sunnudagur, febrúar 25, 2007

Um helgina hef ég...

-Keyrt foreldra mína í partý og farið síðan heim sjálf og horft á sjónvarpið
-Leikið við Dódó (heimilisköttinn) með jólakúlu
-Keypt mér sundgleraugu og synt með þau og séð eftir að hafa keypt þau því þá sér maður svo vel hvað laugin er subbó
-Farið á Karólínu með litla bró
-Náð ágætis tökum á smells like og æft mig á byrjuninni á Boys don´t cry með Cure. Er enn sjúklega léleg en komin með sigg framan á puttana. Rokk og ról!
-Spilað Popp punkt við Egil og unnið.
-Spilað Popp punkt við sama Egil og tapað
-Farið aftur og Karólínu, ein (og er þar enn!)
-Pirrað mig á því að á Karólínu er stór flatskjár og nú er einhver fótboltaleikur og því einhver sportidjót hér
-Farið í Hagkaup og keypt mér bland í poka á 50% afslætti (tvímælalaust hápunktur helgarinnar)
-Verið kölluð ónytjungur sökum atvinnuleysis míns (af örverpinu í fjölskyldunni)
-Horft á fjölskyldumynd á Rúv með góðan boðskap; partýjast vont, fjölskyldulíf gott
-Tekið ákvörðun að fara í brúðkaup til Danmerkur í júlí

Hver segir svo að það sé ekki nóg að gerast á Akureyri?

föstudagur, febrúar 23, 2007

Atvinnuleysingjafundur

Var að koma af atvinnuleysingjafundi sem er skylda fyrir þá sem vilja krunka út einhverjar bætur. Ég er svo fordómafull að ég bjóst við að ég yrði eina manneskjan sem ekki væri eins og róni til fara en svo voru hinir atvinnuleysingjarnir bara venjulegt fólk. Merkilegt alveg hreint!
Kvennsan sem hélt fundin var svona týpísk miðaldra gribba sem bunaði út úr sér staðreyndum um atvinnuleysisbætur og horfði á okkur hornauga. Einhver kollegi minn (sem sé atvinnuleysingi) opnaði dyrnar þegar um 10 mínútur voru liðnar af fundinum og hún hreytti í hann að fundurinn væri langt kominn og hann gæti bara komið næsta. Greyið hrökklaðist því í burtu. Var skikkað að koma á fund atvinnuráðgjafa þann 15. mars en ég vona nú að þá verði ég komin í einhverja vinnu þá. Segi svo sem ekki að það sé eitthvað agalegt að vera atvinnulaus svona þegar maður býr og étur frítt hjá pabba og mömmu. Frekar ljúft líf alveg hreint. En það er víst föstudagur (þó hjá mér séu allir dagar frídagar þannig að það breytir nú litlu), en ég óska ykkur alla vega góðrar helgar.

miðvikudagur, febrúar 21, 2007

Akureyrarlíf

Lífið á Akureyri heldur sinn vanagang. Ég slæpist hér um og nýjasta áhugamálið mitt er að æfa Smells like teen spirit á rafmagnsgítar bróður míns. Já, maður er töff! Atvinnulaus alþjóðastjórnmálafræðingur að nálgast þrítugt að rembast við að spila unglingarokk á rafmagnsgítar. Þess má þó einnig til gamans geta að einnig hef ég æft ýmis lög sem henta betur mínum aldursflokki, til að mynda hið sívinsæla Vor í Vaglaskógi sem við bróðir minn tókum einmitt upp, svo það er aldrei að vita að við systkinin sláum brátt í gegn.
Annars er ég bara enn að bíða eftir svörum um vinnur sem ég hef sótt um. Svona til að eignast einhvern pening fór ég á stúfana um það hvernig skal sækja um atvinnuleysisbætur. Það er nú ekki fyrir hvern sem er að redda sér svoleiðis. Ef fólk er eitthvað að ergja sig yfir því að einhverjir aumingjar sem nenna ekki að vinna hangi á þessum bótum ár eftir ár, segi nú bara, þetta eru sko engir aumingjar ef þeir gátu í fyrsta lagi orðið sér út um bótarétt og bara vegna þess að þeim hefur tekist það í upphafi verður að bera ákveðna virðingu fyrir því og leyfa þessu augljóslega klára fólki að vera á bótum. Held alla vega ekki að mér takist að fá út nokkrar bætur, slík er skriffinnskan. Frekar súrt að í stað þess að leita að vinnu skuli maður eyða allri orkunni í að sækja um atvinnuleysisbætur.

föstudagur, febrúar 16, 2007

Kynþokkakeppni

Nú hefur í dag staðið yfir hið árlega val Rásar 2 á kynþokkafyllstu konu Íslands. Eins og þetta sé ekki nógu hallærislegt val fyrir gera margir vont enn verra með því að kjósa konuna sína! Kommon kallar! Það veit engin hver konan ykkar er og hún er örugglega ekkert sérlega sexy mama og ef hún væri það yrðuð þið ógeðslega fúlir ef einhver annar myndi kjósa hana. Ef þið viljið gleðja konurnar ykkar látið ykkur detta eitthvað annað í hug en að bögga hlustendur Rásar 2 á upptalningu einhverja Guðrúnar Kristjánsdætra og Júlía Guðjónsdætra úti í bæ.
Spurði annars litla bróður minn hvort hann myndi ekki kjósa mig (að þessu spurði ég smjattandi á bakkelsi, með gleraugu og í flíspeysu af mömmu). Hann svaraði því til að það þætti honum viðbjóðslegt, að honum ætti að finnast stóra systir sín kynþokkafull. Býst sem sé ekki við neinum atkvæðum í ár frekar en hin fyrri.

miðvikudagur, febrúar 14, 2007

Karó

Eftir yndislega sundferð sit ég nú á Kaffi Karólínu og sötra kaffi og hangi á netinu. Skrítið að vera hér ein að degi til en ekki umkringd góðum vinum með öl við hönd.
Er orðin nokkuð meðtekin af koffínneyslu svo maður ætti nú kannski ekki að vera skrifa mikið undir slíkum áhrifum.
Enda hef ég svo sem ósköp lítið að segja. Líf mitt er afar ljúft og rólegt þessa dagana þar sem Guiding light er hápunktur dagsins. Talandi um þann gæðaþátt, held ég drífi mig heim til að ná honum. Missti sko af í gær og eins og þið vitið þá er atburðarásin svo gríðar hröð svo ekki má ég missa af meira.

þriðjudagur, febrúar 13, 2007

Sá blái

Vildi benda á að blái liturinn á síðunni hefur enga pólitíska merkingu enda er ég langt frá því að vera blá þegar kemur að stjórnmálum.
Fannst bara viðeigandi að hafa síðuna bláa þar sem hér er fimbulkuldi og ég haldin krónískum handkulda, sem sé er blá af kulda.
Nei, Eygló mín, ég er enn réttum megin í stjórnmálunum og ekki saka mig aftur um slík svik sem það væri að ganga til liðs við óvininn blámann.

Líf mitt sem auðnuleysingi

Lífið mitt á Akureyri heldur áfram. Enn sem komið er er ég auðnuleysingi sem fer á fætur klukkan 10 á morgnana og horfi á Skjá 1 fram eftir nóttu. Set mér ákveðin verkefni svona til að hafa eitthvað fyrir stafni, svona eins og að fara með bréf í póst, labbitúr með Núma og önnur krefjandi verkefni.
Eins og venjulega þegar ég kem heim frá útlöndum eftir einhvern tíma er ég feitari en venjulega svo þá er tilvalið að einbeita sér að breytingum í þeim efnum. Þar sem ég óverdósaði á ræktinni á sínum tíma get ég ekki hugsað mér að byrja á þeim hryllingi aftur svo ég hef ákveðið að reyna að stunda sund. Nú hvá sjálfsagt margir enda hefur mér ætíð þótt sund afar leiðinleg íþrótt og ekki síst subberíið í kringum hana. Þið vitið, hár og annað ógeð á gólfinu í sturtuklefanum sem og allur vibbinn í lauginni sjálfri. En nú verður tekið á því sko. Fjárfesti í einum Speedo í gær og fór mína fyrstu ferð í Akureyrarlaug með það fyrir augum að synda. Það hefur eflaust ekki gerst síðan í 3ja bekk í MA þegar maður var neyddur til sundsins. Enn þá finnst mér gólfið í sundinu pínu ógeðslegt en ekki eins og áður þó. Varð þó að tipla á tánum þegar ég kom upp úr en þá var sturtukonan ekki nýbúin að moppa. En sundferðin var engu að síður ánægjuleg þó enn sé ég drulluléleg að synda. Við skulum spyrja að leikslokum hvernig þessu átaki mínu mun reiða af.

mánudagur, febrúar 12, 2007

Nýtt líf og nýtt útlit.
Allt að gerast!

föstudagur, febrúar 09, 2007

Komin heim

Óþreyjufullir aðdáendur geta tekið gleði sína á ný! Hér kemur blogg!
Kom til landsins á föstudaginn en þar sem ég sendi draslið mitt með Samskip þurfti ég að bíða eftir því sem frestaðist sökum tollskoðunar og almennrar skriffinsku. Brunaði milli Samskips og Tollstjórans í Reykjavík með þá pappíra sem krafist er til að fá leyst út það góss sem í pappakössunum mínum var, H&M föt, hælaskór og notaðir kjólar.
Þar sem ég var hlaðin þessu dóteríi var ómögulegt að fara norður með flugi og kom ég því með rútu til Akureyrar í dag. Landið var fagurt sem aldrei fyrr sem sannfærði mig enn frekar um hve rétt og góð ákvörðun það var að koma aftur til Íslands.
Er nú búin að koma mér fyrir í kjallaranum á Austurbyggð 6 og fékk dýrindis kjötsúpu í kvöldmat þannig að ég er sátt og sæl. Enn sem komið er alla vega. Veit ég ei hvað framtíðin ber í skauti sér og hvernig ég ætla að vinna fyrir mér hér í bæ. Fer á stúfana í næstu viku.