Eins og alþjóð veit hef ég verið dugleg að heimsækja laugarnar síðan ég kom til landsins. Sem sé laugina, þessa hér til hliðar.
Hef venjulega bara synt þar virðulega nokkrar ferðir með allan þann aukabúnað sem til þarf, sundhettu og þess konar sjáiði til.
Í gær fór virðuleikinn aðeins af þessum sundferðum mínum. Tók litlu systur með í sundið og við syntum örfáar ferðir en svo fluttum við okkur yfir í rennibrautarlaugina. Upp í mér kom þá einhvers konar unggæðislegur (er það ekki einhvers konar orð?) galsi og æstist öll upp í að fara í rennibrautirnar. Sú yngri var eitthvað treg til þessa en með mínum alkunna sannfæringarkrafti tókst mér að fá hana með mér í nokkrar ferðir. Fannst ég verða 12 ára aftur þar sem ég hljóp upp tröppurnar og spýttist síðan niður brautina og nýtti mér við hið fræga trykk að hagræða sundbolnum þannig að hann snerti ekki mikið brautina, ef þið skiljið hvað ég á við!
Þegar galsinn var í hámarki fékk ég þá snilldarhugmynd að reyna að klifra upp minni rennibrautina. Þegar við vorum svo að brasast við að koma okkur upp brautina var skyndilega skrúfað fyrir vatnið. Í fyrstu hélt ég að það væri bara skrúfað fyrir þar sem klukkan var orðin margt. En svo þegar við vorum hættar að príla kom vatnið aftur á. Sundlaugarverðirnir hafa sem sé verið með augun opin og reynt að fá okkur af þessari óæskilegu hegðun með því að taka af vatnið. Það sem eftir lifði sundferðar var ég ansi lúpuleg og forðaðist að ná augnsambandi við sundlaugarverðina svo þeir tækju nú ekki upp á að skamma mig í þokkabót. Næst þegar ég fer í sund verð ég sko með sundhettuna og gleraugun allan tímann svo þau þekki mig ekki.
Minna má á það að á þessu ári verð ég 28 ára. Bara svona til að setja hlutina í samhengi.
föstudagur, mars 09, 2007
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
4 ummæli:
Já gott þetta! Taka sundferðirnar alla leið!!
Þetta var alveg afskaplega skemmtileg saga!
Það hefði nú verið mátulegt á þig ef þú hefðir barasta verið rekin upp úr!!! andsk... lætin alltaf í þér hvar sem þú kemur!!....og Dagný ekki er hún nú betri ;)
Lífið er greinilega að verða hrikalega "hættulegt" þarna á Akureyrinni haha. Ekki villast yfir á rangar brautir vinan ;)Hélt alltaf að reykjavík væri hættulegasti staðurinn en það er greinilegt að það leynist eitthvað í ferska loftinu þarna fyrir norðan !
sussu suss! Anna þó!
Skrifa ummæli