föstudagur, desember 22, 2006

Jól jól

Heim á morgun. Ef ekki verður enn brjálað veður. Eins gott að ég komist til Akureyrar á aðfangadag. Annars verð ég þunglynd langt fram á næsta ár.
Var að pakka og hlustaði á meðan á íslenskt jólaútvarp á netinu svona til að koma mér í gírinn. Finnst einhvern veginn ekkert vera jól. En djöful eru til mörg leiðinleg jólalög. T.d. þetta strumpadrasl. Þá er ég að tala um nýja strumpadótið ekki jólakasettuna með strumpunum sem var til þegar ég var lítil fyrir tja, eins og tveimur áratugum síðan (ó mæ). Samt alltaf ákveðin stemning í því að heyra Svölu Björgvins syngja "ég hlakka svo til" og jafnvel Ladda syngja "snjókorn falla". Myndi aldrei fyrir mitt litla líf hlusta á slíka tónlist ef ekki væri textinn um jól. Skrítið!
Ekki var miklu pakkað niður hjá mér nema jólagjöfum. Annað hvort verð ég að vera í sömu fötunum öll jólin eða leita á náðir Dagnýjar litlu. Tók bara með mér kjóla og hælaskó og svo einar tvennar gallabuxur því sökum þess augljósa passa ég eigi í buxur löngu og mjóu systur minnar. Nema hún sé orðin feit. Hvað veit maður, það getur margt gerst á þeim 4 mánuðum sem við höfum ekki sést.
Vonandi sé ég sem flest ykkar sem þetta lesa næstu dagana. Danmerkur liðið mun ég því miður ekki sjá (þakka þó gott boð Maja mín) svo ég óska þeim gleðilegra jóla. Ykkur hin smelli ég á kossi þegar við sjáumst.
Gleðileg jól!

Engin ummæli: