríl. Ég bjóst nú ekki við að vinna þá en svo kom annað á daginn. Nafn mitt var dregið úr einhverjum potti svo nú sit ég uppi með 2 miða sem er ekki eins gleðilegt og ætla mætti. Ég festi nefnilega í gær kaup á leikhúsmiðum hérna á Akureyri þetta sama kvöld. Því ætla ég að bjóða áhugasömum að láta mig vita ef þeir vilja þessa miða á tónleikana. Ég þekki svo sem ekkert marga sem verða í Reykjavík þegar þetta verður en sem sé bara að láta vita í kommentakerfið ef áhugi er á miðunum. Ég vel svo þann sem mér þykir skemmtilegastur.