laugardagur, desember 02, 2006

Sofo

Þó ég sé búin að búa hér í Stokkhólmi í rúma 3 mánuði finnst mér ég samt þekkja borgina afar takmarkað. Ákvað því í dag að fara á nýjar slóðir. Tók lestina til Södermalm og rölti um hið svokallaða Sofo hverfi. Ó, hvað það væri gaman að eiga fullt fullt af peningum og kaupa allt það fallega dóterí sem ég fann þar. Skil ekkert í mér að hafa ekki farið þarna áður. Fann t.d. dásamlega second hand búð með svo mikið að kjólum að ég átti erfitt með að missa mig ekki í kaupæði. Náði einhvern veginn að hemja mig og keypti bara einn kjól. Svo er í þessu sama hverfi mun huggulegri kaffihús en annars staðar í Stokkhólmi. Langar að flytja þangað og fara á kaffihús á hverjum degi. Södermalm er greinilega staðurinn til að búa til að vera kúl. Ég er ekkert spes kúl að búa í Kungsholmen. Okkar hverfi er aðal hverfi einhleypinga í Stokkhólmi og þar sem Stokkhólmur er mesta einhleypingaborg í heimi bý ég í heimsins mest einhleypingahverfi. Gaman að því, þá þarf maður ekki að vera að horfa upp á hamingjusöm kærustupör daginn út og inn.
Plan kvöldsins er að hangsa heima og glápa á sjónvarpið og éta einhverja óhollustu. Ekki er þó beisin sjónvarpsdagskrá fyrir kvöldið, ekki einu sinni Disneymynd sem RÚV býður áhorfendum sínum upp á hverja helgi. Við erum bara með 4 stöðvar; 2 ríkisstöðvar, TV4 og svo finnska stöð sem sýnir bara finnsk efni. Af þessum þrem sem ég get mögulega horft á er engin bíómynd í kvöld. Það mest spennandi sem boðið er upp á er heimildarmynd um Kastró. Finnst eitthvað glatað að horfa á fræðsluefni á laugardagskvöldi á meðan flestir eru fullir á barnum.

Engin ummæli: