fimmtudagur, mars 29, 2007

Peningar

Var að fletta gegnum Blaðið rétt í þessu og varð næstum óglatt. Ekki var þar um að kenna rúgbrauðinu sem ég var að gúffa í mig, sem var b.t.w. afar ljúffengt, heldur úttekt á dýrustu töskum heims. Ég hafði lengi staðið í þeirri trú að dýrasta taska í heimi væri á tæpa milljón og fannst mér nóg um. Einfeldni mín kom þarna berlega í ljós. Töskurnar (þar sem ein leit út eins og keypt í Sigga Gúmm þegar sú verslun var og hét) voru hins vegar flestar á tæpar 3 milljónir og ein á rúmar 10 millur. Það var svo sem ekki mikið skrifað um hverja tösku en held þó að þetta hafi ekki verið íbúðahús í líki handtösku svo ég býst við að þetta sé venjuleg taska til að halda á og geyma í dót.
Ég skil ekki alveg hvað getur verið svona stórkostlegt við svona gripi að það er vert að eyða í þær peningum sem gætu komið á fót nokkrum skólum í fátækum löndum (athugið; ekki fræðilegar fengnar tölur).
Finnst eiginlega að fólk sem eyðir svona miklum peningum í eitthvert drasl ætti að vera svipt peningaforræði því það kann augljóslega ekki með slíka að fara.

þriðjudagur, mars 27, 2007

Íþróttir

Seint verður um mig sagt að ég sé eða hafi nokkurn tíma verið íþróttastjarna. Mér finnst íþróttir almennt leiðinlegar og ömurlegra sjónvarpsefni veit ég ekki til. Má ég þá frekar biðja um sjónvarpsmarkaðinn en markaregn.
Æfði þó einu sinni handbolta í einn vetur og fannst það agalegt og kveið fyrir að fara á hverja æfingu. Vildi ekki hætta þar sem mamma og pabbi voru búin að borga fyrir allan veturinn. Reyndi því að láta lítið fyrir mér fara í horninu og óskaði þess að ekki yrði gefið á mig. Skást fannst mér þegar við fórum í vítaskotakeppni því þá var maður bara einn að skjóta á mark og gerði ekki einhvern brjálaðan ef maður klúðraði. Hópíþróttir eru djöfulegar fyrir fólk eins og mig.
Sund þótti mér einnig martröð. Var viðbjóðslega vatnshrædd fram eftir aldri og fór meira að segja í aukatíma í sundi fyrir lélega. Var alltaf með þeim hægustu í bekknum og komst þá alltaf síðust í pottinn, nema auðvitað þegar ég svindlaði á talningunni. Finnst svo sem alveg skítsæmó í sundi núna enda get ég þá farið á mínum eigin hraða (hraða snigilsins).
En svo kom það fyrir einn góðan veðurdag í bernsku að ég fór að æfa badminton sem var nú líka svona asskoti skemmtilegt. Segi nú ekki að ég hafi verið framúrskarandi en náði þó eitt sinn að næla mér í gullpening á litlu móti. Nú hefur það hins vegar runnið upp fyrir mér að varla get ég eignað sjálfri mér mikið af þessum sigri. Fékk nefnilega gullið í tvíliðaleik. Mér var komið saman við litla stelpu frá Reykjavík sem var svona líka asskoti öflug. Þessi stúlka heitir Ragna og hef ég oft upp á síðkastið rekist á nafn hennar í fjölmiðlum þar sem hún er sögð besti badmintonspilari sem Ísland hefur alið af sér. Held hún sé Evrópumeistari eða eitthvað álíka. Var sem sé ekki jafn góð og ég hélt því líklegt þykir mér nú að þessi sama stúlka hafi átt mest í sigrinum.
Ástæða þess að ég fór að hugsa um badminton og íþróttir er að í kvöld erum ég, Dagný og mamma og einn eldri borgari að fara að spila. Gaman verður að sjá hvort ég geti eitthvað eða hvort að ég sannfærist enn frekar um það að íþróttagenið hreinlega vanti í mína ágætu genaflóru.
Spennandi ekki satt?

miðvikudagur, mars 21, 2007

Margur verður af aurum api

Við lifum í neyslu- og græðgis þjóðfélagi þar sem allir keppast um að eiga sem fínasta hluti því þá heldur fólk að það verði loksins ánægt. Í mörgum tilfellum finnst mér þessi árátta fólks aðeins sanna það enn betur hvað fólk er almennt miklir apar. Nú er enginn maður með mönnum nema að eiga alla vega 40" sjónvarp með flatskjá. Því stærra því betra. Fólk nánast froðufellir af hneikslan þegar það heyrir að ég eigi bara 14" venjulegt sjónvarp og að þegar ég segist una sátt við mitt heldur fólk eflaust að ég sé að ljúga og sé vísast öfundsjúk út í þá sem eiga sjónvarp sem nær yfir hálfan stofuvegginn.
Vegna þessa þykir mér afar einkennilegt að nú sé það nýjasta nýtt í sjónvarpsmálum, að hægt eigi að vera að horfa á sjónvarp í gemsanum sínum. Ég hef svo sem ekki mikið séð þessa 3ju kynslóðar síma með berum augum en ég held að nokkuð ljóst sé að þeir séu með minni en 14" skjá. Af hverju er þá kúl að horfa á sjónvarp á svoleiðis skjá?

þriðjudagur, mars 20, 2007

Amrískt spik sem og eigið

Eftir að hafa horft á ameríska þætti og bíómyndir frá blautu barnsbeini, sem skarta nær eingöngu mjóu og fallegu fólki, var ég nær sannfærð að sú umræða um að Bandaríkin væri feitasta þjóð í heimi, væri lygasaga. Eftir að hafa horft á nokkra þætti að hinni gæða sjónvarpsþáttaröð Trading Spouses, hef hins vegar komist að því að slíkar sögur voru á rökum reistar.

Reyndar rifjast upp fyrir mér núna ljósmynd af bandarískum mótmælendum í kennslubók um bandarísk stjórnmál. Á myndinni má sjá nokkrar vel feitar konur með mótmælaspjöld. Þegar ég leit á myndina fyrst hélt ég að þetta væru hagsmunasamtök offitusjúklinga að mótmæla hækkun á McDonalds eða eitthvað slíkt en við nánari athugun kom í ljós að um venjulega Kana var að ræða sem voru að mótmæla einhverju sem var mótmælavert.

Ég ætti þó kannski ekki að vera að sitja út á fitu þar sem yfirlýst megrun mín er farin út í vitleysu og ég stefni hraðbyr að gastric bypass á þrítugsafmælisdaginn

Casa Fiesta

Við systur ákváðum að sjá um eldamennskuna í gær sem gerist ekki svo oft á þessu heimili. Reiddum við fram dýrindis mexikóska máltíð og skreittum lögðum svo á borð að mexikóskum stíl. Þ.e. svona eins og okkar borðbúnaður býður upp á. Veit þó eigi hvort Mexikóar myndu viðurkenna að bleiku gerviblómin sem við skreittum borðið stolltar með, hefðu eitthvað með land þeirra að gera en hvað um það. Við vorum stolltar og mamma varð glöð og þá er nú tilgangnum náð ekki satt?

föstudagur, mars 16, 2007

Helgarpóstur

Bara svona rétt að kasta kveðju. Svo sem ekkert mikið sem ég vil segja, ekkert sem mig langar til að setja hérna svona þar sem allir geta séð. Ekki þó halda að ég leyni á spennandi leyndarmálum, því miður er ekki svo.

Langar aðeins að kommenta á þetta fræga Smáralindarbæklingsbrálæði. Viðurkenni fúslega að þessi aumingjans kona sem skrifaði að stúlkan minnti sig á klámstjörnu var ansi ósmekkleg í orðavali sínu en mér finnst þó eitthvað sannleikskorn í orðum hennar. Hefði þessi mynd verið í bæklingi fyrir 20 árum, jafnvel 10 árum? Nei, svo tel ég ekki líklegt. Ég tel að þetta þætti ekki viðeigandi fermingarauglýsing, svona Lólítustíll í hámarki. Við erum orðin svo gjörsamlega blind á það sem er smekklegt og það sem er hreinlega klám (vona að enginn fari að leggja mig í einelti fyrir að nota svona orðalag). Umburðaryndislyndisþröskuldur okkar er orðinn svo lágur að við erum t.d. löngu hætt að kippa okkur upp við að sjá gellur hálfberar nugga sér upp við hina ýmsustu karlmenn í tónlistamyndböndum, unglingum sem klæða sig eins og vændiskonur eða myndum í auglýsingabæklingum sem vísa beint eða óbeint í klámmyndir. Blindnin er að mér finnst orðin algjör og þar sem allir eiga að vera svo frjálsir og boð og bönn eru mannréttindabrot verða þeir sem voga sér að benda á að eitthvað sé að, fyrir þeim nornaveiðum sem mér finnst hafa farið af stað í þessu máli.
Ef hverju má ekki virða tjáningarfrelsi þeirra sem gagnrýna ríkjandi þankagang líkt og þeirra sem vilja hafa fullkomið frelsa til að markaðsetja kynþokka unga stúlkna (og svo sem drengja líka).
Vona að orð mín munu ekki lenda á síðum allra blaða og bloggsíðna þar sem ég verð kölluð forpokuð afturhaldstútta. Kemur í ljós. Þá fæ ég alla vega mínar 15 mínútur frægðar sem allir virðast þrá.

Langar svo aðeins að beina orðum mínum til 2ja lesenda bloggsins:

Sigga Larsen: Veit ekki hvenær ég kem nákvæmlega til DK en brúðkaupið er 14. júlí svo verð eitthvað í kringum það. Veit ekki hve lengi eða neitt slíkt, erfitt að skipuleggja þar sem ég veit ekkert hvað ég verð að gera. Mun að sjálfsögðu líta á littla sæta húsið ykkar í Óðinsvé, ef mér er boðið.

Þorgerður: Geturu gefið mér slóðina á bloggið þitt aftur, er búin að týna.

Góða helgi!

miðvikudagur, mars 14, 2007

Siðapistill

Margt ljótt gerist í heiminum. Það veit maður vel. En oftast nær er maður ekkert að velta því of mikið fyrir sér því það er óþægilegt og setur manni of miklar skorður.
Svo gerist það annað slagið að maður er hraktur úr þessu þæginda fáfræði greni sínu. Þetta vita þeir sem horfðu á dönsku heimildamyndina á Rúv í gærkvöldi; Tilboð sem drepa, held ég að hún hafi heitið. Hún fjallaði um hvernig við Vesturlandabúar, sem alltaf viljum fá sem mest fyrir sem minnst, ýtum undir hræðilegar aðstæður verkafólks í 3ja heiminum með því að kaupa vörur sem við öll vitum að eru framleiddar við vondar aðstæður. Enginn getur sagst ekki vita að það sé ekki eitthvað dularfullt við það að geta keypt eitthvert kertastjakarusl í Rúmfó á 99kr. Það að þykjast ekki vita er engin afsökun. Þú veist en hefur kosið að þykjast ekki vita.
Samfélag okkar er að kafna í rusli. Allir eiga mikið meira en þeir þurfa. Allir henda dóti sem ekkert er að af því það á svo mikið af því. Ég líka. Við erum að sanka að okkur dóti af því að það er svo sjúklega ódýrt en hvað höfum við að gera með allar þessar heimskulegu styttur og það að eiga 10 sett af rúmfötum eða handklæði fyrir hvern einasta dag mánaðarins.
Ég skil alveg að fólk vilji kaupa ódýrt. En einmitt vegna þess að allt er svo ódýrt kaupum við bara margfalt meira. Svo ég fari nú ekki að tala um hvað þetta dót veitir okkur enga ánægju af því við eigum hvort eð er svo mikið.
Það sem ég sé sem svo einfalda lausn, en ég veit að er samt svo erfið, er að neitendur fari að gera kröfu á að vörurnar sem það kaupir séu framleiddar við mannsæmandi aðstæður. Auðvitað yrði draslið dýrara en er það ekki bara allt í lagi. Ég þyrfti þá kannski bara að safna mér fyrir t.d. brauðrist í stað þess að rjúka út í búð samstundis sem mér dettur í hug að það gæti verið sniðugt að kaupa mér svoleiðis.

Ég ætla alla vega að reyna að bæta mig

föstudagur, mars 09, 2007

Sundferð

Eins og alþjóð veit hef ég verið dugleg að heimsækja laugarnar síðan ég kom til landsins. Sem sé laugina, þessa hér til hliðar.
Hef venjulega bara synt þar virðulega nokkrar ferðir með allan þann aukabúnað sem til þarf, sundhettu og þess konar sjáiði til.
Í gær fór virðuleikinn aðeins af þessum sundferðum mínum. Tók litlu systur með í sundið og við syntum örfáar ferðir en svo fluttum við okkur yfir í rennibrautarlaugina. Upp í mér kom þá einhvers konar unggæðislegur (er það ekki einhvers konar orð?) galsi og æstist öll upp í að fara í rennibrautirnar. Sú yngri var eitthvað treg til þessa en með mínum alkunna sannfæringarkrafti tókst mér að fá hana með mér í nokkrar ferðir. Fannst ég verða 12 ára aftur þar sem ég hljóp upp tröppurnar og spýttist síðan niður brautina og nýtti mér við hið fræga trykk að hagræða sundbolnum þannig að hann snerti ekki mikið brautina, ef þið skiljið hvað ég á við!
Þegar galsinn var í hámarki fékk ég þá snilldarhugmynd að reyna að klifra upp minni rennibrautina. Þegar við vorum svo að brasast við að koma okkur upp brautina var skyndilega skrúfað fyrir vatnið. Í fyrstu hélt ég að það væri bara skrúfað fyrir þar sem klukkan var orðin margt. En svo þegar við vorum hættar að príla kom vatnið aftur á. Sundlaugarverðirnir hafa sem sé verið með augun opin og reynt að fá okkur af þessari óæskilegu hegðun með því að taka af vatnið. Það sem eftir lifði sundferðar var ég ansi lúpuleg og forðaðist að ná augnsambandi við sundlaugarverðina svo þeir tækju nú ekki upp á að skamma mig í þokkabót. Næst þegar ég fer í sund verð ég sko með sundhettuna og gleraugun allan tímann svo þau þekki mig ekki.
Minna má á það að á þessu ári verð ég 28 ára. Bara svona til að setja hlutina í samhengi.

fimmtudagur, mars 08, 2007

Alþjóðlegur baráttudagur kvenna

Til hamingju konur með daginn!
Ekki jafn mikið til hamingju með;
- Lægri laun
- Lágt hlutfall kvenna á þingi, sveitastjórnum og stjórnunarstöðum
- Að geta ekki labbað einar heim af djamminu án þess að vera hræddar
- Að vera kallaðar gribbur, frekjur, breddur, brussur og öðrum álíka misskemmtilegum nöfnum þegar þið standið fast á ykkar
- Að kynsystur ykkar eru neyddar og seldar í kynlífsþrældóm
- Að haldið sé að ykkur stöðugu samviskubiti að vanrækja börn og heimili ef þið eruð framakonur
- Að þurfa að raka á ykkur hvert stingandi strá á líkamanum fyrir utan á hausnum því annars þykið þið subbulegar rauðsokkur
- Að íþróttir kvenna komast varla í fjölmiðla og ef þær gera það er flissað yfir hvað þið eru brussulegar
- Að þið eru almennt ekki teknar alvarlega
- Að stöðug krafa er á að þið séuð sætar og prúðar því ef þið eruð það ekki er stöðugt rætt um það og ritað
- Að eiga nokkuð á hættu að verða barðar heima hjá ykkur
- Að átta ykkur ekki á því að jafnrétti er langt frá því náð

þriðjudagur, mars 06, 2007

Söfnun

Fékk þetta bréf frá ofurkonunni Sólrúnu vinkonu minni. Lesið endilega í gegnum þetta og látið fé af hendi rakna í gott málefni. Getið t.d. notað bensínpeninga eins mánaðar sem þið getið sparað með því að labba eða taka strætó. Bara svona til að nefna dæmi!

Kæru vinir
Okkur langar til að segja ykkur frá vini okkar honum Ali Jawara. Við kynntumst honum í Gambíu 2005. Þá hafði hann nýlega misst eldri bróður sinn í bílslysi, þegar þeir voru á vegum Rauða Krossins að fara að taka á móti flóttafólki. Ali var samt enn mjög lífsglaður ungur maður þegar við kynntumst honum og fjölskyldu hans. Þá var pabbi hans orðin alvarlega veikur af sjúkdómi sem auðvelt er að meðhöndla hér á Íslandi, en mjög erfitt í Gambíu og hann lést stuttu eftir að við fórum frá Gambíu. Nú hefur Ali og fjölskyldan hans misst báðar fyrirvinnur heimilisins.

Í Gambíu býr stórfjölskyldan iðulega saman. Ali býr með móður sinni, systur og manninum hennar og fjórum börnum. Hann er 21 árs og reynir hvað hann getur að verða sér út um vinnu til að brauðfæða fjölskylduna sína. En atvinnutækifærin í Gambíu eru afar fá og hann hefur einungis getað fengið tímabundin verkefni. Fjölskyldan hefur neyðst til að flytja, vera án rafmagns og að komast af með eina máltíð á dag undanfarið. Þann mat hafa þau getað keypt fyrir lán og þann pening sem mágur Ali hefur getað fengið hjá sinni fjölskyldu.

Nú er hljómurinn í rödd Alis allt annar. Hann er beygður og vonlítill um að geta hjálpað fjölskyldunni sinni. Móðir hans er niðurbrotin og börnin oft svöng. Það er þess vegna sem Við skrifum þetta bréf. Við erum að reyna að safna pening svo að Ali og fjölskyldan hans geti stofnað rekstur. Von okkar er að okkur takist að safna fyrir bíl svo að Ali og fjölskylda geti orðið leigubílstjórar.

Með ykkar hjálp getum við sent honum smá pening til þess að koma af stað þessum rekstri, kaupa þarf bíl, tryggingar og greiða bensín í einhvern tíma.

Við erum nokkuð vissar um að þetta eigi eftir að nýtast honum, þar sem mikil þörf er á farartækjum milli Brikama þar sem Ali býr og síðan höfuðborgarinnar Banjul, sem er svona um 30 km á slæmum vegum. Þetta er helsti ferðamáti fólks, svokallaðir Shappar, þetta eru bílar sem taka um 8 manns í sæti og keyra fram og til baka svo lengi sem er eftirspurn. Ef okkur tekst að leggja út fyrir þessu verður fjölskyldan hans Ali sjálfstæð á ný og þarf ekki að vera upp á aðra komin. Þau munu hafa sjálfstæðan rekstur og vonandi þegar jafnvægi er komið á reksturinn getur Ali hafið nám en það er hans helsti draumur að nema Information Technology.


Ef þið hafið áhuga á því að leggja Ali og fjölskyldu hans lið þá er söfnunarreikningurinn:

1145-05-443827.

Kt: 300179-3049

Með kærri kveðju

Sólrún María Ólafsdóttir og Þóra Kristín Ásgeirsdóttir

Fólk er fífl

Mikið hefur verið rætt og ritað um hið ógnvænlega svifrik sem nú svífur um bæ og byggð. Fólk talar um hve agalegt ástand þetta sé nú og eitthvað verði að gera.
Þetta sama fólk heldur áfram að keyra til vinnu, keyra í búðina, keyra í ræktina, keyra með börnin á hinar ýmsustu æfingar og stundum bara að keyra til að keyra.
Sumir segjast hvort eð er ekki vera á nagladekkjum og finnst þeir þá vera að fría sig allri ábyrgð. Heldur fólk í alvöru að mengun að völdum bíla sé bara nagladekkjum að kenna? Mér finnst fólk stundum ekki með fulla fimm.
Hættið bara að keyra svona mikið og hreyfið á ykkur rassgatið og jafnvel brjótið odd af oflæti ykkar og takið strætó.

sunnudagur, mars 04, 2007

Sunnudagur

Mínu heilbrigða líferni er hvergi nærri lokið. Dagurinn byrjaði með göngutúr í Kjarnaskógi í sólinni og síðan tók við sundferð og nú sit ég á Karólínu með kaffi. Það er af sem áður var þegar helgar voru teknar í djamm og djús. Kann nú betur við þetta líf, svona alla vega enn sem komið er.
Heyrði á tal nokkurra unglinga í sundi þar sem þau voru að ræða hvað þau hefðu verið ógeðslega full og flippuð í gærkvöldi. Vona að ég hafi aldrei verið svona hallærisleg en hef það samt örugglega. Einn gaurinn var svona að rifja upp hverjar hann hefði nú verið að kyssa og hvar hann hafði eiginlega endað kvöldið. Úffúffpúff. Bara vandræðalegt að hlusta á þetta. Kannski ég sé bara orðin forpokuð kelling.

laugardagur, mars 03, 2007

Skíðagarpar

Við systur gerðumst svo heilbrigðar að leigja okkur gönguskíði og fara út í Kjarnaskóg á föstudagskvöldi og skíða þar um svæðið. Dagný var öllu hugaðari í brekkunum og lét sig góssa niður þær á fullri ferð á meðan ég var varkár og fór hægar yfir. Hér að ofan má sjá hvernig fer fyrir þeim sem rennur of mikið kapp í kinn. Að neðan má sjá mig yfirvegaða og rólega og einbeita mér að þeirri tækni sem til þarf til að gönguskíða í stað þess að hlunkast niður brekkur eins og bavíani.
Ansi er þetta annars hressilegt sport og ekki verra að hafa slíka aðstöðu eins og úti í Kjarnaskógi með norðurljósin yfir sér. Ef ég hefði ekki fyllst þjóðernisrembingi yfir þessu ætti ég nú bara að flytja aftur til útlanda.

fimmtudagur, mars 01, 2007

Snjór, snjór, snjór og aftur snjór

Úti er alltaf að snjóa eins og segir í kvæðinu. Hér á Akueyri er heldur jólalegt um að litast þessa dagana. Huggulegt segi ég, agalegt segja foreldrarnir. Skil ekki hvað allir eru svona mikið á móti snjó. Hann gerir allt svo fallegt og dregur úr dimmu og þunglyndi.
Eitt þó sem er ansi hvimleiður fylgikvilli snjós. Blautir fætur. Allir mínir skór sem ekki eru hælaskór, eru að syngja sitt síðasta og geng ég því um í strigaskóm í snjónum. Fór í smá skóleiðangur áðan og mátaði þar stígvél sem voru svo asskoti lekker á mynd í dagskránni en þegar ég sá þau berum augum lá mér við uppköstum.
Svo sem ágætt þó að ég er ekkert að eyða peningum í slíka munaðarvöru sem skór eru svona á þessum síðustu og verstu tímum atvinnuleysisins. Þarf hvort eð er ekkert út úr húsi og hver þarf þá aðra skó en inniskó og af þeim á ég nóg.

Spurt og svarað

Held ég byrji á því að svara þeim spurningum sem komu fram í athugasemdunum frá síðustu færslu.

-María Larsen
* Hef keyrt kallinn nokkrum sinnum upp í hús og klappað gripunum. Er svo mikil skræfa að ég þori ekkert á bak, og svo er Skolur heldur ekkert til taks, sem er það eina sem ég myndi mögulega þora að hætta mér á.
* Dís vinkona mín er að fara að giftast sínum danska manni. Hún hefur greinilega ekki hlustað á ráðleggingar þínar sem þú eitt sinn gafst mér; aldrei að giftast útlendingi!
* Skrifa í blöð, tja, veit ei hvað ég ætti að hafa merkilegt að segja. Þakka þó hólið.

-Kristrún (sem greinilega hundsar einnig ráðleggingar frænku minnar um að leggja lag sitt við erlenda menn)
* Enn allt óljóst hvernig Danmerkur ferðin fer fram. Er jafnvel að gæla við að fara á Hróarskeldu sem er helgi fyrir brúðkaupið en veit svo sem ekki hvort það er raunhæft sökum atvinnuleysis.

-Lóló og Sólrún (sem báðar eruð í þeim erlendu einnig, hvers lags vini á maður eiginlega???)
* Takk fyrir skemmtileg komment, gaman að heyra hvað þið gerið um helgar í útlöndunum.