þriðjudagur, mars 27, 2007

Íþróttir

Seint verður um mig sagt að ég sé eða hafi nokkurn tíma verið íþróttastjarna. Mér finnst íþróttir almennt leiðinlegar og ömurlegra sjónvarpsefni veit ég ekki til. Má ég þá frekar biðja um sjónvarpsmarkaðinn en markaregn.
Æfði þó einu sinni handbolta í einn vetur og fannst það agalegt og kveið fyrir að fara á hverja æfingu. Vildi ekki hætta þar sem mamma og pabbi voru búin að borga fyrir allan veturinn. Reyndi því að láta lítið fyrir mér fara í horninu og óskaði þess að ekki yrði gefið á mig. Skást fannst mér þegar við fórum í vítaskotakeppni því þá var maður bara einn að skjóta á mark og gerði ekki einhvern brjálaðan ef maður klúðraði. Hópíþróttir eru djöfulegar fyrir fólk eins og mig.
Sund þótti mér einnig martröð. Var viðbjóðslega vatnshrædd fram eftir aldri og fór meira að segja í aukatíma í sundi fyrir lélega. Var alltaf með þeim hægustu í bekknum og komst þá alltaf síðust í pottinn, nema auðvitað þegar ég svindlaði á talningunni. Finnst svo sem alveg skítsæmó í sundi núna enda get ég þá farið á mínum eigin hraða (hraða snigilsins).
En svo kom það fyrir einn góðan veðurdag í bernsku að ég fór að æfa badminton sem var nú líka svona asskoti skemmtilegt. Segi nú ekki að ég hafi verið framúrskarandi en náði þó eitt sinn að næla mér í gullpening á litlu móti. Nú hefur það hins vegar runnið upp fyrir mér að varla get ég eignað sjálfri mér mikið af þessum sigri. Fékk nefnilega gullið í tvíliðaleik. Mér var komið saman við litla stelpu frá Reykjavík sem var svona líka asskoti öflug. Þessi stúlka heitir Ragna og hef ég oft upp á síðkastið rekist á nafn hennar í fjölmiðlum þar sem hún er sögð besti badmintonspilari sem Ísland hefur alið af sér. Held hún sé Evrópumeistari eða eitthvað álíka. Var sem sé ekki jafn góð og ég hélt því líklegt þykir mér nú að þessi sama stúlka hafi átt mest í sigrinum.
Ástæða þess að ég fór að hugsa um badminton og íþróttir er að í kvöld erum ég, Dagný og mamma og einn eldri borgari að fara að spila. Gaman verður að sjá hvort ég geti eitthvað eða hvort að ég sannfærist enn frekar um það að íþróttagenið hreinlega vanti í mína ágætu genaflóru.
Spennandi ekki satt?

6 ummæli:

Ally sagði...

Sæl Anna Þorbjörg, sá bloggið þitt í gegnum Jóns síðu og mér finnst það skemmtilegt;) Gæti ekki verið meira sammála orðum þínum um Smáralindsbæklinginn, en ég var búin að heita sjálfri mér að láta ekki eitt púst frá mér framar um klámið, ég varð svo brjáluð þarna um daginn, hafði ekki gott af því, hehehe.

Anna Þorbjörg sagði...

Takk fyrir það Allý. Finnst þitt blogg sko ótrúlega skemmtilegt og var einmitt mjög sammála þér um klámráðstefnumálið allt saman.
Þar sem þú býður ekki upp á komment á þinni síðu verð ég víst að nota mitt eigið bloggs til að svara þér

Nafnlaus sagði...

Hvada eldri borgari var tetta med ykkur í badminton????????
Ekkitó Holmrfrídur Svala eldri....
ég er viss um ad tú ert med góda takta,hefur tad ørugglega frá mømmu tinni.......

Anna Þorbjörg sagði...

Eldri borgarinn er ekki Svala, hún er víst hætt í sportinu. Þessi heitir Gunna og er mamma Snæbjarnar sem vinnur með pabba ef það segir þér eitthvað.
Stóðum okkur annars ágætlega við systur þó mamma hafi nú verið langbest.Sannarlega kraftur í kellu

Nafnlaus sagði...

Góður pistill.

Ég hef sjálfur aðeins fengið eitt gull á íþróttaferlinum og það var fyrir sundkeppni þar sem ég sigraði milljónir keppinauta minna sem svo skilaði mér á endanum í þennan heim :o)

Kveðja frá Jóni Ofurfyndna.

Nafnlaus sagði...

Amma Gunna alltaf í sportinu :)
Kveðja Hrönn från Malmöstad